Hljómsveit Jónatans Ólafssonar (1947-66)

Auglýsing með hljómsveit Jónatans frá 1959

Fjölmargar hljómsveitir störfuðu undir stjórn píanóleikarans og lagahöfundarins Jónatans Ólafssonar en heimildum ber ekki saman um starfstíma hljómsveita hans, þannig er hann ýmist hafa starfrækt hljómsveitir frá árinu 1947 eða 1950 og allt til 1959 eða 1966.

Jafnframt er talað um hljómsveit í hans nafni sem starfaði á Hótel Birninum í Hafnarfirði á árunum 1941-45 – sú sveit er sögð hafa verið skipuð Þórhalli Stefánssyni trommuleikara, Adolf Theodórssyni saxófónleikara, Höskuldi Þórhallssyni trompetleikara, Bjarna Guðjónssyni [?], Magnúsi Randrup harmonikkuleikara og Henna Rasmus píanóleikara ásamt Jónatani, eitthvað stemmir þó ekki hér því Henni Rasmus var píanóleikari rétt eins og Jónatan, því er óskað eftir frekari upplýsingum um þess sveit.

Fyrsta hljómsveit Jónatans Ólafssonar er almennt sögð hafa starfað sem húshljómsveit í Þórscafe sem þá var staðsett við Hlemm. Ekki liggur reyndar fyrir hverjir skipuðu sveitina með honum á upphafsárunum en árið 1948 mun Haukur Morthens hafa sungið með sveitinni – reyndar í Mjólkurstöðinni en um það leyti var hann að verða þekktur söngvari. Haustið 1949 lék sveitin undir söng Hallbjargar Bjarnadóttur á nokkrum tónleikum sem hún stóð fyrir og þann vetur (1949-50) lék Grettir Björnsson harmonikkuleikari með sveitinni.

Hljómsveit Jónatans Ólafssonar

Þegar nýr áratugur gekk í garð var Jónatan með sveit sína í Breiðfirðingabúð og síðan Röðli en svo í mörg ár á eftir starfaði sveit hans í Þórscafe við miklar vinsældir þar sem hún lék gömlu dansana af miklum móð. Enn er óljóst hverjir skipuðu sveit hans framan af, hún mun ýmist hafa verið tríó, kvartett eða kvintett og lék Kristján Hjálmarsson klarinettu- og saxófónleikari með henni um tíma og árið 1953 gekk Þorsteinn Eiríksson trommuleikari til liðs við hana og lék með henni um tveggja ára skeið. Um það leyti voru Axel Kristjánsson bassaleikari, Garðar Jóhannesson harmonikkuleikari og Guðmundur Vilbergsson trompetleikari einnig í sveitinni með Jónatani. Á þeim tíma sungu Ragnar Bjarnason og Sigurður Ólafsson (bróðir Jónatans) nokkuð með sveitinni og svo einnig Skapti Ólafsson sem tók líklega við trommuleikarahlutverkinu af Þorsteini.

Hljómsveit Jónatans lék í Þórscafe fram til ársins 1955 að minnsta kosti en sveitin fór þá einnig út á land í spilamennsku á sumrin og lék eftir það mun víðar en áður, um það leyti virðist sveitin nokkuð breytt – Garðar harmonikkuleikari var enn í sveitinni sem og Jóhannes G. Jóhannesson faðir hans sem einnig lék á nikku en aðrir meðlimir hennar voru þá Einar B. Waage bassaleikari, Poul Bernburg trommuleikari og bræðurnir Jónatan píanóleikari og Sigurður söngvari. Hugsanlega var sveitin á köflum þunnskipaðri, t.a.m. munu þeir Jónatan, Garðar og Skapti stundum hafa komið fram sem tríó.

Hljómsveit Jónatans Ólafssonar

Sveitin starfaði áfram en litlar upplýsingar er að finna um skipan hennar á síðari hluta sjötta áratugarins, Sigurður söng áfram með sveitinni, Haukur Morthens stöku sinnum líka og svo virðist sem Guðjón Matthíasson hafi einnig verið söngvari hennar um tíma, e.t.v. lék hann einnig á harmonikku í hljómsveitinni – þá liggur fyrir að Þorsteinn Eiríksson trommuleikari lék aftur með sveitinni undir lok áratugarins. Hljómsveit Jónatans mun hafa starfað í Breiðfirðingabúð um tíma áður en Árni Ísleifsson er sagður hafa tekið við henni vorið 1959.

Jónatan virðist starfrækja nýja hljómsveit í kjölfarið en litlar upplýsingar er að finna um hana eða hvar sú sveit lék, heimild segir t.d. að hún hafi leikið á hjónaböllum í Keflavík og þar þar hafi þeir Haukur Sighvatsson trommuleikari og Garðar Jóhannesson harmonikkuleikari starfað með Jónatani en Sigurður sungið. Sveitin hafði komið fram í útvarpssal í nokkur skipti og til eru upptökur sem sagðar eru hafa verið gerðar þar árið 1960, og komu síðar út á plötu með Sigurði Ólafssyni – Útvarpsperlur: Sigurður Ólafsson syngur (2002). Einnig má heyra þrjú lög í nafni sveitarinnar á plötu sem ber heitið Regndropinn (2007) en hana gaf Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum út í litlu upplagi ásamt öðru efni úr fórum Ríkisútvarpsins. Þessi sveit er ýmist sögð hafa verið starfandi til 1964 eða 66.

Hljómsveit Jónatans Ólafssonar

Þegar Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) hélt upp á hálfrar aldar afmæli sitt árið 1982 var hljómsveit Jónatans endurvakin og þeir félagar léku þá gömlu dansa tónlist í anda Þórscafe áranna, þar var sveitin skipuð þeim Jónatani, Garðari harmonikkuleikara, Skapta trommuleikara, Magnúsi Randrup harmonikkuleikara og Njáli B. Sigurjónssyni bassaleikara. Lag með þeirri sveit kom út á plötu sem gefin var út af sama tilefni.

Nokkuð vantar upp á að upplýsingar um hljómsveit/ir Jónatans Ólafssonar séu fullnægjandi og til eru heimildir sem herma að Stefán Þorleifsson saxófónleikari og trommuleikararnir Jóhannes Eggertsson, Gunnar Jónsson og Guðmundur R. Einarsson hafi leikið með sveit hans á einhverjum tímapunkti. Hér er því óskað eftir frekari upplýsingum.