Sumargleðin [1] (1972-86)

Sumargleðin 1976

Sumargleðin var ómissandi þáttur í sveitaballamenningu áttunda og níunda áratugarins og beinlínis nauðsynlegur sumargestur skemmtanaþyrstra landsbyggðarmanna þar sem hópurinn troðfyllti hvert félagsheimilið á fætur öðru sumar eftir sumar. Þegar best lét skemmti Sumargleðin allt að þrjátíu og fimm til fjörutíu sinnum á tæplega tveggja mánaða sumartúrum sínum í júlí og ágúst, og munaði ekki um tveggja tíma skemmtidagskrá með leiknum og sungnum atriðum, bingói og öðrum leikjum áður en sjálfur dansleikurinn skall á – nærri má geta að slíkar skemmtanir hafi spannað sex tíma og þá er ekki talinn með sá tími sem fór í að róta, stilla upp og ganga frá að loknum dansleik. Að því loknu var stigið upp í rútu og ekið á næsta áfangastað.

Miðað hefur verið við að Sumargleðin hafi verið sett á laggirnar sumarið 1972 en lengi vel var talað um 1971 sem stofnár hennar, og reyndar héldu þeir félagar upp á tíu ára afmælið árið 1980 en þeir vildu meina að þá væru þeir að fara sumartúrinn sinn í tíunda sinn. Reyndar má færa rök fyrir að herlegheitin hafi hafist enn fyrr því Ragnar Bjarnason söngvari hafði farið með hljómsveit sína ásamt Ómari Ragnarssyni skemmtikrafti í mörg sumur á undan um sýslur landsins og skemmt á héraðsmótum sem yfirleitt voru haldin undir merkjum sjálfstæðisflokksins en reyndar einnig framsóknarflokksins. Og ástæðan fyrir því að Sumargleðin var stofnuð var einmitt sú að Ragnar var orðinn þreyttur á stjórnmálatengda hluta héraðsmótanna sem eðli máli samkvæmt snerist nokkuð um að misgóðir ræðumenn úr röðum flokkanna fluttu í púlti hugleiðingar sínar og hjartans mál fyrir héraðsmótsgesti sem flestir voru komnir til að skemmta sér og nenntu tæpast að hlusta á stjórnmálaskörunga flytja ræður um eigið ágæti. Því fór sem fór að Ragnar stakk upp á því við Ómar að þeir færu með hljómsveitina (Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar) og skemmtikrafta og héldu úti skemmtidagskrá og dansleik á eftir án allrar aðkomu flokkanna. Það varð úr og Sumargleðin sló í gegn og starfaði næstu fimmtán árin.

Sumargleðin

Sumargleðin var ekki eiginleg hljómsveit heldur hópur skemmtikrafta undir stjórn Ragnars Bjarnasonar, með öllum innihélt hópurinn yfirleitt um tíu manns – hljómsveit Ragnars og svo söngvara, skemmtikrafta og bílstjóra og tóku allir nokkuð jafnan þátt í gleðinni hvort sem um var að ræða söng, dans eða leikin grínatriði. Ómar og Ragnar voru fyrst og fremst andlit Sumargleðinnar en þekktir skemmtikraftar fylgdu hópnum alla tíð, þar má nefna eftirhermurnar Jörund Guðmundsson og Karl Einarsson, og Halla & Ladda sem voru með eitt sumar. Eftir því sem á leið komst hópurinn í fastari skorður, árið 1976 bættist leikarinn Bessi Bjarnason í hópinn og undir lok áratugarins voru þeir Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson einnig orðnir fastir meðlimir. Hermann Gunnarsson bættist svo í hópinn 1983 þegar hann tók við af Þorgeiri (sem þá tók við forstöðu hinnar nýju Rásar 2), og var með til loka. Framangreindir voru fyrst og fremst með sem skemmtikraftar en sungu einnig og þá var söngkonan Þuríður Sigurðardóttir einnig með í för nokkur sumur sem og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) undir lokin en meðlimir hljómsveitarinnar tóku einnig stundum lagið með Sumargleðinni.

