Afmælisbörn 5. júlí 2015

Kristín Lilliendahl

Kristín Lilliendahl

Hvorki fleiri né færri en fimm afmælisbörn er að finna í Glatkistunni í dag:

Jón Stefánsson kórstjóri og organisti er sextíu og níu ára en hann hefur nú stýrt Kór Langholtskirkju síðan 1964 en þá var hann aðeins átján ára. Jón hefur einnig síðustu árin stjórnað Graduale Nobili, Kammerkórs Langholtskirkju og Gradualekór Langholtskirkju auk nokkurra annarra kóra. Tónlistarferill Jóns hófst þó á allt öðrum stað en þá var hann gítarleikari í þjóðlagatríói sem bar heitið Hryntríóið.

Kristín Lilliendahl söngkona á stórafmæli í dag en hún er sextug. Kristín vakti upphaflega athygli í hljómsveitinni Formúla ´71 en síðar var hún annar Söngfuglanna sem gaf út barnaplötu um miðjan áttunda áratuginn og lagið Ég skal mála allan heiminn elsku mamma, naut á sínum mikilla vinsælda. Í kjölfarið kom út jólaplata með Kristínu. Margir þekkja líka lagið Breytir borg um svip sem hún söng áratug síðar með Vísnavinum. Hún er móðir Gretu Salóme Eurovisionstjörnu.

Valdimar Örn Flygenring tónlistarmaður og leikari er fimmtíu og sex ára. Hann gaf út plötuna Kettlingar, með hljómsveitinni Hendes verden sem hann starfrækti á sínum tíma en hann hefur verið í mörgum hljómsveitum, þeirra á meðal má nefna Menn, Hina konunglegu flugeldarokksveit, Ekki, Tjúttlinga og nú síðast Ómar og Valda, sem í dag kallast Óregla.

Akureyska barnastjarnan Harpa Gunnarsdóttir er fimmtug á þessum degi. Hennar söngferill spannaði ekki langan tíma en út kom fjögurra laga plata með henni á vegum Tónaútgáfunnar á Akureyri þegar hún var aðeins níu ára gömul. Hún söng lítillega opinberlega eftir útgáfu plötunnar en síðan hefur lítið spurst til Hörpu.

Að síðustu er hér nefndur Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari, sem einnig er fimmtugur í dag. Hann nam söng fyrst hjá Sigurði Demetz en síðar í Bretlandi og Þýskalandi en þar starfaði hann lengi sem og í Frakklandi. Aukinheldur hefur hann sungið ýmis óperu- og sönghlutverk víða um heim sem og hér heima. Út hafa komið plötur með Gunnari hér heima en hann hefur einnig sungið sem gestur á plötum annarra listamanna og á viðburðum eins og Frostrósatónleikum o.þ.h.