Magnús Blöndal Jóhannsson (1925-2005)

Magnús Blöndal

Magnúsar Blöndal Jóhanssonar verður e.t.v. af almenningi fyrst og fremst minnst fyrir lagið Sveitin milli sanda sem Elly Vilhjálms gerði ódauðlegt fyrir margt löngu en Magnús er einnig eitt merkilegasta tónskáld 20. aldarinnar fyrir framlag sitt og sem brautryðjandi í módernískri tónlist, hann var fyrstur til að kynna raftónlist til sögunnar hér á landi en fæstir voru tilbúnir á þeim tíma að meðtaka þær tilraunir hans.

Magnús fæddist á Skálum á Langanesi 1925 en fluttist með fjölskyldu sinni suður til Reykjavíkur um þriggja ára aldur, þá hóf hann fljótlega að prófa sig áfram við píanóið enda var tónlistin honum í blóð borin og hann var farinn að spila eftir eyranu um líkt leyti. Hann mun hafa samið sitt fyrsta lag aðeins sex ára gamall og sökum hæfileika sinna hlaut hann inngöngu í Tónlistarskólann í Reykjavík aðeins tíu ára gamall, þá yngstur allra til að hljóta þann heiður. Áður en til formlegs náms hans við tónlistarskólann kom hafði hann notið tilsagnar hjá Þórhalli Árnasyni og Helgu Laxness en við skólann nam hann hjá Franz Mixa,Victor Urbancic og Karli O. Runólfssyni. Tíu ára gamall lék hann í fyrsta sinn á tónleikum og ljóst þótti að þarna var á ferð mjög hæfileikaríkur einstaklingur.

Svo fór að Magnús flutti til Ameríku ásamt föður sínum til framhaldsnáms en utan fór hann tuttugu og eins árs gamall og hóf nám við Juilliard tónlistarskólann í New York, þar var hann um tíma samskóla þeim Svavari Gests og Kristjáni Kristjánssyni (KK) en þeir áttu síðar eftir að feta gjörólíka leið í tónlistinni. Svavar sagði reyndar löngu síðar frá því í blaðaviðtali að leiðir þeirra þriggja, Svavars, Kristjáns og Magnúsar hefðu legið saman árið 1944 þegar þeir stofnuðu danshljómsveit í Reykjavík en Magnúsi hefði verið bannað að leika með þeim þar sem hann átti að taka sitt klassíska píanónám alvarlega. Í Juilliard nam Magnús auk píanóleiks, hljómsveitastjórnun og tónsmíðar en hugur hans snerist smám saman að síðast talda þættinum, hann lauk námi árið 1952 en sótti þó einhverja einkatíma í píanóleik og tónsmíðum vestra áður en hann sneri heim til Íslands árið 1954.

Hér heima hóf hann fljótlega störf sem gagnrýnandi á Vísi og starfaði við það til ársins 1957 en 1956 byrjaði hann að starfa hjá Ríkisútvarpinu og um svipað leyti við Þjóðleikhúsið, hann kom við sögu sem undirleikari á báðum vígstöðvum en einnig við kór- og hljómsveitarstjórnun s.s. við uppfærslur á óperum við leikhúsið, þar má t.d. nefna óperurnar Sígaunabaróninn og Rigoletto. Þess má til gamans geta að Magnús lék árið 1960 þekkt útvarpsstef á píanó sem lengi var notað í Ríkisútvarpinu og var byggt á þjóðlaginu Ár vas alda, þetta „biðstef“ var í notkun langt fram á níunda áratuginn. Hann starfaði mestmegnis á tónlistardeild Ríkisútvarpsins en annaðist einnig dagskrárgerð í útvarpinu.

Magnús við píanóið

Tvær 78 snúninga plötur komu út með píanóleik Magnúsar á sjötta áratugnum en upplýsingar um þær útgáfur eru af afar skornum skammti, önnur virðist hafa verið gefin út af Ríkisútvarpinu en hin af Nola recordings studios.

