
Friðjón Ingi Jóhannsson
Tónlistarmaðurinn Friðjón Ingi Jóhannsson hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi, starfað með fjölmörgum hljómsveitum og m.a. starfrækt hljómsveit í eigin nafni en hún var stofnuð á Egilsstöðum árið 1995 og hefur haft það meginmarkmið að varðveita alþýðutónlist af austanverðu landinu, tónlist sem annars hefði horfið í glatkistuna.
Friðjón Ingi Jóhannsson er fæddur vorið 1956 á Finnsstöðum í Eiðaþinghá fyrir austan, þar sem hann sleit barnsskónum, að loknu búfræðinámi og síðan námi í mjólkurfræðum lá leiðin aftur til Fljótsdalshéraðs og starfaði hann þar með fjölda hljómsveita samhliða starfi sínu sem mjólkurfræðingur.
Tónlistarferill Friðjóns hófst á skólaárunum á Eiðum en þar starfaði hann með hljómsveitinni Thule 2,5%, í kjölfarið á árunum 1973-95 komu sveitir eins og Völundur, Bigg-Fí-Band, Panic, Slagbrandur, Bergmál og Tríó Eyþórs, en með hljómsveitinni Slagbrandi lék hann fyrst inn á plötur, tveggja laga smáskífu með lögum tengdum Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands (ÚÍA) og breiðskífunni Grimmt og blítt með lögum hljómborðsleikara sveitarinnar Árna Ísleifssyni. Friðjón söng og lék á bassa með fyrrgreindum sveitum. Þá starfaði Friðjón um árabil með félagsskapnum Héraðsvísnavinum og kom að ýmsum viðburðum tengdum því félagsstarfi.
Árið 1995 stofnaði hann hljómsveit í eigin nafni, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar en sú sveit hefur starfað samfellt til þessa dags, og þegar þetta er ritað hefur hún leikið um land allt á um á annað hundrað samkomustaða en einnig t.a.m. leikið í þrígang á stóru danshljómsveitafestivali (Svenska dansbandsveckan) í Malung í Svíþjóð. Með danshljómsveit sinni hefur Friðjón unnið mikið og göfugt hugsjónastarf á eigin kostnað við að varðveita austfirska dægurtónlist með því að leita uppi lög alþýðutónlistarmanna og textahöfunda í landshlutanum og gefa þeim opinbert líf með útgáfu. Þessi lög hefðu vafalaust mörg hver annars aldrei komið fyrir eyru og augu almenning, svo enginn getur efast um varðveislugildi slíks hugsjónastarfs.

Friðjón á skólaárum sínum á Eiðum
Fyrsta plata þess efnis kom út árið 1996 undir titlinum „Austfirskir staksteinar“ en á henni er að finna þrettán lög eftir sextán laga- og textahöfunda, ári síðar kom svo út platan „Við tónanna klið“ – nítján laga plata með lögum Óðins G. Þórarinssonar frá Fáskrúðsfirði. Árið 2003 kom út „Austfirskir staksteinar 2“ með fimmtán lögum eftir sautján laga- og textahöfunda og 2006 kom svo út tvöfaldur diskur undir titlinum „44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög“ með fjörutíu og fjórum lögum sem var í raun endurútgáfa platnanna þriggja (sem þá voru uppseldir) en hafði einnig að geyma nokkur aukalög. Enn ein platan með hljómsveit Friðjóns kom svo út árið 2016, „Austfirskir staksteinar 3“ með sextán lögum eftir sautján laga- og textahöfunda, og árið 2019 sendi sveitin frá sér yfirlitsútgáfu með lögum Óðins G. Þórarinssonar „Þá og nú“, sú plata er tvöföld – geymir alls þrjátíu og sjö lög, bæði áður útgefin en einnig áður óútgefin lög.
Hljómsveit Friðjóns hefur einnig gefið út efni sem ekki tilheyrir beinlínis þessu hugsjónastarfi, t.d. kom út árið 2007 í takmörkuðu upplagi platan „Eins og við erum“ með live-upptökum frá skemmtistaðnum Vélsmiðjunni á Akureyri og árið 2018 sendi sveitin frá sér DVD diskinn „Þegar að dansinn dunar“ sem m.a. inniheldur efni um ferð hennar á Svenska dansbandsveckan í Svíþjóð.
Árið 1997 hafði Friðjón tekið að sér að halda utan um og safna saman efni sem kom út á safnplötunni „Í laufskjóli greina“ en tilefni útgáfunnar var 50 ára afmæli Egilsstaða, fjölmargar hljómsveitir og tónlistarfólk komu við sögu á þessari plötu og m.a. hljómsveit Friðjóns.

Friðjón Ingi Jóhannsson
Árið 2000 flutti Friðjón til Akureyrar og hefur búið þar síðan en samt sem áður starfrækt hljómsveit sína áfram í óbreyttri mynd, þegar hann kvaddi heimahagana hélt hann veglega hljóðfærasýningu í Safnahúsinu á Egilsstöðum en þar voru til sýnis fjöldi hljóðfæra sem tengdust tónlistarsögu Austurlands. Friðjón hefur einnig starfað á Akureyri að ýmsum tónlistartengdum viðburðum, hann kom m.a. að söngdagskrá á Akureyri sem tileinkuð var minningu Óðins Valdimarssonar en sú sýning naut mikilla vinsælda og var einnig sett upp í Austurbæ í Reykjavík. Jafnframt hefur hann gert nokkuð af því að spila fyrir eldri borgara og á hjúkrunarheimilinum á Akureyri og Egilsstöðum, bæði einn með gítarinn og einnig með öðrum tónlistarmönnum.
Friðjón hefur sungið og leikið inn á útgáfur ýmissa aðila, þar má nefna safnplötuna „Fjörðurinn okkar“ sem Magnús Bjarni Helgason gaf út árið 2000 og inniheldur lög og/eða texta Borgfirðinga eystri en á henni syngur Friðjón alls átta af nítján lögum plötunnar. Hann hefur einnig sungið á plötunum „Undir regnboga“ með lögum Sigþrúðar Sigurðardóttur (2011), „Laufey“ með lögum Laufeyjar Sigurjónsdóttur (2016), „Það sem sólin sér“ með Snorra Evertssyni (2003), „Í Ásbyrgi“ með Aðalsteini Ísfjörð (2000), „Grái fiðringurinn“ með Jóni Gunnþórssyni (2020) og „Lífsins gangur“ með Sólveigu Björnsdóttur (2009).
Friðjón starfrækir enn hljómsveit sína og vinnur jafnframt ötullega að því áfram að bjarga og varðveita austfirsk menningarverðmæti í formi tónlistar og texta.














































