Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar (1978-)

Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar 1978

Tónlistarmaðurinn góðkunni Magnús Kjartansson hafði starfað með fjölmörgum þekktum hljómsveitum á sjöunda og áttunda áratugnum og meðal þeirra má nefna sveitir eins og Trúbrot, Hauka, Júdas og Óðmenn en það var ekki fyrr en undir lok áttunda áratugarins sem hann stofnaði í fyrsta sinn hljómsveit í eigin nafni, eftir það starfrækti hann slíka sveit linnulítið í áratugi.

Fyrsta Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar var sett á laggirnar snemma árs 1978 til að leika á svokölluðum Sunnukvöldum ferðaskrifstofunnar Sunnu en meðlimir þeirrar sveitar voru auk Magnúsar sem lék á hljómborð þeir Birgir Karlsson gítarleikari, Sigurður Karlsson trommuleikari og Pálmi Gunnarsson bassaleikari. Þegar því verkefni var lokið fáeinum mánuðum síðar höfðu þeir félagar hug á að halda áfram samstarfinu nema Birgir sem hafði öðrum hnöppum að hneppa og í kjölfarið varð Brunaliðið til – sem varð feikivinsæl í kjölfarið.

Tvö ár liðu þar til önnur sveit Magnúsar leit dagsins ljós, Brunaliðið var þá hætt og hljómsveit í nafni Magnúsar lék á tveggja laga plötu sem hafði að geyma tónlist úr kvikmyndinni Veiðiferðinni sem var frumsýnd í mars 1980 en Magnús samdi tónlistina í myndinni. Ekki er ljóst hverjir skipuðu þessa sveit Magnúsar en Pálmi Gunnarsson söng annað laganna – Eitt lítið andartak, hitt lagið var sungið af Skólakór Garðabæjar en þessi plata var fyrsta útgefna platan hérlendis sem eingöngu hafði að geyma tónlist úr kvikmynd.

Hljómsveit Magnúsar 1984

Aftur liðu tvö ár uns Magnús kom fram með hljómsveit, það var tríó sem lék á fjölmennum útifundi sjálfstæðisflokksins í aðdraganda borgarstjórnarkosninga vorið 1982 en reyndar liggur ekki fyrir hverjir skipuðu þá sveit. Litlu síðar eða það sama sumar sendi Magnús frá sér plötu undir nafni Hljómsveitar Magnúsar Kjartanssonar sem bar titilinn Samkvæmt læknisráði, sú sveit var reyndar fjórtán manna en lék ekkert opinberlega af því er virðist ekki frekar en hljómsveit í nafni Magnúsar sem lék á plötu akureyska þríeykisins Ernu Evu Ernu – Manstu eftir því, sem SG-hljómplötur gaf út um svipað leyti. Söngkonurnar þrjár sungu á báðum plötunum en aðeins hluti hljóðfæraleikaranna léku á báðum plötunum, Magnús, Pálmi Gunnarsson bassaleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari og Kristinn Svavarsson saxófónleikari.

Árið 1983 stofnaði Magnús hina eiginlegu Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar en það var sveit starfaði lengi vel sem húshljómsveit í Súlnasal Hótel sögu en hún tók við því hlutverki af Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar sem hafði verið þar lengi. Afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um þessa sveit framan af fyrir utan að Magnús og Vilhjálmur Guðjónsson voru í henni en Vilhjálmur lék að öllum líkindum á gítar og saxófón. 1984 var sveitin sextett sem bætti við sig tveimur blásurum þegar hún tók þátt í skemmtidagskránni Grínurum hringsviðsins en sveitin átti eftir að vera viðloðandi ýmsar skemmti- og tónlistardagskrár næstu árin á Sögu auk þess að leika á dansleikjum. Það sama ár lék sveitin um sumarið (eða að minnsta kosti hluti hennar) með HLH flokknum á dansleikjum um sumarið og á plötu þeirra félaga, hápunktur sumarsins átti svo að vera í Viðey um verslunarmannahelgina þar sem hljómsveitin átti að skemmta en sú útihátíð floppaði illilega eins og frægt er.

Magnús og félagar 1988

Um haustið 1984 sneri hljómsveit Magnúsar aftur á Hótel Sögu og þá hafði sveitinni borist liðsstyrkur í söngvurunum Jóhanni Helgasyni og Ellenu Kristjánsdóttur en aðrir meðlimir hennar voru þá Gunnar Jónsson trommuleikari, Finnbogi Kjartansson bassaleikari og bróðir Magnúsar, Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari og Hjörtur Howser hljómborðsleikari. Einhverjar breytingar urðu á sveitinni árið eftir (1985), Baldur Þórir Guðmundsson [hljómborðsleikari?] lék t.a.m. með sveitinni um tíma en einnig voru þeir Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari, Kristinn Svavarsson saxófónleikari og Kristján Edelstein gítarleikari með þeim Finnboga, Gunnari og Magnúsi. Janis Carol söng jafnframt með þeim félögum um tíma.