Magnús hafði á fyrstu árum sínum eftir nám mestmegnis fengist við að semja einsöngs- og kórlög, auk hljómsveita- og kammerverka og einhver laga hans höfðu verið flutt í útvarpssal, hann samdi einnig tónlist fyrir leikhús og snemma ára sjöunda áratugnum var t.a.m. sett á svið leikritið Dimmuborgir eftir Sigurð Róbertsson en Magnús samdi tónlistina við það. Í kjölfarið fylgdu fleiri slík verkefni en tónlist hans var þá að breytast. Hann hafði kynnst framsækinni tónlist vestur í Bandaríkjunum og hafði hann farið að gera tilraunir með slíkt, samdi t.d. Fjórar abstraktsjónir sem hefur verið talið fyrsta íslenska tólf tóna verkið í anda Schönbergs.

Hér heima hélt Magnús framsæknum tónsmíðatilraunum sínum áfram og hóf að vinna raftónlist með segulböndum við frumstæðar aðstæður en hann fékk að nota klippiherbergið í Ríkisútvarpinu við þær, segulböndin voru klippt til á þessum árum löngu áður en tölvutæknin og stafræna tæknin síðar, tóku við. Hann var einn þeirra sem kom að stofnun tónlistarhópsins Musica nova árið 1960 og á tónleikum þess hóps var verk hans Elektrónísk stúdíó frumflutt, það hafði verið samið árið á undan og er talið marka straumhvörf í íslenskri tónlist þar sem um fyrsta elektróníska verkið var að ræða. Tveimur árum síðar flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verkið Punkta eftir Magnús á tónleikum og var það sömuleiðis fyrsta raftónlistarverkið sem flutt var á sinfóníutónleikum hérlendis. Gagnrýnendur tættu Magnús og önnur nútímatónskáld samtímans í sig enda mótaðir af áratuga formfestu og betri vitund um hvernig tónlist ætti að hljóma, slíkt beit þó lítt á ungskáldin og þeir héldu nýsköpun sinni ótrauðir áfram.

Verkefnin sem tengdust leikhúsi og kvikmyndum fjölgaði hjá Magnúsi og báru keim af nýjum straumum, hann samdi á næstu árum tónlist fyrir kvikmyndir Ósvalds Knudsen tengdar eldgosum í Öskju og Surtsey þar sem tónlistin þótti tormelt ein og sér en hæfði myndefninu hins vegar fullkomlega. Það kvað þó við annan tón í mynd Ósvaldar, Sveitinni milli sanda en titillag hennar var af allt öðrum toga og sló rækilega í gegn flutt af Elly Vilhjálms. Það lag hefur margsinnis verið endurútgefið með Elly en fjölmargt annað tónlistarfólk hefur tekið lagið upp á sína arma og gefið út á plötum, þar má nefna Björgvin Halldórsson, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur (Diddú), Þú og ég, Tríó Björns Thoroddsen og Andreu Gylfadóttur, Eivöru Pálsdóttur, Ellen Kristjánsdóttur, Gunnar Gunnarsson, Hermigervil, Hrólf Vagnsson, L‘amour fou, Hönsu og Friðrik Karlsson, Þóri Baldursson og Jónas Þóri. Magnús samdi einnig tónlist fyrir erlendan kvikmyndaiðnað s.s. við myndirnar The forgotten front og The other Iceland, auk fjölda sjónvarpsþátta annarra en hér hafa verið nefndir.

Unnið við segulbönd

Þótt Magnús hafi á þessum tíma ekki fengist neina sérstaka viðurkenningu fyrir elektrónísku nútímatónlist sína utan Musica nova og þröngs áhugafólk um slíka samtímatónlist, hlaut tónlis hans náð fyrir stórmennum í geiranum s.s. sjálfum Karlheinz Stockhausen sem mun m.a. hafa notað tónlist hans í fyrirlestraröð sem hann hélt á sínum tíma. Þá voru verk hans flutt sem fyrr segir á tónleikum Musica nova en einnig á erlendum vettvangi, t.d. á norrænni tónlistarhátíð í Finnlandi á sínum tíma sem og í Póllandi.

Meðal annarra verka hans frá þessum tíma má nefna ballettinn Frostrósir sem hann vann ásamt Ingibjörgu Björnsdóttur, sónötu fyrir óbó og klarinett, Íónísatíónir fyrir orgel, Kammerkantötu fyrir tvo sólósóprana, trompet og píanó, Samstirni (elektrónískt verk), Sonorities, Fimmtán minigrams fyrir tréblásarakvartett o.fl.

