Hljómsveit Önnu Vilhjálms (1969-70 / 1990-2002)

Hljómsveit Önnu Vilhjálms 1969

Söngkonan Anna Vilhjálmsdóttir starfrækti hljómsveitir í eigin nafni sem léku mikið á svokölluðum dansstöðum höfuðborgarsvæðisins á tíunda áratug síðustu aldar en hún hafði verið með vinsælustu söngkonum landsins á sjöunda áratugnum og hafði reyndar stofnað hljómsveit undir lok hans.

Anna hafði notið vinsælda m.a. með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og sungið inn á plötu með þeirri sveit, og árið 1969 kom að því að hún stofnaði eigin sveit, Hljómsveit Önnu Vilhjálms en þá var fátítt að hljómsveitir væru kenndar við konu og líklega var þetta aðeins í annað skipti sem slíkt var gert hér á landi – áður hafði Hljómsveit Sigrúnar Jónsdóttur starfað árið 1960.

Sveit Önnu lék í Glaumbæ um vorið og voru meðlimir hennar Ásgeir Hólm saxófónleikari, Haukur Gíslason orgelleikari, Hinrik Einarsson bassaleikari, Stefán Jóhannsson trommuleikari, Helgi Hermannsson gítarleikari og söngvari og svo Anna sjálf sem söng. Sveitin varð reyndar ekki langlíf, starfaði aðeins í fáeina mánuði undir því nafni en nafni hennar var breytt í Experiment líklega snemma árs 1970. Anna yfirgaf þá sveitina en átti eftir að syngja með henni síðar – aðallega hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, allt þar til hún fluttist til Bandaríkjanna árið 1972.

Hljómsveit Önnu í Glaumbæ 1969

Anna fluttist aftur heim til Íslands nokkrum árum síðar, söng lítið framan af en kom svo aftur fram á sjónarsviðið snemma á níunda áratugnum með hljómsveitum eins og Thaliu og Dansbandinu, og svo með Hilmari Sverrissyni og hljómsveit hans. Það var svo árið 1990 sem hún hóf að syngja með Flækingunum en sú sveit var stundum einnig kölluð Hljómsveit Önnu Vilhjálms og lagði einkum áherslu á kántrítónlist, sveitin starfaði í Ásbyrgi á Hótel Íslandi árið 1990-91. Um þetta leyti gaf Anna út sína fyrstu sólóplötu í tilefni af 30 ára söngafmæli sínu og fylgdi henni eftir á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins með hljómsveitum einsog B.B. bandinu, Borgarsveitinni og Flamingo, sem stundum voru auglýstar í nafni Önnu – s.s. Anna Vilhjálms og hljómsveit eða Hljómsveit Önnu Vilhjálms. Það sama má segja um hljómsveit Hilmars Sverrissonar sem hún starfaði með mikið á þessum tíma.

Næstu árin fór minna fyrir Önnu á dansstöðunum, hún kom þó fram með hljómsveitum eins og Klappað og klárt en kom svo fram með sveit í eigin nafni vorið 1996 sem lék fyrst um sinn nokkuð á landsbyggðinni en svo á höfuðborgarsvæðinni, á stöðum eins og Garðakránni-Fossinum í Garðabæ og svo í Naustkjallarann. Í þeirri sveit, sem var tríó voru auk Önnu þeir Ingvar Valgeirsson gítarleikari og söngvari og Sigurður Már Ágústsson hljómborðsleikari. Sem fyrr lögðu Anna og hljómsveit hennar nokkra áherslu á kántrí (sem hún hafði kynnst á Ameríku-árum sínum) en sumarið 1997 tók hún sjálf við rekstri Næturgalans í Kópavogi ásamt Sigríði Grímsdóttur og þar með lék sveitin þar mestmegnis, reyndar auk árshátíðaspilamennsku og slíks.

Hljómsveit Önnu Vilhjálms / Galabandið

Um haustið (1997) varð til ný hljómsveit í nafni Önnu, og meðlimir hennar voru þeir Hallberg Svavarsson bassaleikari og söngvari, Sigurður Helgason trommuleikari, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari og Kristinn Sigmarsson gítarleikari auk Önnu. Fljótlega urðu mannabreytingar á þeirri sveit þegar þeir Pétur Hjaltested hljómborðsleikari og Þórður Árnason gítarleikari leystu þá Þóri og Kristin af hólmi – þessi sveit átti eftir að starfa um nokkurra ára skeið (til ársins 2000) einnig undir nafninu Galabandið með skírskotun í nafn skemmtistaðarins – Næturgalann.

Anna starfaði áfram með Hilmari Sverrissyni og þá stundum undir nafninu Hljómsveit Önnu Vilhjálms, en einnig með Viðari Jónssyni (og Guðmundi Hauki Jónssyni) og einnig gæti nafn hennar hafa verið notað í því samhengi allt til 2001, þá var hún í einhverju samstarfi við Stefán P. og hljómsveit hans árið 2002 sem auglýst var undir heitinu Hljómsveit Önnu Vilhjálms og Stefáns P.

Af framangreindu má sjá að sumar þeirra sveita sem gengu undir nafninu Hljómsveit Önnu Vilhjálms höfðu einnig önnur nöfn.