Hljómsveitina skipuðu lengst af auk Ragnars þeir Jón Sigurðsson bassaleikari, Árni Scheving víbrafón- og saxófónleikari, Stefán Jóhannsson trommuleikari, Eyþór Stefánsson gítarleikari og Carl Möller píanóleikari en einnig voru til skemmri tíma liðsmenn eins og Helgi Kristjánsson, Guðmundur Steingrímsson, Örn Ármannsson, Hrafn Pálsson, Árni Elfar, Andrés Ingólfsson, Birgir Karlsson, Grímur Sigurðsson og fleiri. Einnig fylgdu sérstakir gestir Sumargleðinni á köflum s.s. harmonikkuleikararnir Grettir Björnsson og Reynir Jónasson, Einar Bragi Bragason og Rúnar Georgsson saxófónleikarar, Viðar Alfreðsson trompetleikari og fleiri. Þá var Jón T. Ágústsson lengi bílstjóri hópsins en nafni hans Jón Ragnarsson (bróðir Ómars) tók síðar við því hlutverki og var þá einnig titlaður framkvæmdastjóri Sumargleðinnar.

Sumargleðin 1980

Sumargleðin varð fljótlega fastur punktur í skemmtanalífi landsbyggðarfólks og ómissandi þáttur í að brjóta upp amstur daglegs lífs, jafnvel spurðist út að fólk skipulegði sumarfrí sín með tilliti til þess hvenær Sumargleðiballið væri í nágrenninu. Þannig troðfylltu þeir félagar hvert félagsheimilið á fætur öðru og aðlöguðu jafnvel skemmtiatriði sín að einhverju leyti að því samfélagi sem átti við hverju sinni og oft með klúrinni tvíræðni sem var í takt við þáverandi tíðaranda, þannig pikkuðu þeir jafnan upp nöfn helstu framámanna í þorpinu eða hreppnum og höfðu hann að skotspæni við mikla kátínu heimamanna. Slíkt heppnaðist þó ekki alltaf og fleiri en einn meðlimur Sumargleðinnar hefur sagt frá því í viðtölum þegar slíkt mistókst hrapallega á skemmtun á Suðurlandi, þá lék Carl píanóleikari „fræga óperusöngkonu“ í grínatriði og segir þessi fleygu orð: „Ja, það hefur nú enginn kunnað að kyssa almennilega hér í sveitinni nema hann … „ og nefndi nafn á manni í hreppnum – yfirleitt rifnaði salurinn úr hlátri í þessu tiltekna atriði nema að í þetta sinn var kona leidd út hágrátandi en umræddur maður var þá eiginmaður hennar, alræmdur kvennaflagari og var nýfarinn frá henni.

Skemmtiatriði Sumargleðinnar voru yfirleitt stuttur grínsketsar kryddaðir með söng og dansi og það var ómissandi partur af gríninu að þeir félagar klæddu sig upp í kvenmannsgervi en einnig varð ballett-atriði hópsins að klassík. Slík atriði sömdu þeir félagar sjálfir undir stjórn Ragnars og Ómars og eftir að Bessi og Magnús gengu til liðs við hópinn höfðu þeir vana gamanleikara sem á köflum áttu salinn með húð og hári. Þá fengu þeir Sumargleðimenn ballgesti með sér í skemmtilega leiki og bingó þeirra félaga var ómissandi þáttur í gleðinni enda voru þar stórvinningar eins og bíll og sólarlandaferðir í boði.