Sem fyrr segir starfaði Magnús fyrir Þjóðleikhúsið um árabil og vann þá tónlist (kór- og hljómsveitastjórnun o.fl.) við fjölda ópera, leikrita og söngleikja sem sett voru þar á svið, þeirra á meðal má nefna Prjónastofuna Sóley, Amahl og næturgestina, Ó þetta er indælt stríð, Marat, Galdra-Loftur, Fiðlarinn á þakinu, Dómínó, Sæluríkið, Brönugrasið rauða og Sókrates. Við mörg þessara verka samdi Magnús tónlistina sjálfur, t.a.m. við síðast talda leikritið en hún var gefin út á plötu.

Segja má að lífið hafi leikið við Magnús um og eftir miðja öldina, hann var framsækið tónskáld sem auk þess sinnti óvenjulegum áhugamálum, tók mikið af ljósmyndum, var radíóamatör, stundandi svifflug (var um tíma formaður Svifflugfélags Íslands), útivist og skútusiglingar, og var auk þess þess með flugmannspróf. Nokkur atvik urðu þó til að kippa undan honum fótunum í upphafi áttunda áratugarins, upphaf þess hefur verið rakið til þess að hann var svikinn um tónlistarstjórnun á söngleiknum um Oklahoma í Þjóðleikhúsinu haustið 1971 en áður hafði verið leitað til hans um verkefnið enda hafði hann þá verið starfandi við leikhúsið í um fimmtán ár. Í mótmælaskyni sagði hann samstundis upp störfum og hvarf til Austurríkis, og þá um leið frá starfi sínu við Ríkisútvarpið. Magnús sem hafði verið stakur bindindismaður fór að drekka ótæpilega og missti stjórnina fljótlega í þeim efnum. Fleiri áföll fylgdu í kjölfarið, hann hafði misst fyrstu eiginkonu sína úr veikindum snemma á sjöunda áratugnum og önnur kona hans lést af slysförum árið 1977, nánast sama dag og móðir hans lést. Það ár hélt hann til Bandaríkjanna í áfengismeðferð en hann var þá langt leiddur af áfengisdrykkju, það tók hann nokkurn tíma og nokkrar atlögur að vinna í sjálfum sér og dvaldi hann vestra uns hann birtist sem nýr maður eftir langt hlé árið 1981, segja má að hann hafi alveg horfið af sjónarsviðinu í um níu ára tímabil.

Þarna hófst síðara tónskáldatímabil Magnúsar, nýir tímar leiddu af sér nýja nálgun og synthesizerar sem þarna voru tiltölulega nýlega komnir á almennan markað voru kjörin tæki fyrir hann. Kombakk Magnúsar voru í endurreistri Musica nova og á tónlistarhátíðinni Myrkum músíkdögum, og á næstu árum sendi hann frá sér verk eins og Atmos I og II, Sonorities, Solitude (fyrir Manuelu Wiesler), Hýróglýfur og Adagio fyrir strengjasveit og slagverk. Tónlistin bar keim af nýrri tækni en þótti um leið rómantískari og melódískari en áður.

Næstu árin virðist Magnús ýmist hafa starfað og búið hér á landi og í Bandaríkjunum en svo kom að hann fluttist alfarið heim líklega um miðjan níunda áratuginn. Á þeim tíma lék hann dinnertónlist víða um land, t.d. á Ísafirði, á Hótel Valhöll á Þingvöllum og veitingastaðnum Sólon í Reykjavík auk þess að annast tónlistarþætti fyrir Ríkisútvarpið, hann kom einnig við í leikhúsinu aftur en að þessu sinni á landsbyggðinni – s.s. á Ísafirði og Akureyri, á síðarnefnda staðnum stórnaði hann tónlistinni í Emil í Kattholti, hann stjórnaði einnig hljómsveit í uppfærslu Óperusmiðjunnar á Amahl og næturgestunum. Magnús sendi aukinheldur reglulega frá sér tónlist unna á hljóðgervla og tölvur en þó ekki með jafn miklum afköstum og fyrrum.

