
Hippabandið
Hippabandið var hljómsveit sem starfaði innan Héraðsskólans á Reykjum í Hrútafirði snemma á níunda áratug síðustu aldar en sveitin var þó í raun frá Hvammstanga.
Hippabandið var líklega stofnuð haustið 1981 sem skólahljómsveit á Reykjum, og voru meðlimir hennar þeir Geir Karlsson gítarleikari, Júlíus Ólafsson söngvari, Eiríkur Einarsson (Eiki Einars) gítarleikari, Ragnar Karl Ingason bassaleikari og Hrafn Valgarðsson trommuleikari.
Þeir félagar sögðu frá því í blaðaviðtali að þeir hefðu tvenns konar prógram á boðstólum, annars vegar ballprógram þegar þeir léku á dansleikjum fyrir fullorðna en þegar þeir léku innan skólans fyrir jafnaldra sínu var frumsamin nýbylgjutónlist málið.
Sveitin spilaði töluvert innan Reykjaskóla en einnig á dansleikjum utan hans t.d. um sumarið 1982. Svo virðist sem Skúli Þórðarson hafi leyst Hrafn trommuleikara af hólmi um sumarið en sveitin hætti svo störfum um haustið.














































