
Hljómsveit Baldur Kristjánssonar
Saga Hljómsveitar Baldurs Kristjánssonar píanóleikara er nokkuð löng og um leið flókin því Baldur starfrækti hljómsveitir á ýmsum tímum í eigin nafni en einnig aðrar sveitir undir öðrum nöfnum sem í heimildum eru gjarnan kallaðar hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, hér verður þó eftir fremsta megni reynt að setja saman nokkuð heildstæða mynd af þeim sveitum sem Baldur starfrækti í eigin nafni.
Fyrsta hljómsveit Baldurs var sett saman haustið 1946 til að leika í Tjarnarcafé í Oddfellowhúsinu við Vonarstræti en þar lék sveitin í næstum þrjú ár. Í upphafi var sveitin skipuð þeim Baldri sem lék á píanó, Karli Karlssyni trommuleikara, Guðmundi Vilbergssyni trompet- og harmonikkuleikara og líklega Guðmundi H. Norðdahl klarinettuleikara sem Einar B. Waage alt saxófónleikari tók svo við af. Einnig munu þeir Guðmundur Steingrímsson trommuleikari og Trausti Thorberg gítarleikari eitthvað hafa leikið með sveitinni á upphafsárum hennar.
Árið 1947 var hljómsveitin kjörin besta litla hljómsveitin í könnun sem var gerð, og naut hún nokkurra vinsælda í Tjarnarcafé. Þá um haustið (1947) hættu Einar B. Waage og Guðmundur Vilbergsson í sveitinni og inn komu þeir Þórhallur Stefánsson kontrabassaleikari og Stefán Þorleifsson tenór saxófónleikari, þá söng Skapti Ólafsson eitthvað með henni vorið 1948 en hann er fyrsti söngvarinn sem heimildir eru um að hafi komið fram með sveit Baldurs – einnig söng Haukur Morthens með hljómsveitinni það sama haust.
Fleiri mannabreytingar urðu á sveitinni áður en hún hætti 1949, þannig komu Marinó Guðmundsson gítar- og trompetleikari og Vilhjálmur Guðjónsson saxófón- og klarinettuleikari (í stað Þórhalls) inn í hana árið 1948 en sveitin var þarna kvintett, aðrir meðlimir sveitarinnar þá voru Baldur píanóleikari, Stefán saxófónleikari og Karl trommuleikari. Áður en sveitin hætti mun Guðmundur Finnbjörnsson saxófónleikari einnig hafa haft þar viðkomu um sumarið 1949 en þá lék sveitin á Akureyri en ekki liggur fyrir hversu lengi, fleiri gætu hafa komið þar einnig við sögu.

Hljómsveit Baldurs 1948
Næst stofnaði Baldur hljómsveit vorið 1950 til að leika í Tívolíinu í Vatnsmýrinni um sumarið og lék sveitin líklega mest í Vetrargarðinum sem þar var, þessi sveit lék reyndar víðar annars staðar en Tívolíið var fastur punktur í spilamennskunni næstu árin. Ekki liggur fyrir hvernig sveit Baldurs var skipuð í upphafi, það voru þó líklega þeir Guðni S. Guðnason harmonikkuleikari, Gunnar Sveinsson trommuleikari, Þórir Jónsson saxófón- og fiðluleikari og svo Baldur á píanóið. Um haustið lék Jón Sigurðsson bassaleikari um nokkurra vikna skeið með sveitinni en árið 1951 var hún skipuð þeim Baldri og Gunnari en aðrir meðlimir voru þá Vilhjálmur Guðjónsson saxófón- og klarinettuleikari, Sveinn Ólafsson saxófónleikari og Karl Jónatansson trompet- og harmonikkuleikari. Gunnar trymbill hætti um haustið og líklega tók Jóhannes Eggertsson við því hlutverki – hann var að minnsta kosti trommuleikari sveitarinnar síðar, Bragi Einarsson saxófónleikari var þá einnig í sveitinni auk Baldurs, Karls og Vilhjálms en Sveinn virðist þá vera horfinn á braut. Litlar upplýsingar er að finna um söngvara sveitarinnar í Vetrargarðinum en söngkvartett kom fram oftsinnis með sveitinni árið 1954.
Eins og sjá má á ofangreindu komu menn og fóru og því er erfitt að henda reiður á skipan sveitarinnar hverju sinni, og hér vantar nokkur nöfn, t.a.m. mun Ólafur Pétursson harmonikkuleikari hafa leikið með sveitinni á einhverjum tímapunkti en ekkert liggur þó fyrir hvenær.

Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar
Hljómsveit Baldurs lék áfram í Tívolíinu en var jafnframt að spila á öðrum stöðum s.s. á Röðli en einnig kom sveitin fram á kabarettsýningum í Austurbæjarbíói svo dæmi séu nefnd, árið 1956 gerðist sveitin húshljómsveit í Þórscafé um eins árs skeið en lék einnig töluvert á Suðurnesjunum – um það leyti virðast Baldur, Vilhjálmur, Sveinn Ólafsson (aftur), Grétar Geirsson harmonikkuleikari, Kristinn Vilhelmsson trommuleikari og Jón Páll Bjarnason gítarleikari skipa sveitina en einnig lék Rútur Hannesson harmonikku- og saxófónleikari töluvert með þeim félögum – Haukur Morthens söng jafnframt mikið með sveitinni.
Á síðustu árum sjötta áratugarins virðist sveitin ekki vera bundin neinum sérstökum skemmtistað en lék þess í stað mjög víðar, þar má nefna Vetrargarðinn í Tívolíinu og Góðtemplarahúsið en árið 1960 er sveitin skipuð þeim Baldri, Rúti, Guðmundi Norðdahl og Jóhannesi Eggertssyni, Sigríður Guðmundsdóttir og Svala Nielsen sungu um það leyti töluvert með sveitinni og m.a. í danslagakeppni SKT árið 1961. Ári síðar er sveitin hins vegar skipuð þeim Baldri, Ómari Axelssyni bassaleikara og Eyjólfi Melsteð trompetleikara en Cole Porter var þá söngvari hennar, Þórunn Ólafsdóttir söng einnig með sveitinni um það leyti.
Sveit Baldurs starfaði undir því nafni til vorsins 1963 en þá hafði sveitin starfað um skeið sem húshljómsveit Sjálfstæðishússins við Austurvöll og var þá skipuð þeim Baldri, Edwin Kaaber bassaleikara, Pétri Östlund trommuleikara, Gretti Björnssyni harmonikkuleikara og Erni Ármannssyni gítarleikara en Cole Porter og Anna Vilhjálms sungu með sveitinni. Ekki er ólíklegt að um einhvern rugling sé þarna að ræða við aðra hljómsveit sem Baldur starfrækti frá 1961 – Capri en sú sveit er stundum í heimildum nefnd Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar. Alltént er ljóst að margir komu við sögu hljómsveitar Baldurs og því er erfitt sem fyrr greinir að skrá sögu hennar nákvæmlega.














































