Afmælisbörn 11. maí 2023

Jóhann Hjörleifsson

Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Jóhann (Óskar) Hjörleifsson trommu- og slagverksleikari með meiru á stórafmæli en hann er fimmtugur í dag. Jóhann var trommuleikari Sálarinnar hans Jóns míns en hefur aukinheldur leikið með sveitum eins og Jagúar, Rokkabillíbandi Reykjavíkur, Stórsveit Reykjavíkur, Trix, Ullarhöttunum, Tríó Björns Thoroddsen og Straumum & Stefáni. Session-mennska hefur þó öðru fremur einkennt feril trommuleikarans og eru þær fáar sólóplöturnar sem Jóhann hefur ekki verið beðinn um að leika inn á.

Sunna Gunnlaugsdóttir djasspíanisti og tónskáld á einnig afmæli í dag en hún er fimmtíu og þriggja ára gömul. Sunna Gunnlaugs nam fræði sín m.a. í Bandaríkjunum og bjó þar lengi og starfaði, hún hefur sent frá sér fjölda sólóplatna og í nafni eigin djasstríós og starfaði jafnframt með fjölda sveita heima á Íslandi hér áður s.s. LOS, Tónskröttunum, Tríói Jennýjar, Kvintett Scott McLemore og Undir tunglinu.

Og þriðja afmælisbarn dagsins er hip hop tónlistar- og myndlistarmaðurinn Charlie D eða Dj Demo eins og hann kallaði sig eða Karl Kristján Davíðsson eins og hann heitir fullu nafni, hann fagnar í dag fjörutíu og sex ára afmæli sínu. Þekktasta sveit Karls Kristjáns er auðvitað Subterranean en hann var einnig í sveitum eins og Kreation Krew og Tríói Óla Skans auk þess að starfa með hinum og þessum hip hop tónlistarmönnum.

Vissir þú að rokksveitin Sign var ein af þeim sveitum sem heiðruðu Hörð Torfa á afmælistónleikum sem haldnir voru honum til heiðurs sextugum?