Hljómsveit Hótel Borgar (1930-50)

Hljómsveit Hótel Borgar 1932

Saga hljómsveita Hótel Borgar er margþætt og flókin því að um fjölmargar sveitir er að ræða og skipaðar mörgum meðlimum sem flestir voru framan af erlendir og því eru heimildir afar takmarkaðar um þá, jafnframt störfuðu stundum tvær sveitir samtímis á hótelinu. Eftir því sem Íslendingum fjölgaði í Borgarbandinu eins og sveitirnar voru oft kallaðar skýrist myndin samhliða því.

Hótel Borg opnaði árið 1930 og fljótlega upp úr því var boðið upp á lifandi tónlist í húsinu en slíkt fór líklega eingöngu fram í „gyllta salnum“, í raun var tvenns konar tónlist í boði á Borginni því að seinni part dags léku litlar strengjasveitir klassíska tónlist en á kvöldin tók djass- og danstónlistin við og segja má að Borgarbandið hafi átt sinn þátt í að vekja áhuga og athygli á djasstónlist hérlendis. Íslendingar höfðu þá reyndar sjálfir ekki komist upp á lag með að leika slíka tónlist í byrjun og því brá Jóhannes á Borg (Jóhannes Jósefsson) eigandi hótelsins á það ráð að ráða erlenda tónlistarmenn í vinnu, fyrst danska sveit en síðar voru það mestmegnis Bretar sem störfuðu á Borginni þar til að íslenskir hljóðfæraleikarar þóttu orðnir nógu góðir til að leika slík tónlist – og reyndar stóð nýstofnað FÍH í harðri baráttu fyrir hönd félagsmanna sinna við að berjast gegn erlendu vinnuafli sem eðlilega þótti taka vinnu frá íslenskum hljóðfæraleikurum.

Fyrsta hljómsveit Hótel Borgar mun hafa verið dönsk sem fyrr segir en hún starfaði undir stjórn fiðluleikarans Eli Donde og lék um sex mánaða skeið veturinn 1930-31 undir nafninu Donde‘s band eða Eli Donde orkester, engar frekari upplýsingar er að finna um þessa sveit – hvorki meðlimi hennar né hljóðfæraskipan en líklega var um einhvers konar djasssveit að ræða sem lék fyrir dansi á kvöldin. Um svipað leyti mun önnur sveit sem gekk undir nafninu Scheibler kvartettinn hafa leikið klassíska tónlist síðari part dags á hótelinu en ekkert liggur fyrir um þann kvartett, hvorki þjóðerni hans né hljóðfæraskipan.

„Breska tímabilið“ gekk líkast til í garð árið 1931 en næsta áratuginn eða rúmlega það voru danshljómsveitir Borgarinnar skipaðar Bretum að mestu, Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) var stofnað 1932 og fljótlega gekkst sá félagsskapur fyrir því að berjast fyrir að íslenskir tónlistarmenn fengju störf við spilamennsku því eðlilega þóttu erlendu tónlistarmennirnir taka störf frá þeim íslensku, Bjarni Böðvarsson fyrsti formaður FÍH var harður í þeirri baráttu og sjálfur lék hann á saxófón og klarinettu með Borgarbandinu um tíma – líklega á árunum 1932 til 34 með einhverjum hléum. Fyrst um sinn með „síðdegishljómsveitinni“ þar sem hann lék með Kaj Nielsen trommuleikara, Aage Lorange píanóleikara, Guðlaugi A. Magnússyni trompetleikara og Lárusi Ástbjörnssyni fiðluleikara en Bjarni stjórnaði reyndar þessari sveit, og síðar ásamt Olfert Nåby píanóleikara, Rudi [?] trompet-, harmonikku- og fiðluleikara, Kragh Steinhauser trommuleikara og Guðlaugi trompetleikara.

