G.K. tríóið var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu að öllum líkindum á árunum 1951-55 en upplýsingar um sveitina eru af afar skornum skammti.
G.K. tríóið var kennt við harmonikkuleikarann Gunnar Kristjánsson frá Grund í Grundarfirði en hann var þá löngu fluttur til Reykjavíkur og starfrækti sveitina þaðan, tríóið lék þó oft á dansleikjum og skemmtunum á Snæfellsnesinu s.s. á Búðum, Vegamótum og Dalsmynni. Ein heimild segir að þegar sveitin hafi leikið á útidansleik í Kópavogi sumarið 1954, að þá hafi Sigurður Ólafsson sungið með henni en ekki liggur fyrir hvort aðrir þekktir söngvarar hafi komið fram með tríóinu.
Gunnar lék sjálfur á harmonikku í G.K. tríóinu og með honum var líka (að minnsta kosti frá 1952) Magnús Ingimarsson sem einnig lék á harmonikku, ekki liggur fyrir hver þriðji meðlimur tríósins var en hér er giskað á að um trommuleikara hafi verið að ræða.
Sveitin hætti líklega störfum í ársbyrjun 1955 þegar Magnús veiktist en hann átti síðar eftir að verða þekktur píanóleikari, hljómsveitastjóri og útsetjari.














































