
Ein af hljómsveitum Guðmundar
Trommuleikarinn Guðmundur Steingrímsson lék með ógrynni hljómsveita alla sína ævi en hann starfrækti jafnframt í nokkur skipti hljómsveitir í eigin nafni, þær léku flestar einhvers konar djasstónlist
Elstu heimildir um hljómsveit Guðmundar í eigin nafni eru frá því um vorið 1965 en þá lék kvartett hans á djasskvöldi á vegum Jazzklúbbsins, engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu sveitina með honum. Árið 1976 birtist hann svo í sjónvarpsþætti með hljómsveit sem kennd var við hann og lék sú sveit einnig djasstónlist, auk Guðmundar sjálfs voru í sveitinni Árni Scheving kontrabassaleikari, Carl Möller píanóleikari og Gunnar Ormslev saxófónleikari.
Árið 1980 léku Björn Thoroddsen gítarleikari, Carl Möller píanóleikari og Gunnar Hrafnsson bassaleikari með Guðmundi síðsumars og ári síðar skipuðu þeir Friðrik Karlsson gítarleikari, Reynir Sigurðsson víbrafónleikari og Richard Korn bassaleikari kvartett með honum. 1983 var hann enn með sveit sem kallaðist Combo Guðmundar Steingrímssonar en engar upplýsingar er að finna um skipan þeirrar sveitar.
Nokkur ár liðu þar til Guðmundur var næst með hljómsveit í eigin nafni en eftir það virðist það hafa verið nokkuð samfleytt frá 1989 til 2005. Þessar sveitir voru af ýmsum stærðum og gerðum þótt þær væru flestar ef ekki allar djassskotnar, árið 1989 var hann með tríó á Hótel Íslandi þar sem söngvarar á borð við Andreu Gylfadóttur, Einar Júlíusson og Shady Owens komu fram með þeim. Gunnar Hrafnsson bassaleikari og Jón Möller píanóleikari skipuðu þá sveit með Guðmundi en allur gangur var á hverjir léku með honum hverju sinni og hversu stór sveitin var. Árið 1992 voru t.a.m. Carl Möller píanóleikari, Björn Thoroddsen gítarleikari, Stefán S. Stefánsson saxófónleikari og Bjarni Sveinbjörnsson bassaleikari með honum sem og Andrea Gylfadóttir en sá hópur fór m.a. og lék á menningarhátíð í London um haustið undir nafninu Guðmundur Steingrímsson Jazz Ensemble. Árið 1993 var Guðmundur aftur með tríó (sem reyndar fær sér umfjöllun annars staðar á Glatkistunni) og ári síðar var tríóið orðið að kvintett þar sem Þórir Baldursson píanóleikari, Ólafur Sigurðsson saxófónleikari, Björn Thoroddsen gítarleikari og Róbert Þórhallsson léku með honum en Þórður Högnason einnig stundum í stað Róberts. 1995 var hins vegar um sextett að ræða með Ólafi Jónssyni saxófónleikara, Rúnari Georgssyni saxófónleikara, Árna Scheving víbrafónleikara, Carli Möller píanóleikara og Þórði Högna bassaleikara en Hildur Guðný Þórhallsdóttir söng með þeirri útgáfu sveitarinnar á RÚREK djasshátíðinni.

Tríó Guðmundar Steingrímssonar
Árið 1997 lék kvintett í nafni Guðmundar á plötunni Hafnarfjörður í tónum en Guðmundur og Björn Thoroddsen héldu utan um útgáfu þeirra plötu, sveitina skipuðu þar auk þeirra Ásgeir Óskarsson ásláttarleikari, Agnar Már Magnússon hljómborðsleikari og Bjarni Sveinbjörnsson bassaleikari, jafnframt kom fjöldinn allur af tónlistarfólki fram með sveitinni á þeirri plötu. Þetta sama ár var Guðmundur einnig með tríó og áfram næstu árin, en ýmsir söngvarar komu fram með þeim s.s. Margrét Eir Hjartardóttir, Regína Ósk Óskarsdóttir og Ragnar Bjarnason – ekki liggja þó fyrir upplýsingar um meðspilara Guðmundar þar. Árið 2000 léku Ástvaldur Traustason píanóleikari, Björn Thoroddsen gítarleikari, Sveinn Eyþórsson gítarleikari og Bjarni Sveinbjörnsson bassaleikari með honum á djasskvöldum í Múlanum en einnig kom fram sveit í hans nafni á Menningarnótt, og áfram næstu árin á þeirri sömu hátíð.
Árið 2005 var heldur farið að hægjast á spilamennskunni hjá Guðmundi enda var hann þá orðinn 76 ára gamall, hann var þó með tríó sem lék fyrir eldri borgara en engar upplýsingar finnast um hverjir skipuðu það með honum.
Eftir það eru aðeins heimildir um tvær uppákomur þar sem hljómsveit starfaði í nafni Guðmundar, annars vegar var hann með djasskvartett sem lék fyrir gesti í opnunarpartíi Hljóðfærahúss Reykjavíkur í Síðumúla, hins vegar tríó árið 2012 á Menningarnótt en þar tók Ragnar Bjarnason lagið með þeim félögum. Engar upplýsingar er að finna um skipan þessara sveita.
Af framangreindu má sjá að varla er hægt að tala um hljómsveitir Guðmundar í eintölu því oftar en ekki virðast þetta hafa verið stök verkefni þar sem hóað var í mannskap eftir þörfum.














































