Afmælisbörn 11. nóvember 2019

Samúel Jón Samúelsson

Afmælisbörn Glatkistunnar eru fjölmörg á þessum degi:

Ásgerður Flosadóttir er sextíu og fimm ára gömul í dag. Ásgerður var þekktust fyrir framlag sitt á plötu Samsteypunnar sem út kom 1970 og hafði m.a. að geyma lagið Friður á jörð (Give peace a change). Hún hefur lítið verið viðloðandi tónlist seinni ár.

Jóhann Davíð Richardsson trommuleikari er fimmtíu og fimm ára gamall. Jóhann gekk lengstum undir nafninu Jói Motorhead og lék á trommur í sveitum eins og Egó, Seiðbandinu, Flames of hell og Mogo homo.

Samúel Jón Samúelsson básúnuleikari er fjörutíu og fimm ára í dag. Samúel hefur komið víða við, rekið eigin sveitir (Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar) og leikið með hljómsveitum eins og Jagúar, Havana og Milljónamæringunum. Hann hefur einnig gefið út sólóplötur og unnið með fjölmörgu tónlistarfólki og hljómsveitum, ýmist á sviði og á plötum sem skipta tugum ef ekki hundruðum.

Pétur Ben tónlistarmaður er fjörutíu og þriggja ára í dag, hann hefur gefið út sólóplötur auk þess að vinna með listamönnum eins og Eberg, Elínu Ey, Mugison, Lay Low og Ólöfu Arnalds, hann hefur ennfremur leikið með sveitum eins og Tristian og Inflammatory.

Höskuldur Ólafsson hagfræðingur og fyrrum Quarashi meðlimur er fjörtíu og tveggja ára gamall á þessum degi, hann var einnig hér áður í hljómsveitum eins og Wool, Ske og 2001 svo nokkur dæmi séu nefnd.

Greta Salóme Stefánsdóttir söngkona, fiðluleikari og tónskáld er þrjátíu og þriggja ára í dag. Eins og alþjóð veit hefur hún tvívegis farið sem fulltrúi Íslands í Eurovision keppnina, með lögin Never forget (2012) og Hear them calling (2016) og hún á einnig að baki eina sólóplötu, In the silence sem kom út 2012. Greta Salóme hefur aukinheldur  leikið inn á fjölmargar plötur annarra listamanna.

Trommuleikarinn Ragnar Sigurjónsson (oft nefndur Gösli hér áður) er sjötíu og eins árs gamall í dag. Ragnar lék með miklum fjölda hljómsveita hér áður og meðal þeirra má nefna misþekktar sveitir eins og Dúmbó og Steina, Brimkló, Mána, Spottana, Stuðmenn, Randver, Sviðna jörð, Dansbandið og Mexíkó. Hann hefur auk þess leikið inn á ógrynni platna sem session maður.

Þá á Edda Þórarinsdóttir leik- og söngkona sjötíu og fjögurra ára afmæli. Edda hefur sungið víða á leiksviðinu og inn á fjölda platna í því samhengi en hennar langstærsta hlutverk á söngsviðinu er auðvitað með Þremur á palli sem naut fádæma vinsælda á meðan það starfaði en þau voru að allan áttunda áratug liðinnar aldar. Hún hefur reyndar lítillega einnig starfað með tríóinu Tveimur á palli með einum kalli sem er eins konar útfærsla af fyrrnefnda tríóinu.