Afmælisbörn 6. desember 2024

Guðmundur Pétursson

Sjö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Grímur Atlason tónlistarmaður og margt annað, er fimmtíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Grímur hefur starfað með ótal hljómsveitum í gegnum tíðina, verið bassaleikari í sveitum eins og Drep, Dr. Gunni, Grjóthruni í Hólshreppi, Unun, Rosebud og Ekki þjóðinni og hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves svo eitthvað sé nefnt.

Steingrímur Þórhallsson tónskáld, organisti og kórstjóri er fimmtugur og fagnar því stórafmæli í dag, Steingrímur sem hefur einnig gengið undir nafninu Stein Thor, sigraði í alþjóðlegri dægurlagasamkeppni undir því nafni en hann hefur einnig starfað í sönghópnum Rinascente sem sérhæfði sig í tónlist frá endurreisnartímanum og SMS-tríóinu sem lagði áherslu á barrokk tónlist. Það kemur því nokkuð á óvart að Steingrímur var meðal þeirra sem skipuðu hljómsveitina Reggae in ice í upphafi.

Gítarleikarinn Guðmundur Pétursson fagnar í dag fimmtíu og tveggja ára afmæli, hann hefur verið landsþekktur síðan hann kom fram í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins vorið 1987 en hann var þá aðeins fimmtán ára. Síðan þá hefur hann leikið inn á tugi ef ekki hundruð platna og er meðal virtustu gítarleikara landsins, ekki síst í blúsgeiranum. Guðmundur hefur ennfremur gefið út nokkrar sólóplötur.

Tónlistarmaðurinn Kormákur Jarl Gunnarsson heldur í dag upp á tuttugu og níu ára afmæli sitt. Kormákur er þekktur undir aukasjálfinu Flesh machine en hann hefur jafnframt starfrækt hljómsveit undir sama nafni, þá hefur hann einnig starfað undir nafninu Brilliantinus og starfað með hljómsveitinni Ryba.

Þá á Tryggvi Tryggvason (Jóhannsson) fyrrum hljóðvinnslumaður sem hefur starfað í Bretlandi mörg undanfarin ár, áttatíu og tveggja ára afmæli. Tryggvi sem reyndar er rafmagnsverkfræðingur, er fæddur á Íslandi en fluttist ungur til Bretlands, hann starfaði um tíma við upptökur hjá Decca fyrirtækinu en starfrækti eigin fyrirtæki í bransanum og vann til fjölda verðlauna og viðurkenninga í klassíska hluta fræðanna.

Harmonikkuleikarinn Halldór Einarsson frá Kárastöðum átti afmæli á þessum degi. Halldór var fæddur árið 1913 og var kunnur harmonikkuleikari frá Kárastöðum í Grímsnesi, hann lék mikið á dansleikjum í Árnessýslu og víðar um Suðurlandið áður en hann flutti til Reykjavíkur en hann rak einnig hljómsveitir í eigin nafni. Hann lést árið 1981.

Að lokum er hér nefndur trúbadorinn Bjarni Tryggva frá Norðfirði sem á sextíu og eins árs afmæli á þessum degi. Bjarni vakti athygli á síðari hluta níunda áratugarins þegar hann sendi frá sér tvær sólóplötur en síðan varð bið á efni frá honum meðan hann m.a. flakkaði um Norðurlöndin til að spila. Þrjár plötur í viðbót hafa komið út með Bjarna en hann hefur búið erlendis síðustu árin.

Vissir þú að lagið Hin fyrstu jól í flutningi höfundarins Ingibjargar Þorbergs, var fyrsta jólalagið sem kom út á Íslandi sem ekki var sálmur?