
Hvítir hrafnar í Íslensku óperunni
Tónlistarmaðurinn Rafn Jónsson (Rabbi) setti saman fjölmenna hljómsveit í tilefni af útgáfu fyrstu sólóplötu sinnar – Andartak, sem kom út haustið 1991. Sveitin hlaut nafnið Hvítir hrafnar og lék reyndar aðeins í þetta eina skipti, á útgáfutónleikum í Íslensku óperunni.
Meðlimir Hvítra hrafna voru alls fjórtán og ljóst er af samsetningu sveitarinnar að ekki léku þeir allir í einu því þarna má finna fjóra trommuleikara fyrir utan Rabba sjálfan, þeir voru Ólafur Hólm, Steingrímur Guðmundsson, Gunnlaugur Briem og Halldór Gunnlaugur Hauksson. Aðrir meðlimir sveitarinnar voru bassaleikararnir Haraldur Þorsteinsson og Baldvin Sigurðarson, gítarleikararnir Þorsteinn Magnússon, Sigurður Gröndal og Örn Magnússon en aðrir voru Jón Ólafsson hljómborðsleikari, Jens Hansson saxófónleikari, Einar Bragi Bragason saxófónleikari og Eyþór Arnalds sellóleikari. Fjölmargir söngvarar komu aukinheldur fram með sveitinni en þeir voru Stefán Hilmarsson, Helgi Björnsson, Andrea Gylfadóttir, Reynir Guðmundsson, Daníel Ágúst Haraldsson, Sævar Sverrisson, Eva Ásrún Albertsdóttir, Erna Gunnarsdóttir og Bubbi Morthens. Allt þetta tónlistafólk hafði komið við sögu á plötunni.














































