Curse (1998-)

Curse

Eins manns sveitin Curse hefur starfað síðan fyrir aldamót en hún hefur sent frá sér fjölda platna sem þó aðallega hafa ratað á markaði erlendis.

Það er Einar Thorberg Guðmundsson (Eldur) sem er maðurinn á bak við Curse en hann leikur á gítara, bassa og hljómborð auk þess að syngja, hann hefur starfað undir þessu nafni að minnsta kosti síðan árið 1998 en leikur auk þess með fjölda annarra sveita af sama eða svipuðum geira. Tónlistin sem flokka mætti undir svartmálm er illspilanleg af einum manni á tónleikum og því hefur sveitin afar sjaldan komið fram opinberlega, aðeins finnst um það ein heimild en það var á andkristnihátíð á Gauki á Stöng í desember 2004. Curse hefur því aðallega starfað í hljóðverum.

Einar var búsettur erlendis um tíma (Noregi) og gerði þá Curse út þaðan og hafa plötur með sveitinni verið gefnar út m.a. í Þýskalandi og Rússlandi en hún var samningsbundin þýska útgáfufyrirtækinu No colours records á tímabili, fleiri erlend útgáfufyrirtæki hafa gefið plötur sveitarinnar út en fjöldi þeirra fylla um tug þegar allt er talið. Curse hefur jafnframt komið við sögu á splitplötum og ýmsum safnplötum með svartmálmssveitum.

Efni á plötum