Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar (1961 / 1965-92)

Hljómsveit Ragnars 1965

Saga hinnar einu sönnu Hljómsveitar Ragnars Bjarnasonar er tvíþætt, annars vegar lék sveitin um árabil á Hótel Sögu við miklar vinsældir – reyndar svo miklar að þegar ný hljómsveit tók við henni var sú sveit nánast púuð niður af tryggum og prúðbúnum miðaldra dansleikjagestum, hins vegar lék sveitin yfir sumartímann ásamt fleiri skemmtikröftum undir nafninu Sumargleðin og þar fékk landsbyggðin að njóta sveitarinnar og þess sem hún hafði upp á að bjóða í formi skemmtiþátta og svo tónlistar. Sveitin lék aukinheldur inn á fjölmargar hljómplötur á þeim tuttugu árum sem hún starfaði.

Fyrsta hljómsveitin sem lék í nafni Ragnars Bjarnasonar starfaði hins vegar sumarið 1961 og virðist gagngert hafa verið sett saman fyrir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem hún skemmti hátíðargestum, engar frekari upplýsingar er að finna um þessa sveit þ.e. hverjir skipuðu hana eða hver hljóðfæraskipan hennar var.

Það var svo haustið 1965 sem hin eiginlega Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar var stofnuð, Ragnar hafði þá sungið með Hljómsveit Svavars Gests um tíma en Svavar leysti sveitina upp um sumarið til að snúa sér að útgáfumálum. Sveit Ragnars var strax ráðin sem húshljómsveit í Súlnasal Hótel Sögu og líklega hefði engan órað fyrir að hún ætti eftir að starfa þar eins lengi og raun bar vitni. Í upphafi voru meðlimir hennar auk Ragnars sem sá að sjálfsögðu um sönginn, þeir Grettir Björnsson harmonikku- og klarinettuleikari, Árni Scheving bassa-, saxófón- og víbrafónleikari, Sigurður Þ. Guðmundsson píanóleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari og Ragnar Páll Einarsson gítarleikari. Reyndar mun sveitin eitthvað hafa sinnt sveitaballaspilamennsku tengt héraðsmótum sumarið á undan (hugsanlega ennþá undir merkjum hljómsveitar Svavars Gests) en á einum slíkum dansleik í Aratungu munu um 1150 manns hafa borgað sig inn – ekki má gleyma því að Ragnar var á þessum tíma einn vinsælasti söngvari landsins og hafði gefið út hvern stórsmellinn á fætur öðrum, hins vegar voru að verða kynslóðaskipti um þetta leyti þar sem bítlasveitir yngri manna voru að taka við keflinu og því var eðlilegt næsta skref Ragnars og félaga að leika fyrir aðeins eldra fólk, sem einmitt sótti Hótel Sögu.

Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar

Sveitin naut strax mikilla vinsælda á Sögu og þar lék hún mörg kvöld vikunnar yfir vetrartímann en kom einnig fram stöku sinnum á annars konar skemmtunum, t.a.m. á styrktartónleikum í Háskólabíói sem báru yfirskriftina Herferð gegn hungri. Á Sögu voru bæði almennir dansleikir með sveitinni en einnig lokaðar samkomur á borð við árshátíðir, spilakvöld og ýmis einkasamkvæmi, þegar voraði fóru þeir félagar að hugsa sér til hreyfings og yfir sumartímann fór sveitin mikinn á héraðsmótum um allt land bæði á vegum framsóknarflokksins og sjálfstæðisflokksins. Þá var hljómsveitin fastur liður um árabil í dagskrá Reykjavíkur-borgar á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Hljómsveit Ragnars hélt lengi fastri liðsskipan og litlar breytingar urðu á henni, Ragnar Páll gítarleikari hætti þó árið 1966 til að sinna myndlistinni og tók Jón Sigurðsson sæti hans í sveitinni, ári síðar urðu mun meiri hreyfingar á skipan hennar þegar Jón Páll Bjarnason gítarleikari, Guðjón Ingi Sigurðsson trommuleikari og Árni Elfar píanó- og básúnuleikari gengu til liðs við sveitina í stað Jóns, Guðmundar og Sigurðar, aðrir liðsmenn voru þá Árni Scheving, Grettir og svo auðvitað Ragnar sjálfur sem stundum greip í píanó eða bassa þegar svo bar undir en sveitarmeðlimir áttu til að skiptast á hljóðfærum. Einnig hafði Sveinn Ingason gítarleikari þá leikið með sveitinni um hríð um þetta leyti.