Ómar, Magnús og Bessi

Túr Sumargleðinnar hófst oftar en ekki í Stapanum í Keflavík í byrjun júlí og svo var keyrt á fullt með prógrammið um land allt, Vestfirðirnir bættust síðastir við en annars voru allir landshlutar undir og þegar mest var, var komið við á fjórða tuga staða fram undir lok ágúst, og skemmt jafnvel frá miðvikudegi fram á sunnudag – skemmtidagskrá og dansleikur. Framan af fylgdi þessu eitthvað svall og sukk hjá hópnum en síðan var tekið fyrir það og sjálfsagt hefði úthaldið aldrei orðið jafn mikið og raun varð ef drykkja og þess konar sull hefði fylgt alla tíð. Lengi vel skemmti Sumargleðin ekki í Reykjavík en eftir að þeir uppgötvuðu að Reykvíkingar væru jafn skemmtanaþyrstir og landsbyggðarfólkið enduðu þeir sumartúrinn á höfuðborgarsvæðinu, fyrstu árin á Hótel Sögu en síðar á Broadway og Hótel Íslandi og voru jafnvel með skemmtanir þar um helgar fram í desember.

Ómar Ragnarsson var sér kapítuli hjá Sumargleðinni, eins og kunnugt er var hann maður margra starfa, hann var á þessum tíma fréttamaður og þáttagerðarmaður hjá Ríkissjónvarpinu og var því ekki endilega alltaf kominn á réttum tíma við upphaf skemmtidagskrárinnar, oft var það tæpt en hann ferðaðist þá með ýmsum hætti til að komast á áfangastað, oftast á flugvél sinni TF-FRU, það mun einungis hafa komið fyrir einu sinni að hann komst ekki á staðinn. Og alltaf tryllti hann lýðinn með sprelli sem honum einum var lagið, söng lagið Sveitaball hoppandi og spriklandi svo lá við slysi.

Á miðjuopnu Vikunnar 1982

Tvær plötur komu út með Sumargleðinni meðan hún starfaði og naut fyrri platan mikilla vinsælda svo lög af henni hafa orðið sígild og heyrast enn reglulega. Hún kom út sumarið 1981 á vegum Fálkans undir titlinum Sumargleðin syngur og þar er að finna lög eins og Ég fer í fríið sem var sungið af Þorgeiri Ástvaldssyni en hann var þá fyrst og fremst þekktur sem fjölmiðlamaður og lagið það fyrsta sem hann söng inn á plötu, Á ferðalagi – sungið af Ragnari Bjarnasyni og Prins póló með Magnúsi Ólafssyni (sem einnig var að syngja inn á plötu í fyrsta sinn) en lögin þrjú nutu gríðarlegra vinsælda þarna um sumarið, fleiri lög af plötunni nutu reyndar einnig hylli s.s. bítlasyrpa Ómars Ragnarssonar, Ó manstu je je je, Því vildirðu ekki koma (með Ragnari) og titillagið Sumargleðin syngur, sungið af Ómari. Þetta sumar var Sumargleðin lang vinsælasta sveitin á sveitaballamarkaðnum með Upplyftingu og næstu árin á eftir báru þeir félagar höfuð og herðar yfir aðrar sveitir á þeim markaði ásamt Stuðmönnum. Þess má geta að lagið Prins póló var endurgert árið 2005 og kom þá út á tveggja laga smáskífu sem fylgdi Prins póló súkkulaðinu, þar söng Magnús lagið í nýrri útgáfu, annars vegar á íslensku og hins vegar á pólsku. Ég fer í fríið var hins vegar notað í auglýsingaskyni til margra ára fyrir Víkurverk. Plata Sumargleðinnar hlaut ágætar viðtökur, seldist prýðilega (fór í gullsölu) og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Dagblaðinu. Á plötuumslagi plötunnar voru sérstakar afmæliskveðjur til Bessa Bjarnasonar en hann þá um það leyti þrjátíu ára leikafmæli.

Síðari plata Sumargleðinnar kom út sumarið 1984 en þótti ekki eins vel heppnuð, hún bar titilinn Af einskærri sumargleði og var gefin út af Steinum og var reyndar tímamótaplata hjá þeirri útgáfu – var sú hundraðasta í röðinni og bar útgáfunúmerið STLP 100. Tvö laganna nutu mikilla vinsælda, bæði sungin af Ómari Ragnarssyni og Þuríði Sigurðardóttur. Það voru lögin Í þá gömlu góðu daga og Við getum rokkað því til en einnig heyrðust nokkuð spiluð í útvarpi lög eins og Dalli drifskaft sem Magnús söng og svo Júlla Jó í flutningi Hemma Gunn. Platan hlaut þokkalega dóma í tímaritinu Samúel og DV en varla nema sæmilega í NT. Sumargleðin var þó á fleygiferð þetta sumar og spilaði um fimmtán sinnum á Broadway í vertíðarlok um haustið.