Sveitin var áfram á Hótel Sögu yfir vetrartímann en einnig starfaði hún við hvers konar árshátíðar- og þorrablótsdansleiki auk annarra tilfallandi verkefna, t.d. lék hún á alþjóðlegri danskeppni á Sögu. Erna Gunnarsdóttir söng með sveitinni um tíma 1986 en það ár lék sveitin með Geirmundi Valtýssyni í laginu Með vaxandi þrá þegar það kom út á safnplötu en lagið hafði vakið mikla athygli í undankeppni Eurovision, þeirri fyrstu hérlendis. Í kjölfarið hófst langt samstarf Geirmundar og Magnúsar en nokkuð óljóst er hvort hljómsveit Magnúsar eða einungis hluti hennar lék með sveiflukónginum á dansleikjum sunnan heiða næstu árin en Geirmundur starfrækti upp frá þessu tvær hljómsveitir – eina norðanlands og aðra sunnanlands. Eins er óljóst hvort hljómsveit Magnúsar að sumu eða öllu leyti hafi leikið á plötum Geirmundar í framhaldinu.

Hljómsveit Magnúsar starfaði lítið breytt árið 1987, þá hafði Pétur Hjaltested gengið til liðs við sveitina en aðrir meðlimir voru Gunnar, Finnbogi, Kristinn, Vilhjálmur og Magnús auk Ernu Gunnarsdóttur sem söng en sveitin fékk það hlutverk að leika þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga sem Kristinn hafði samið og gengur iðulega undir titlinum Síðasti dansinn (en heitir reyndar Síðasti dansinn í Dalnum), þau Erna og Björgvin Halldórsson sungu lagið við miklar vinsældar en lagið var í raun fyrsta þjóðhátíðarlagið um langa tíð sem hlaut almannahylli. Sveitin lék af þessu tilefni á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina og reyndar víða um land um sumarið, og svo á frægum tónleikum sem Árni Johnsen hélt utan um og haldnir voru í Kerinu í Grímsnesi í ágúst. Um haustið 1987 var sveitin mikið á Suðurnesjunum við spilamennsku og svo varð hún eins konar húshljómsveit í nýjum vikulegum sjónvarpsþætti í Ríkissjónvarpinu og var í umsjá Hermanns Gunnarssonar en þættirnir báru nafnið Á tali með Hemma Gunn, þar átti sveitin eftir að standa vaktina í sjö vetur.

Hljómsveit Magnúsar sem Bræðrabandalagið

Hljómsveitin var síður en svo hætt að starfa á Hótel Sögu og söng Pálmi Gunnarsson þar nú með sveitinni en hún var nú hlaðin öðrum verkefnum líka, þættirnir Á tali með Hemma Gunn nutu mikilla vinsælda og svo flutti sveitin tvö lög í undankeppni Eurovision 1988, Eitt vor eftir Kristin Svavarsson og Sólarsömbu eftir Magnús en síðarnefnda lagið sem flutt var í nafni „Bræðrabandalagsins“ (sem var í raun hljómsveit Magnúsar) naut mikilla vinsælda og kom út á safnplötunni Bongó blíða, titill plötunnar kemur reyndar úr laginu og er nýyrðasmíð Magnúsar. Lagið syngur Magnús sjálfur ásamt dóttur sinni Margréti Gauju sem þá var barnung. Sveitin var mikið á ferðinni um sumarið í kjölfar vinsælda lagsins og lék bæði á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins s.s. Hollywood sem og á sveitaböllum landsbyggðarinnar og reyndar komu fleiri söngvarar fram með þeim um það leyti, Helga Möller, Eyjólfur Kristjánsson og fleiri. Sveitin gekk undir Bræðrabandalags-nafninu einnig í tónlistarsýningunni Næturgalinn – ekki dauður enn, sem sett var á svið Sögu þetta árið en sú sýning var helguð tónlist Magnúsar Eiríkssonar, og í kjölfarið kom hún lítillega við sögu á plötu Mannakorna sem bar einmitt titilinn Mannakorn 5: Bræðrabandalagið. Einnig lék sveitin á plötu Lýðs Ægissonar sem kom út þetta sama ár.