Eftir túr um héraðsmót og þjóðhátíð í Eyjum sumarið 1967 sendi sveitin frá sér fjögurra laga smáskífu á vegum SG-hljómplatna þar sem Ragnar söng lög Þórunnar Franz, af þeirri plötu naut lagið Föðurbæn sjómannsins nokkurra vinsælda. Þá um vorið hafði sveitin einnig komið fram í Ríkissjónvarpinu en það var þá tiltölulega nýtekið til starfa, þeir félagar áttu eftir að leika margsinnis í sjónvarpssal og varð þannig vel þekkt meðal landsmanna allra.

Hljómsveit Ragnars árið 1967

Í maí 1968 var sveitin fengin til að flytja lag sem tileinkað var H-deginum en á þeim degi var skipt í hægri umferð hér á landi, um svipað leyti sendi Ragnar svo frá sér aðra fjögurra laga skífu þar sem sveitin lék með honum. Á þeirri plötu var að finna stórsmellinn Úti í Hamborg sem Jón Sigurðsson (Jón í bankanum) söng með honum en Jón samdi einmitt bæði lag og texta. Það lag hefur án nokkurs vafa fengið að hljóma á dansleikjum sveitarinnar um sumarið þegar 22 héraðsmót voru heimsótt en með í för það sumar voru leikararnir Rúrik Haraldsson og Róbert Arnfinnsson, ennfremur bættist söngkonan Erla Traustadóttir í hópinn og átti svo eftir að syngja með sveitinni áfram á Sögu. Þetta sumar fór sveitin reyndar einnig mikinn á höfuðborgarsvæðinu því hún lék á nokkrum kosningafundum Gunnars Thoroddsen fyrir forsetakosningarnar sem þá stóðu fyrir dyrum – m.a. lék sveitin undir söng Fjórtán Fóstbræðra á slíkri samkomu í Laugardalshöll. Allt kom þó fyrir ekki, Kristján Eldjárn var kjörinn forseti.

Um haustið 1968 þegar sveitin sneri aftur á Hótel Sögu urðu miklar breytingar á hljómsveit Ragnars en þá hættu allir meðlimir sveitarinnar nema Grettir harmonikkuleikari, Ragnar og Erla en í stað hinna komu Hrafn Pálsson bassaleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari (sem hafði verið áður í sveitinni) og svo Helgi Kristjánsson gítarleikari. Nokkrar áherslubreytingar urðu veturinn 1968-69 því nú var einnig farið að bjóða stöku sinnum upp á sams konar skemmtidagskrá á Hótel Sögu og sveitin hafði komið að á héraðsmótunum, nú voru það Ómar Ragnarsson og Sirrý Geirs sem komu fram með sveitinni.

Sumarið 1969 var með svipuðum hætti og áður þegar Ragnar og hljómsveit hans skemmtu á um 20 héraðsmótum um land allt en Gísli Alfreðsson og Ómar voru með í för að þessu sinni, þarna var í raun hafið samstarf þeirra Ragnars og Ómars sem ekki löngu síðar átti eftir að verða að Sumargleðinni. Fjögurra laga plata með Ragnari kom út síðsumars þar sem sveitin lék undir söng hans og á þeirri plötu var m.a. að finna lagið Væru, kæru, tæru dagar sumar en það naut nokkurra vinsælda, Tónaútgáfan gaf þessa plötu út.

