
Björgvin Halldórsson
Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Hafnfirðingurinn Björgvin (Helgi) Halldórsson söngvari, gítar- og munnhörpuleikari, eða bara Bo Hall er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Hann hefur eins og allir vita gefið út ógrynni platna (á fjórða tug) og verið áberandi á jólalagatímabilinu en hann hefur aukinheldur sungið með hljómsveitum eins og Hljómum, Ðe lónlí blú bojs, Brimkló, Ævintýri, Hjartagosunum, Sléttuúlfunum, Bendix, Change, Flowers og HLH-flokknum auk þess að starfrækja eigin sveit. Björgvin var framan af áberandi í undankeppnum Eurovision keppninnar og fór reyndar sem fulltrúi Íslands til Írlands 1995 með lagið Núna / If it‘s gonna end in heartache. Hann hefur einnig komið að upptökustjórnun, kvikmynda- og leikhústónlist, lagasmíðum og hljóðsetningu svo fátt eitt að auki sé upp talið.
Einnig á tónlistarmaðurinn Óskar Ingi Thorarensen afmæli í dag en hann er sextíu og fimm ára gamall. Óskar sem er raftónlistarmaður hefur gengið undir nafninu Jafet Melge en einnig starfað með og gefið út plötur með sveitum og gjörningahópum eins og Sköllóttu trommunni, Stereo Hypnosis og Inferno 5.
Vissir þú að á Akureyri starfaði á níunda áratugnum hljómsveit sem hét Jafnaðamenn (ekki með r-i)?