Samkór Dalvíkur (1977-86)

Samkór Dalvíkur

Samkór Dalvíkur var hluti af öflugu söngstarfi sem var í gangi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en sönglíf á Dalvík og Svarfaðardalnum stóð þá í miklum blóma.

Karlakór Dalvíkur hafði verið starfræktur um nokkurra áratuga skeið en var í tímabundinni pásu haustið 1977 en Kári Gestsson, þá nýorðinn skólastjóri tónlistarskólans á Dalvík og nýkominn úr námi í Bretlandi fyllti upp í það tómarúm með því að stofna kór sem í fyrstu virðist hafa gengið undir nafninu Söngfélag Dalvíkur en hlaut síðan nafnið Samkór Dalvíkur, kórinn innihélt strax á milli þrjátíu og fjörutíu meðlimi.

Samkór Dalvíkur varð strax afar virkur enda var Kári fullur af eldmóði og metnaðarfullum hugmyndum, og svo fór að á fyrstu tónleikunum sem haldnir voru kom ungur og efnilegur söngvari, Kristján Jóhannsson fram með honum og vakti mikla athygli. Í kjölfarið réðist kórinn í stærri kórverk sem hann flutti ásamt hljómsveitum og einsöngvurum á tónleikum en slík verkefni voru almennt ekki á dagskrá hjá almennum samkórum, hvað þá á landsbyggðinni.

Samkór Dalvíkur

Kórinn fór á næstu árum víða um norðanvert landið með tónleikahaldi en lenti smám saman í vandræðum með að fá karlaraddir til liðs við sig, hugmyndir um að fara í söngferð til Noregs og að hljóðrita plötu féllu um sjálfar sig þegar ekki fengust styrkir til verkefnanna og var það ekki til að hjálpa til, og svo fór að lokum að kórinn hætti starfsemi sinni vorið 1980.

Sögu Samkórs Dalvíkur var þó ekki lokið því haustið 1983 gekk breski tónlistarkennarinn Colin P. Virr til liðs við tónlistarskólann og reif upp kórastarfið á nýjan leik. Undir hans stjórn starfaði kórinn til vorsins 1986 og söng þá hefðbundnara prógram, í hans tíð var m.a. komið á þeirri hefð að syngja utandyra fyrir bæjarbúa á Dalvík á jólaaðventunni ásamt barnakór tónlistarskólans en það voru vinsælar uppákomur. Einnig mun kórinn hafa sungið víðar um norðanvert landið, og fót t.a.m. til Grímseyjar en undir stjórn Kára hafði kórinn einmitt einnig sungið í Hrísey.

Samkór Dalvíkur hætti í raun störfum þegar Colin fór frá Dalvík vorið 1986 en kórinn var þó endurreistur um haustið til að syngja á aðventunni undir stjórn Jóns Helga Þórarinssonar, sögu kórsins lauk þó endanlega eftir jólavertíðina.