Hljómsveit Ragnars 1969

Aðrar hljómsveitir leystu sveitina af á Hótel Sögu á sumrin en einnig léku stöku sinnum gestasveitir með henni til að bjóða upp á fjölbreytileika og e.t.v. einnig að fá yngra fólk í Súlnasalinn, þannig lék Trúbrot eitt sinn með sveitinni þarna um haustið 1969 en sú sveit hafði þá nýverið verið stofnuð upp úr Hljómum og Flowers.

Á þessum tíma var Erla söngkona hætt en annars voru í sveitinni með Ragnari þeir Árni Elfar, Grettir, Guðmundur, Helgi og Örn Ármannsson sem þó líklega leysti Hrafn af hólmi tímabundið, Hrafn var þó kominn aftur í sveitina síðla hausts þegar hún fór vestur til Bandaríkjanna til að leika á skemmtun Íslendingafélagsins í New York. Þar bauðst þeim félögum einnig að leika í djassklúbbi en sveitin átti eftir að fara oftar í slíkar reisur vestur um haf.

Nýr áratugur gekk í garð og hljómsveitin hafði þarna verið starfandi í hartnær fimm ár á Sögu, hún fór enn einn sumartúrinn um héraðsmót sjálfstæðisflokksins og enn var Ómar með í för en hann skemmti einnig með sveitinni þegar hún kom fram á skemmtun í Tónabæ síðsumars og hélt svo áfram að troða upp með skemmtidagskrá í nokkur skipti þegar sveitin mætti aftur á Sögu um haustið – hljómsveitarmeðlimir voru þá sjálfir farnir að taka þátt í alls konar gríni, stuttum leikþáttum sem þeir Ragnar, Ómar og Hrafn sáu aðallega um að semja en Svavar Gests mun einnig hafa komið að því, hann kom einnig eitthvað fram með þeim um haustið ásamt söngkonunni Kristínu Ólafsdóttur. Þrjú á palli og eftirherman Karl Einarsson voru einnig meðal skemmtiatriða svo úr varð eins konar hálfgerð kabarett sýning.

Á Sögu voru sem fyrr almennir dansleikir í bland við árshátíðir og aðrar samkomur en nú var einnig blásið til svokallaðra Útsýnarkvölda þar sem ferðaskrifstofan Útsýn var með kynningar og sveitin lék svo á dansleik á eftir en Íslendingar voru um það leyti að kynnast utanlandsferðum til Spánar, ferðaskrifstofan Sunna fylgdi einnig á eftir með sams konar kynningar.

Ragnar og félagar 1970

Segja má að Sumargleðin svokallaða hafi orðið til sumarið 1971 (stundum talað um 1972) þegar hljómsveitin sagði endanlega skilið við stjórnmálaflokkana á héraðsmótunum en hóf þess í stað sjálf að halda stórar samkomur í félagsheimilum stórum jafnt sem smáum á landsbyggðinni þar sem tveggja tíma skemmtidagskrá var fyrst haldin og í kjölfarið dansleikur á eftir. Ástæða þess að sveitin tók upp á þessu var að losna undan stöðugu ræðuhaldi stjórnmálaforkálfanna á héraðsmótunum sem varð iðulega til þess að samkomugestir, sérstaklega af yngra taginu, yfirgáfu svæðið rétt á meðan og hljómsveitin þurfti því stundum að byrja að leika fyrir hálftómum sal. Með því að stjórna sjálf dagskránni á undan með eintómum skemmtiatriðum eins og leikþáttum, bingói, happdrætti og ýmsum leikjum fengu þeir miklu meira af fólki, miklu meiri stemningu og miklu meiri tekjur – auk þess varð þetta mikið uppábrot fyrir annars fremur dauft skemmtanalífið í sumum afkimum landsbyggðarinnar. Héraðsmótin lögðust reyndar ekki af strax en fleiri hljómsveitir fetuðu í spor Sumargleðinnar með sams konar skemmtidagskrár þar sem eftirhermur, grínistar og fatafellur komu við sögu. Sumargleðinni er gerð skil í sérumfjöllun á Glatkistunni.