Hljómsveit Magnúsar hætti á Hótel Sögu og nú var sveitin meira á faraldsfæti, var m.a. árið 1989 í Þórscafe tengt skemmtidagskránni Hvar er Elsa? sem sett var saman með Ladda, og einnig á dansleikjum tengt því. Pálmi Gunnarsson var söngvari framan af árinu 1989 en þá tók Björgvin Halldórsson við en að öðru leyti var það sami kjarni sem lék með sveitinni með Magnúsi, þeir Gunnar trymbill, Finnbogi bassaleikari og Vilhjálmur gítarleikari. Þá léku meðlimir sveitarinnar um það leyti inn á fleiri plötur s.s. með Hallbirni Hjartarsyni – Kántrý 5 og plötunni Niður við krossinn en sú hafði að geyma trúarlega tónlist. Árið 1990 var sett tónlistardagskrá á svið í Glaumbergi í Keflavík sem var tileinkuð söngvaranum Vilhjálmi Vilhjálmssyni og gekk sú sýning um tíma þar en var síðar sett á svið Broadway undir heitinu Við eigum samleið. Á veturna var sveitin bundin Á tali með Hemma Gunn en hún átti sér einnig fasta liði á sumrin, lék í miðbæ Reykjavíkur á 17. júní í mörg ár sem og á sjómannadagsdansleikjum í Bolungarvík auk almenns dansleikjahalds um landsbyggðina.

Í upphafi tíunda áratugarins hóf sveitin að starfa meira í þeim geira sem flokkast undir trúarlega tónlist, sveitin hafði leikið inn á plötuna Niður við krossinn en nú tók hún við að leika t.a.m. blús- og djasstengda tónlist á trúar- og gospeltengdum tónleikum og samkomum s.s. í Bústaðakirkju, Víðistaðakirkju og víðar. Söngkonur eins og Sigríður Guðnadóttir, Ingveldur Ólafsdóttir, Stefanía Valgeirsdóttir, Ruth Reginalds og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sungu með sveitinni á slíkum stundum en einnig karlsöngvarar eins og Egill Ólafsson, Björgvin Halldórsson, James Olsen og fleiri, dansleikjahald fór samhliða því nokkuð minnkandi hjá þeim félögum.

Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar

Um miðbik áratugarins varð sveitin mun minna áberandi í spilamennskunni og færði sig meira yfir í árshátíðatengda viðburði, reyndar tók hún þátt í uppfærslu á Grease sem sett var á svið á Hótel Íslandi og sýningunni Keflavíkurnætur II (undir nafninu Stórsveit Magnúsar Kjartanssonar en stundum var sveit hans auglýst undir því nafni) en sinnti nú öðruvísi verkefnum sem nú voru farin að njóta vinsælda svo sem bæjar- og afmælishátíðum, þar má nefna kántríhátíð á Skagaströnd, afmælishátíð á Höfn í Hornafirði og Sæluviku Sauðkrækinga og í einhverjum tilvikum lék sveitin einnig inn á plötur tengdar slíkum viðburðum. Fáar heimildir er að finna um skipan hljómsveitarinnar um þetta leyti, Vilhjálmur Guðjónsson virðist alltaf hafa verið viðloðandi sveitina en hér má einnig nefna Hallberg Svavarsson gítarleikara. Ruth Reginalds söng með hljómsveitinni í kringum aldamótin og um það leyti var sveitin áberandi í kántrítengdum viðburðum, hluti sveitarinnar lék reyndar inn á plötu söngtríósins Snaranna en þær stöllur voru einnig nátengdar tónlist Geirmundar um þetta leyti, sem Magnús og félagar komu einnig að.

Undir lok aldarinnar (1998) var plata hljómsveitar Magnúsar frá 1982 – Samkvæmt læknisráði í raun endurútgefin þegar öll lög plötunnar rötuðu inn á tvöfalda safnplötu – Huglæg áhrif, 35 leiknar íslenskar perlur, en sú safnskífa hafði eingöngu að geyma instrumental perlur í íslenskri poppsögu. Um það leyti var hljómsveitin ekki orðið nándar nærri eins áberandi og áður og einskorðaði sig við árshátíðir og hvers kyns einkasamkvæmi, hún hafði þó líklega miklu meira en nóg að gera en var ekki eins áberandi í dansleikjaauglýsingum. Sveitin lék einnig áfram á kántríhátíðinni á Skagaströnd og nú einnig á Ljósanótt árið 2008 en það ár kom jafnframt út platan Þú lýgur því! með Karlakór Keflavíkur og poppgoðum Suðurnesja, þar sem sveitin lék en þar var hún skipuð þeim bræðrum Magnúsi og Finnboga, Vilhjálmi Guðjónssyni og Erik Qvick trommuleikara.

Síðustu árin hefur farið mun minna fyrir Magnúsi og hljómsveitar í hans nafni, slíkar sveitir hafa þó poppað reglulega upp, árið 2011 var t.a.m. sveit í hans nafni sem lék á 60 ára afmælistónleikum Magnúsar á Broadway en síðast lék hljómsveit (stórhljómsveit) undir nafninu Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar árið 2019 eftir því sem best verður séð.

Magnús Kjartansson er enn í fullu fjöri í tónlistinni og e.t.v. starfar enn hljómsveit í hans nafni, hann hefur a.m.k. allt fram til þessa starfað með Geirmundi Valtýssyni en ekki liggur alveg fyrir hvort þar sé um að ræða hljómsveit Magnúsar eða aðeins hann og hluta þeirra sem skipuðu sveit hans.

Efni á plötum