Afmælisbörn 19. febrúar 2022

Guðmundur R. Gíslason

Á þessum degi eru tvö tónlistartengd afmælisbörn á lista Glatkistunnar:

Hanna Steina (Jóhanna Steinunn) Hjálmtýsdóttir söngkona á stórafmæli en hún er sextug í dag. Eins og flestir vita er hún dóttir Hjálmtýs Hjálmtýssonar söngvara og þ.a.l. systir Páls Óskars og Diddúar en hún hefur sungið með fjölmörgum hljómsveitum í gegnum tíðina. Þeirra á meðal eru sveitir eins og Dá, Jemm & Klanks, De Vunderfoolz, Október og Orgill en síðast talda sveitin gaf út plötu á sínum tíma. Hanna Steina hefur einnig sungið á plötum Mike Pollock, Possibillies, Huxun, Frakka og Bubba Morthens svo dæmi séu tekin.

Þá er hér einnig nefndur Norðfirðingurinn Guðmundur Rafnkell Gíslason tónlistarmaður en hann söng hér fyrrum með hljómsveitinni Súellen sem gerði garðinn frægan seint á síðustu öld en hefur einnig starfað með hljómsveitum eins og Gumma Sú og sívalningunum og Fiff. Hann hefur jafnframt sent frá sér þrjár sólóplötur og m.a. unnið þar í samstarfi við hljómsveitina Coney island babies. Guðmundur er fimmtíu og tveggja ára gamall á þessum degi.

Vissir þú að Gunnar Þórðarson kom eitt sinn fram á samkomu í Svíþjóð þar sem Eurovision keppninni var mótmælt?