Og þannig gekk þetta fyrir sig allan áttunda áratuginn, hljómsveit Ragnars breyttist í Sumargleðina á sumrin og lék á hundruð skemmtana og dansleikja í flestum félagsheimilum landsins við miklar vinsældir en á Hótel Sögu yfir vetrartímann og sinnti því bæði landbyggðarfólki og borgarbúum með ólíkum hætti. Þetta gerði sveitin án þess að senda frá sér plötur í eigin nafni eða vera í sviðsljósinu, það voru hins vegar Ragnar og Ómar sem voru í framlínunni þegar sveitin fór um félagsheimilin á sumrin og um miðjan áratuginn bættist Bessi Bjarnason í hópinn. Þá voru fjölmargir aðrir skemmtikraftar sem tróðu upp með Sumargleðinni eins og Karl Einarsson og Jörundur Guðmundsson eftirhermur, Halli & Laddi og gestahljóðfæraleikarar eins og Viðar Alfreðsson, Rúnar Georgsson og Halldór Pálsson blásarar.

Hljómsveit Ragnars og Erla

Árið 1972 höfðu orðið nokkrar breytingar á skipan hljómsveitarinnar, Ragnar, Árni, Helgi og Hrafn voru enn meðlimir hennar en Reynir Jónasson harmonikkuleikari og Stefán Jóhannsson trymbill höfðu leyst Gretti og Guðmund af hólmi. Sveitin skartaði stundum söngkonum tímabundið og t.a.m. söng María Baldursdóttir með henni á áramótadansleik Ríkisútvarpsins 1972-73, þess má og geta að Guðrún Á Símonar söng með sveitinni á plötu sem gefin var út árið 1973 og bar nafnið Skaup ´73 en hún hafði að geyma blöndu tónlistar og gríns þar sem Karl Einarsson og Hrafn Pálsson fóru mikinn í eftirhermum og söng við undirleik sveitarinnar en Ragnar kom þar sjálfur reyndar hvergi nærri. Sveitin lék á þessum árum lítið utan Hótel Sögu á höfuðborgarsvæðinu en þó stöku sinnum á 17. júní skemmtunum í miðborginni og kom einnig árlega á Hrafnistu og skemmtu íbúum þar – þó lék sveitin nokkuð á höfuðborgarsvæðinu þegar hátíðarhöld í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar stóðu sem hæst sumarið 1974.

Um miðjan áratuginn höfðu orðið breytingar á sveitinni en sveitin var sumarið 1975 skipuð þeim Ragnari, Árna Scheving saxófón- og víbrafónleikara, Birgi Karlssyni gítarleikara, Jóni Sigurðssyni bassaleikara og Stefáni Jóhannssyni trommuleikara og þá hafði Þuríður Sigurðardóttir söngkona einnig bæst í hópinn og söng svo með sveitinni á Sögu um haustið en þá voru aftur heilmiklar breytingar á skipan hennar – Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Andrés Ingólfsson saxófónleikari og Grímur Sigurðsson gítarleikari komu inn en sá síðast taldi söng líka með Þuríði og Ragnari. Grímur og Þuríður urðu fastskipaðir liðsmenn sveitarinnar næstu misserin en árið 1976 kom svo út dúettaplata með Ragnari og Þuríði á vegum SG-hljómplatna sem bar titilinn Ragnar og Þuríður syngja lög eftir Jónatan Ólafsson, sveitin lék undir á þeirri plötu en reyndar undir stjórn útsetjarans, Jóns Sigurðssonar.