Magnús Blöndal Jóhannsson

Á þessum síðari árum Magnúsar fór tónlist eftir hann að koma út í auknum mæli, sem fyrr er greint höfðu komið út tvær 78 snúninga plötur á sjötta áratugnum með honum en nú voru það mestmegnis aðrir tónlistarmenn sem gáfu út efni eftir hann. T.d. kom út plata með flautuleikaranum Manuelu Wiesler 1989 sem m.a. hafði að geyma verkið Solitude, sama ár sendi Sinfóníuhljómsveit Íslands frá sér plötuna Fjögur íslensk hljómsveitarverk og þar var m.a. að finna verkið Adagio en einnig hafa komið út verk af ýmsum toga á plötum Kristins Arnar Kristinsonar, Stefáns Ragnars Höskuldssonar, Ariu, Ghostigital og Þórarins Stefánssonar. Verk hans hafa einnig komið út á safnplötum s.s. Norðurljós: Lieder aus dem Norden, Enquête Sur Le Monde Invisible, Íslenska einsöngslagið og Motorlab #3. Þess má jafnframt geta að Magnús hefur einnig leikið á fáeinum plötum annarra listamanna, sem undirleikari Guðmundu Elíasdóttur og Sigurðar Björnssonar en einnig á flautu og strengi á plötu Rúnars Þórs Péturssonar.

Þegar Magnús var tekinn að eldast fór honum að hlotnast ýmsar viðurkenningar fyrir tónlist sína aðra en Sveitina milli sanda, honum var t.d. gert hátt undir höfði á Pólýfóníu listahátíðinni í Nýlistasafninu og Erkitíð tónlistarhátíðinni og var reyndar gerður að heiðurstónskáldi þar, hann var einnig kjörinn félagi í International Biographical Association í Cambridge. Þá þáði hann listamannalaun frá árinu 1991.

Um miðjan tíunda áratuginn komst Magnús í kynni við Bjarka Sveinbjörnsson sem síðar lauk doktorsnámi í tónvísindum með áherslu á upphaf elektrónískrar tónlistar á Íslandi, þar sem Magnús var óneitanlega fyrirferðamikill. Bjarki safnaði saman og bjargaði nótnahandritum Magnúsar (alls sextíu og sex handritum og brotum) sem höfðu farið á flakk meðan hann var í óreglu, og þau voru síðan afhent Landsbókasafninu til eignar. Bjarki hefur að auki ritað mikið um Magnús og hefur auk þess gert útvarpsþætti um hann.

Haustið 2000 kom út á vegum Smekkleysu platan Elektrónísk stúdía en á þeirri plötu má finna nokkur af verkum Magnúsar sem til voru upptökur af, platan var gefin út í tengslum við Alþjóðlegu Raf- og tölvutónlistarhátíðina ART2000 og við sama tækifæri var hann heiðraður af Tónskáldafélagi Íslands. Platan fékk mjög góða dóma í DV og Morgunblaðinu, útgáfan þótti mjög vönduð en dr. Bjarki hafði veg og vanda af texta bæklingsins sem fylgdi henni.

Magnús lést í ársbyrjun 2005 rétt tæplega áttræður og var hans minnst með margvíslegum hætti, haldnir voru minningartónleikar um hann á tónlistarhátíðinni Orðið tónlist og nokkru síðar var frumsýnd heimildarmynd eftir Ara Alexander Ergis Magnússon sem bar sama titil, Orðið tónlist: Magnús Blöndal Jóhannsson. Ásgerður Júníusdóttir messósópran og Árni Heimir Ingólfsson píanóleikari sendu frá sér plötuna Í rökkri árið 2006 en hún hafði að geyma einsöngslög Magnúsar, á þeirri plötu er einnig að finna það sem kallað var rafútsetningar af nokkrum laganna en þær voru unnar af tónskáldum af yngri kynslóðinni.

Ljóst er að Magnús er eitt af merkilegustu tónskáldum 20. aldarinnar á Íslandi og þótt flestir þekki einungis Sveitina milli sanda, er þáttur hans í nútímatónlist stærstur og þá ekki síst brautryðjendastarf hans í elektrónískri tónlist. Verk hans eru reglulega flutt á hinum ýmsu tónlistarhátíðum hérlendis og erlendis og hefur hann þannig séð hlotið meiri alþjóðlegri viðurkenningu en íslenska þótt ýmsir hér á landi hafi haldið nafni hans á lofti.

Efni á plötum