Sumargleðin 1986

Síðasta starfsumar Sumargleðinnar var árið 1986 og þá var nokkuð farið að fjara undan gleðinni og reyndar sveitaböllunum almennt tímabundið, Ómar hafði ekki tíma til að sinna verkefninu það sumar og e.t.v. hafði það einnig eitthvað að segja og um haustið hafði verið ráðgert að halda úti dansleikjum á Broadway eins og í nokkur ár á undan en aðsóknin var slök og var því hætt fljótlega, í kjölfarið var ljóst að hópurinn myndi ekki koma saman að ári enda var þetta þá orðið nokkuð gott en þá höfðu verið haldnar hátt í 600 Sumargleðiskemmtanir og -dansleikir á fimmtán ára tímabili.

Sögu Sumargleðinnar var þarna reyndar ekki lokið því hún átti eftir að koma fram í nokkur skipti utan hefðbundinna sumartúra. Árið 1991 stóð hópurinn t.d. fyrir stórdansleik í Aratungu í tilefni af tuttugu ára afmæli hópsins og þremur árum síðar kom Sumargleðin fram í skemmtidagskrá á Hótel Íslandi ásamt Sigríði Beinteinsdóttur söngkonu og hljómsveit Gunnars Þórðarsonar (sem þarna gekk undir nafninu Stórhljómsveit Sumargleðinnar) en hljómsveit Sigríðar lék svo á dansleikjunum á eftir þar sem þeir félagar komu einnig eitthvað við sögu, sýningarnar stóðu frá því í febrúar og fram í sumarbyrjun. Það varð reyndar umdeilt þegar Sumargleðin birtist í sjónvarpsþætti Hermanns Gunnarssonar, Á tali með Hemma Gunn með atriði úr sýningunni – ókeypis auglýsing vildu menn meina. Sumargleðina skipuðu þá Ragnar, Ómar, Hermann, Bessi, Magnús og Þorgeir.

Ómar Ragnarsson og Bessi Bjarnason

Árið 2000 hélt Ómar Ragnarsson upp á 60 ára afmæli sitt og kom Sumargleðin saman af því tilefni á Broadway, og þannig varð þetta á nýrri öld að hópurinn birtist með eins konar skemmtiatriði við slík tilefni – á 50 ára söngafmæli Ragnars Bjarnasonar á Broadway árið 2004, 75 ára afmæli Ragnars 2009 og 50 ára afmæli félagsheimilisins Aratungu árið 2011. Reyndar höfðu þeir félagar þá einnig komið fram í Galtalækjarskógi um verslunarmannahelgina 2006.

Lögin Ég fer í fríið og Prins póló hafa fyrir löngu síðan orðið sígild í meðförum Sumargleðinnar, og reyndar gekk Magnús lengi vel undir nafninu Prins póló eftir vinsældir lagsins en lögin tvö hafa komið út á ótal sumarsafnplötum (og ferilssafnplötum Ragnars og Ómars) í gegnum tíðina sem og lögin Á ferðalagi, Í þá gömlu góðu daga og Við getum rokkað því til. Hér má nefna safnplötur eins og Á rás um landið (1993), Í sumarsveiflu (1992), 100 íslensk lög í ferðalagið (2009), Óskalaga-serían, Með lögum skal land byggja (1985) og Næst á dagskrá (1982) svo aðeins fáein dæmi séu nefnd, hér má einnig nefna lagið Geymdu þína ást sem í flutningi Magnúsar og Þuríðar kom út á safnplötunni Fjórtán faðmlög (1985) en það var frá 15 ára afmælishátíð Sumargleðinnar á Broadway. Það lag kom ekki út annars staðar.

Efni á plötum