Hljómsveit Ragnars 1978

Grímur og Þuríður störfuðu með hljómsveit Ragnars til ársins 1978 en þá um haustið auglýsti hún eftir nýrri söngkonu, Edda Sigurðardóttir tók við því hlutverki og söng með sveitinni í nokkra mánuði en Eyþór Stefánsson gítarleikari (og söngvari) tók sæti Gríms, um svipað leyti tók Carl Möller hljómborðsleikari við af Árna Scheving en aðrir meðlimir voru þá Jón bassaleikari, Stefán trommuleikari og Andrés saxófónleikari. Um það leyti kom út önnur plata þar sem sveitin lék reyndar óvenjulegt hlutverk en á henni lék hún ofan á gamlar upptökur með Sigfúsi Halldórssyni – lög sem áður höfðu komið út með Sigfúsi einum sem söng og lék á píanó, platan hét einfaldlega Sigfús Halldórsson syngur eigin lög.

Þuríður Sigurðardóttir kom aftur inn í sveitina um áramótin 1978-79 þegar sveitin lék í áramótaþætti í Ríkisútvarpinu og söng svo með henni út Sumargleðisvertíðina en þegar sveitin birtist á nýjan leik á Sögu um haustið hafði María Helena Haraldsdóttir tekið við sem söngkona sveitarinnar, hún hafði þá um sumarið getið sér gott orð sem söngkona hljómsveitarinnar Íslensk kjötsúpa.

María Helena söng með hljómsveit Ragnars til áramóta 1982-83 en starfaði reyndar aldrei með sveitinni á sumrin þegar Sumagleðin var við völd, Sumargleðin sendi einmitt frá sér plötuna Sumargleðin syngur árið 1981 og svo Af einskærri sumargleði þremur árum síðar en sveitin kom ekki nálægt spilamennsku á þeim plötum, þar voru þó Ragnar og Þuríður (á síðari plötunni) sem sungu auk Ómars, Bessa, Þorgeirs Ástvaldssonar, Hermanns Gunnarssonar og Magnúsar Ólafsson sem þá voru einnig hluti af Sumargleðis-batteríinu en voru aldrei meðlimir hljómsveitar Ragnars.

Hljómsveit Ragnars og María Helena

Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar skemmti í nokkur skipti ásamt Sumargleðinni á Hótel Sögu haustið 1983 en hætti síðan spilamennsku á hótelinu, þá hafði hún verið húshljómsveit þar í átján ár. Ekki liggur alveg fyrir hvernig var með starfsemi sveitarinnar um veturinn en sumarið eftir það (1984) fór hópurinn enn einn Sumargleðitúrinn en það sumar kom síðari plata sveitarinnar út – sú plata gekk ekki eins vel og sú fyrri og mun hafa verið komin ákveðin þreyta í hópinn þá enda höfðu þá enn orðið kynslóðaskipti í sveitaballabransanum en þeir félagar voru þá að keppa við tónlistarmenn á ballmarkaðnum sem voru 25 til 30 árum yngri en þeir sjálfir, hljómsveitir á borð við Skriðjökla og Bítlavinafélagið, og stutt var þá orðið í sveitir eins og Greifana, Sálina og fleiri. Sumargleðin átti eftir að koma fram við ýmis tilefni næstu áratugina en hljómsveit Ragnars var þá víðs fjarri.

Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar starfaði þó eitthvað áfram, lék á Broadway um tíma haustið 1985 en hvarf svo af sjónarsviðinu í nokkur ár þar til hún birtist aftur í Ásbyrgi á Hótel Ísland haustið 1989, þá var sveitin skipuð Árna Elfar píanóleikara, Guðmundi Steingrímssyni trommuleikara, Gunnari Hrafnssyni bassaleikara og Edwin Kaaber gítarleikara ásamt Ragnari. Sumarið 1992 var Ragnar svo með sveit sem skemmti í Skíðaskálanum í Hveradölum en með honum þá voru Guðmundur, Carl Möller píanóleikari og Mark [Brink?] bassaleikari. Það hefur verið í síðasta skipti sem hljómsveit var starfandi í nafni Ragnars, Ragnar var þó síður en svo hættur að syngja þótt hann drægi sig í hlé um skeið og átti eftir að starfa við söng í áratugi eftir það. Sögu hljómsveitar hans var þó lokið.

Efni á plötum