Geiri Sæm (1964-2019)

Geiri Sæm

Tónlistarmaðurinn Ásgeir Sæmundsson eða Geiri Sæm var fjölhæfur í sköpun tónlistar sinnar en hann starfaði með nokkrum hljómsveitum og átti einnig farsælan sólóferil þar sem hann sendi frá sér nokkrar plötur og vinsæl lög, tilraunir hans við að koma tónlist sinni á framfæri erlendis gengu ekki upp þrátt fyrir nokkra vinnu.

Geiri Sæm (Ásgeir Magnús Sæmundsson) fæddist 1964 í Reykjavík en hann er sonur Sæmundar Pálssonar lögregluþjóns sem er þekktari undir nafninu Sæmi Rokk. Hann hóf á unglingsaldri að spila með hljómsveitum, ýmist á gítar eða hljómborð. Fyrsta sveitin hans bar að öllum líkindum nafnið Frjóvgun en síðan tók við hljómsveitin Exodus sem vakti nokkra athygli er hún kom fram í Stundinni okkar í Ríkissjónvarpinu, sú sveit var stofnuð 1978 en Geiri var þá fjórtán ára. Segja má að Exodus hafi verið eins konar uppeldisstöð fyrir tónlistarfólk því auk hans voru m.a. í sveitinni þau Skúli Sverrisson, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Björk Guðmundsdóttir sem öll hafa gert tónlistina að ævistarfi sínu.

Exodus starfaði til ársins 1982 og ári síðar stofnuðu þeir Geiri, Þorvaldur Bjarni og Skúli hljómsveitina Pax Vobis sem starfaði til ársins 1986, sú sveit vakti nokkra athygli fyrir nýrómantískt popp sem þótti nokkuð „erlendis“ og hún sendi frá sér plötu samnefnda sveitinni sem hlaut góðar viðtökur og heilmikla athygli, tónlistina sömdu þeir í sameiningu en Geiri þó sýnu mest. Hann spilaði á hljómborð og annaðist sönginn í sveitinni.

Eftir að Pax Vobis hætti hóf Geiri að vinna með eigið efni og sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu haustið 1987 en hún hlaut titilinn Fíllinn og var gefin út af Skífunni. Tónlistaráhugamönnum þótti kveða við nýjan tón á plötunni sem var átta laga en hann hafði fengið sér til fulltingis félaga sína úr Pax Vobis auk gítarleikarans Kristján Edelstein. Tónlistin var ekki ólík þeirri sem Pax Vobis hafði fengist við en þótti poppaðri, jafnvel fönkuð og bar persónulegan hljóm og stíleinkenni Geira. Lagið Rauður bíll varð töluvert vinsælt og kom Geira Sæm á poppkortið sem sólólistamanni, Fíllinn fékk góða dóma í DV en slakari í Þjóðviljanum.

Samhliða þessari útgáfu starfrækti Geiri hljómsveitina Hunangstunglið sem var stofnuð í því skyni að kynna plötuna, sveitin fylgdi plötuútgáfunni eftir með spilamennsku einkum eftir áramótin en lék einnig t.a.m. á jólaballi Bylgjunnar í desember.

Geiri Sæm var þarna búinn að skapa sér nafn og kom nokkuð fram opinberlega með tónleikahaldi ásamt Hunangstunglinu og um vorið 1988 hitaði hann upp með sveitinni fyrir Boy George sem þá hélt tónleika í Laugardalshöllinni, hann var þá þegar farinn að kynna nýtt efni sem og hann gerði á Listapoppi ´88, stórtónleikum sem voru hluti af Listahátíð í Reykjavík um sumarið.

Geiri Sæm (Ásgeir Sæmundsson)

Um haustið 1988 var hafist handa við að vinna nýja plötu og var upptökuferlið öllu skemmra en á fyrri plötunni sem var heilt ár í smíðum, nýja platan kom út fyrir jólin og fékk titilinn Er ást í tunglinu? Þrátt fyrir skamman vinnslutíma og að tekist hefði að koma plötunni út fyrir jólin varð nokkurt fát þegar kom í ljós að upplagið hefði eyðilagst í pressuferlinu í Sviss og tafðist því útgáfan lítillega. Platan kom út undir flytjendanafninu Geiri Sæm og Hunangstunglið þannig að hún var ekki eiginleg sólóplata Geira enda kom t.a.m. Þorvaldur jafn mikið að lagasmíðunum og Geiri, titillagið Er ást í tunglinu og Þú brýtur mig í spað nutu nokkurra vinsælda en stórsmellur plötunnar var Froðan sem varð feikivinsælt og er löngu orðið sígilt, það lag var síðan endurunnið í flutningi Ragnars Bjarnasonar og Jóns Jónssonar löngu síðar. Platan hlaut mjög góða dóma í Alþýðublaðinu og Þjóðviljanum og ágæta í DV.

