Afmælisbörn 29. nóvember 2024

Geiri Sæm

Afmælisbörn Glatkistunnar eru fimm að þessu sinni:

Skáldkonan Didda eða bara Sigurlaug Jónsdóttir fagnar stórafmæli en hún er sextug á þessum degi. Segja má að hún hafi fyrst vakið athygli fyrir textann við lagið Ó Reykjavík með Vonbrigðum sem var upphafslag kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík en textar hennar hafa birst víðar. Hún gaf á sínum tíma út plötuna Strokið & slegið en hefur einnig verið í hljómsveitunum Slagverki, Englaryki og Minä Rakastan Sinua en síðast talda sveitin gaf út plötu.

Gunnar Þór Eggertsson gítarleikari fagnar fimmtíu og eins árs afmæli í dag, hann er þekktastur fyrir veru sína í hljómsveitinni Landi og sonum en hann var einnig gítarleikari Vina vorra og blóma, Busabandsins, Ðe senjórita swingband, Musical nature, Næsland og fleiri sveita á sínum tíma.

Píanó- og básúnuleikarinn Jón Möller átti afmæli á þessum degi. Jón (fæddur 1939) lék með fjölda hljómsveita sem margar hverjar voru í djassgeiranum, hér má nefna m.a. sveitir eins og Tonik kvartett, Hljómsveit Hauks Morthens, Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar, Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar, Duus-gengið, Bergmenn og Tríó Reynis Sigurðssonar en einnig starfrækti hann sveitir í eigin nafni. Jón lést árið 2019.

Pétur Guðjohnsen tónlistarfrömuður hefði einnig átt afmæli en hann fæddist þennan dag árið 1812. Pétur stofnaði kór pilta við Latínuskólann í Reykjavík og var einnig organisti Dómkirkjunnar, hann átti einnig stærstan þátt í að fyrsta orgel landsins kom til landsins og var því að mörgu leyti frumkvöðull í íslensku tónlistarlífi um miðja nítjándu öldina. Pétur lést 1877.

Hér er að síðustu nefndur Geiri Sæm eða Ásgeir Magnús Sæmundsson en hann hefði átt afmæli á þessum degi. Geir Sæm (1964-2019) sendi frá sér þrjár sólóplötur og nokkra stórsmelli á borð við Froðuna, Er ást í tunglinu?, Sterann og Rauðan bíl á tónlistarferli sínum en einnig starfaði hann með hljómsveitum eins og Pax Vobis, Exodus, Frjóvgun og Fimm á Richter.

Vissir þú að Magnús Blöndal Jóhannsson sem samdi lagið Sveitin milli sanda, var fyrstur Íslendinga til að semja raftónlist?