Borgarbandið 1937

Eftir 1933 verður saga Borgarbandanna nokkuð skýrari en þá um haustið kom Bretinn Jack Quinet til landsins og tók við hljómsveit hótelsins af Bjarna, Bjarni lék þó áfram með henni en aðrir meðlimir sveitarinnar voru líkast til breskir. Quinet var hér um veturinn með átta manna sveit. Næsta sumar (1934) tók Arthur Rosebery við keflinu af honum, þá hafði Sveinn Ólafsson saxófónleikari bæst í hópinn svo Íslendingarnir voru þá tveir í sveitinni sem var kvintett undir stjórn Rosebery, auk Rosebery sem lék á píanó voru Thomas Alfred Draper og William John Pearce í sveitinni.

Sveinn lék einnig (á fiðlu) með klassísku „síðdegissveitinni“ sem var að öðru leyti skipuð ungverskum tónlistarmönnum undir stjórn Dr. Zakál en sú sveit starfaði fram á vorið 1935 á Borginni, sá Zakál giftist íslenskri stúlku og fluttu þau svo til Búdapest. Albert Klahn (þá nýkominn til landsins) stjórnaði svo þeirri sveit til 1936 en hann átti eftir að ílengjast hér, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveit hans.

Jack Quinet kom aftur til að stjórna Hljómsveit Hótel Borgar vorið 1936 og var við stjórnvölinn næstu árin með þeirri undantekningu að Billy Cook stjórnaði sveitinni veturinn 1937-38. Um skipan sveitarinnar eru fremur litlar upplýsingar nema að trommuleikari hennar var Connell Hall, undir stjórn Cook léku Sveinn Ólafsson, Vicke [?], Stan [?] og Victor Urbancic píanóleikari en sá síðast taldi var þá nýkominn til landsins og átti eftir að búa og hér og starfa. Um það leyti starfaði síðdegissveitin undir stjórn Bernand Monshin.

Danshljómsveitin starfaði áfram undir stjórn Jack Quinet þegar Billy Cook var farinn á brott og þá voru Íslendingarnir loks farnir að láta að sér kveða í hljómsveitinni fyrir alvöru. Vorið 1938 kom t.a.m. Vestur-Íslendingurinn Páll Dalmann trompetleikari til landsins og lék með sveitinni um skamma hríð og það sama haust voru þeir Þórir Jónsson fiðlu- og saxófónleikari, Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari, Sveinn Ólafsson saxófónleikari, Höskuldur Þórhallsson trompetleikari og Árni Björnsson píanóleikari í henni. Þessi sveit lék jafnframt stundum danslög í útvarpinu og þá var Fritz Weisshappel einnig með henni sem píanóleikari. Jóhannes Eggertsson bassaleikari, Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari og Óskar Cortes fiðluleikari tóku svo við af Sveini og Vilhjálmi sem fóru um tíma til Danmerkur til að freista gæfunnar. Jóhannes átti síðan eftir að færa sig yfir á trommur.

Hljómsveit Hótel Borgar 1941 undir stjórn Jack Quinet

Í byrjun heimsstyrjaldarinnar síðari var hljómsveit Hótel Borgar eingöngu orðið skipuð Íslendingum fyrir utan hljómsveitarstjórann (Jack Quinet) og var sveitin allt að tíu manna þegar mest var. Stríðið breytti miklu og hingað til lands flæddi tónlist í stríðum straumum með breska hernámsliðinu og Reykjavík og Borgin fengu á sig nokkuð alþjóðlegan blæ, djasstónlistin var því orðið að sjálfsögðum og eðlilegum parti af menningarlífinu og íslensku hljóðfæraleikararnir höfðu þá margir hverjir tileinkað sér færni sem var full boðleg. Stundum var boðið upp á söngvara og t.a.m. lék sveitin á skemmtun Blaðamannafélags Íslands undir söng Helgu Gunnarsdóttur, þá lék hún einnig undir á tónleikum Hallbjargar Bjarnadóttur í Gamla bíói og fékk til þess sérstakt leyfi frá Jóhannesi á Borg. Á þessum árum lék sveitin töluvert fyrir Bretana í bröggum sem gegndu hlutverki félagsheimila þeirra en einnig fóru þeir félagar stöku sinnum út fyrir bæjarmörkin og léku m.a. í Þrastalundi í Grímsnesi.