Árið 1989 fór lítið fyrir Geira Sæm og Hunangstunglinu, það var líklega ekki fyrr en um verslunamannahelgina það sumarið að sveitin lét að sér kveða en hún var þá meðal skemmtikrafta í Húnaveri. Geiri var hins vegar sjálfur um það leyti að vinna að samböndum erlendis með útgáfusamning í huga, þeir Geiri og Styrmir Sigurðsson gerðu svokallaðan demó-samning við bresku útgáfuna A&M og útsendarar frá fyrirtækinu komu hingað til lands og hlýddu á tónleika sem Geiri Sæm og Hunangstunglið stóðu fyrir í því skyni að hjálpa til við útgáfusamning. Plönin voru þau að landa slíkum samningi og gera út á breska markaðinn undir dúetta-nafninu Moonbus en þegar Styrmir hvarf til náms í Bandaríkjunum þurfti að endurhugsa hlutina. Kristján Edelstein gítarleikari var líklegur til að fylla skarð Styrmis en af þessum fyrirætlunum varð aldrei af einhverjum ástæðum, líklega var þó eitthvað af efni tekið upp fyrir fyrirhugaða útgáfu þótt það liti aldrei ljós opinberlega en Geiri vann að þessu leynt og ljóst næstu árin.

Í upphafi árs 1991 stofnaði Geiri nýja sveit og kallaðist hún Heitir svansar, þessi sveit sem varð ekki langlíf kom eitthvað fram það árið og einnig Geiri Sæm eins síns liðs s.s. á styrktartónleikum fyrir krabbameinsveik börn. Um sumarið kom út lag með Geira á safnplötunni Úr ýmsum áttum en það lag var forsmekkurinn fyrir fyrirhugaða plötu sem áætlað var að kæmi út um haustið. Lagið, sem hlaut nafnið Sterinn varð einn af stórsmellum sumarsins 1991 og gaf tóninn fyrir plötuna sem fékk titilinn Jörð en hún hafði verið tekin upp í Sýrlandi um sumarið. Jörð fékk ágæta dóma í Vikunni, Tímanum og DV og mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum. Um sama leyti kom út platan Stóru börnin leika sér en á henni sungu nokkrir valinkunnir söngvarar eldri barnalög undir stjórn Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, framlag Geira Sæm á þeirri plötu var Ryksugulagið – slagari sem Olga Guðrún Árnadóttir hafði gert ódauðlegt rúmlega tuttugu árum fyrr.

Geiri Sæm ásamt Sverri Stormsker og Bjarna Ara

Geiri Sæm var ekki eins áberandi árið 1992, hann átti þó lag á safnplötunni Sólargeisla (Tilfinningin er góð) en það kom ekki út annars staðar, þá átti hann einnig lag í kvikmyndinni Veggfóður en það var ensk útgáfa af laginu Jörð og bar titilinn Secondhand emotions. Hann kom fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina en að öðru leyti hafði hann sig lítið í frammi.

Geiri hvarf því smám úr sviðsljósinu, hann var eitthvað erlendis um tíma að vinna í sínum málum í tengslum við útgáfumálin í Bretlandi en vann nokkuð á bak við tjöldin að tónlist fyrir aðra s.s. í kvikmynda- og auglýsingastefjabransanum. Hann stofnaði nýja sveit, Lassie sumarið 1994 en sú sveit starfaði ekki lengi.

Næstu misserin starfaði Geiri Sæm mest við kokkastörf en hann var menntaður kokkur en tónlistin varð smám saman alveg útundan. Það var ekki fyrr en um miðjan fyrsta áratug nýrrar aldar sem spurðist til hans á tónlistarsviðinu en þá lék hann um tíma með hljómsveitinni Fimm á Richter og í framhaldinu með Tryggva Hübner gítarleikara. Það var svo árið 2012 sem hann kom fram með Kiriyama family og þá sendi hann frá sér nýtt lag í fyrsta skipti í mörg ár, það var lagið Frá topp oní tær sem fékk nokkra athygli og varð til að meira heyrðist frá honum í kjölfarið. Hann stefndi þá að því að gera plötu, kom fram á tónlistarhátíðinni Innipúkanum um sumarið 2013 og nokkrum vikum síðar flutti hann lag ásamt Berndsen í sjónvarpsþættinum Hljómskálanum. Platan fyrirhugaða kom aldrei út, Geiri hvarf aftur á braut en birtist þremur árum síðar á Menningarnótt og um svipað leyti kom Hunangstunglið saman eftir langa pásu.

Næst heyrði frá Geira Sæm haustið 2019 þegar hann sendi frá sér lagið Sooner than later á fimmtíu og fimm ára afmælisdaginn en fáeinum vikum síðar var hann allur, lést eftir skammvinn veikindi og var tónlistarfólki og öðrum mikill harmdauði.

Eftir Geira Sæm liggja þrjár plötur í hans nafni auk plötu Pax Vobis sem hann átti stóran þátt í, tónlist hans má einnig heyra á ýmsum safnplötum s.s. Óskalögin 8 (2004), Fjölskyldualbúmið (2013), Bjartar nætur (lagið Dimmalimm sem ekki hefur komið út annars staðar) (1989), Pottþétt 59 (2013) og Fyrstu árin (1991). Heilmikið óútgefið efni liggur jafnframt eftir Geira en óvíst er um útgáfu þess, víst er þó að margt af því á fullt erindi á opinberan markað.

Efni á plötum