C.o.T. (1985)

Hljómsveitin C.o.t. á sér svolítið flókna sögu en þó um leið á sveitin sér ekki neina sögu því hún starfaði ekki undir þessu nafni fyrr en löngu síðar og þá með öðrum mannskap.

Forsaga málsins er sú að þungarokkshljómsveitin Fist (áður Áhrif) hafði starfað um tveggja ára skeið en meðlimir hennar voru sumarið 1985, Jón Guðjónsson bassaleikari, Kristófer Máni Hraundal gítarleikari, Guðlaugur Falk gítarleikari, Marteinn Þórðarson trommuleikari og Eiður Örn Eiðsson söngvari. Sveitin var þá tilbúin með tveggja laga plötu og gáfu þeir hana út undir nafninu C.o.t. (sem var skammstöfun fyrir Chariot of thunder) í þrjú hundruð eintökum, enda stóð þá til að þeir myndu starfa áfram undir því nafni og reyndar var meira efni tilbúið til útgáfu af þeirra hálfu og stóð til að breiðskífa kæmi út skömmu síðar. Sveitin hætti hins vegar störfum um það leyti sem smáskífan kom út og því starfaði hún aldrei undir því nafni.

Eiður Örn söngvari Fist hafði komið inn í sveitina árið 1984 en hann hafði þá áður starfað með hljómsveitinni Þrumuvagninum (1981-82). Hann gerði nokkrar tilraunir síðar til að endurvekja þá hljómsveit ýmist undir nafninu Þrumuvagninn, Chariot of thunder eða C.o.t. með mismunandi mannaskipan.

Efni á plötum