Árið 1941 var sveitin skipuð þeim Árna píanóleikara, Vilhjálmi saxófónleikara, Sveini saxófónleikara, Fritz bassaleikara, Jóhannesi trommuleikara (eða trumbuslagara eins og það var þá kallað) og Þóri saxófónleikara. Sumarið 1942 gerðist það hins vegar að hljómsveitarstjórinn Jack Quinet var fluttur í skip og sendur úr landi, heimildir eru misvísandi um hvort hann hafi verið kvaddur í herinn eða handtekinn fyrir liðhlaup en hann hvarf þarna skyndilega af sjónarsviðinu og Þórir Jónsson tók við hljómsveitarstjórninni – þar með var fyrsta alíslenska djasshljómsveitin komin til sögunnar og reyndar einnig fyrsta íslenska danshljómsveitin því sveitin var nú í fyrsta sinn skipuð Íslendingum eingöngu.

Sveitin mun að mestu hafa verið skipuð sömu meðlimum á stríðsárunum en Henni Rasmus lék þó eitthvað með henni af því er virðist, um það leyti sem stríðinu lauk haustið 1945 urðu þó nokkrar breytingar á skipan hennar, Guðmundur H. Norðdahl klarinettu- og saxófónleikari kom þá inn í hana og aðrir meðlimir voru þá Vilhjálmur, Jóhannes og Þórir hljómsveitarstjóri auk þess sem Baldur Kristjánsson píanóleikari og Kjartan Runólfsson trompetleikari höfðu þá gengið til liðs við hana, Trausti Thorberg gítarleikari kom svo einnig inn í Borgarbandið um svipað leyti.

Hljómsveitin undir stjórn Carl Billich

Eftir stríð urðu enn breytingar á skipan sveitarinnar, Baldur og Trausti hættu í henni árið 1946 en ekki liggur fyrir um hvort frekari breytingar urðu á henni fyrr en Þórir hljómsveitarstjóri hætti sumarið 1947. Við hans starfi tók Carl Billich en hann var þá nýkominn aftur til Íslands eftir að hafa verið handtekinn á stríðsárunum og verið fangi í Bretlandi. Carl lék á píanó og með honum í hljómsveit Hótel Borgar voru þeir Höskuldur trompetleikari, Jóhannes trommuleikari, Vilhjálmur klarinettuleikari og Sveinn saxófónleikari. Þannig var sveitin skipuð um tíma en einnig eru heimildir um að Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari og Kristján Kristjánsson (KK) saxófón- og klarinettuleikari hafi leikið með sveitinni um tíma en þeir voru báðir kornungir hljóðfæraleikarar þá. Einhverjar frekari breytingar urðu á sveitinni, Einar B. Waage, Gunnar Egilson, Axel Kristjánsson og Josef Felzmann léku með henni um tíma og jafnvel Björn R. Einarsson básúnuleikari þegar hann var ekki upptekinn með eigin sveit. Haukur Morthens var þá töluvert farinn að koma fram með sveitinni og hún var þá í aukum mæli farin að leika á skemmtunum utan hótelsins.

Hljómsveit Hótel Borgar í þeirri mynd, þ.e. eiginleg hljómsveit hótelsins og í nafni þess, starfaði fram á árið 1950 en eftir það má segja að húshljómsveitir hótelsins hafi starfað í eigin nafni, og því er ekki fjallað um þær sérstaklega hér. Framangreindar sveitir eru án nokkurs vafa mikilvægar í sögulegu samhengi hlutanna, með þeim hóf djasstónlistin innreið sína auk þess sem saga þeirra litast af mikilvægri réttindabaráttu tónlistarmanna.