Þuríður Sigurðardóttir (1949-)

Þuríður Sigurðardóttir

Söngkonan ástsæla Þuríður (Svala) Sigurðardóttir var með vinsælustu söngkonum landsins á sínum tíma þótt hún syngi ekki beinlínis hvern stórsmellinn á fætur öðrum. Hún er af miklu tónlistarfólki komin og hafa þau tengsl án efa átt sinn þátt í að hún fetaði söngstíginn en í blaðaviðtali hefur hún sagt að það hefði aldrei verið ætlunin, hún lét síðar drauminn um að verða myndlistakona, rætast.

Þuríður (f. 1949) er dóttir Sigurðar Ólafssonar sem var kunnur söngvari og hestamaður, og söng m.a. Landleguvalsinn og Sjómannavalsinn en fékkst einnig við óperusöng og tónlist af annars konar tagi. Bræður Sigurðar voru Jónatan og Erling sem einnig voru þekktir söngvarar og sonur Sigurðar (og bróðir Þuríðar) er Gunnþór Sigurðsson sem var bassaleikari í sveitum eins og Q4U á sínum tíma. Þess má einnig geta að poppfræðingurinn Jónatan Garðarsson er einnig náskyldur Þuríði.

En Þuríður ólst við tónlistarlegt uppeldi og kom fram í fyrsta skipti í morgunsöng Laugarnesskóla þar sem hún söng einsöng tólf ára gömul en hún var síðan sextán ára (1965) þegar hún var nörruð til að syngja með Lúdó sextett og Stefáni Jónssyni og þá var ekki aftur snúið. Þuríður söng með sveitinni í nokkurn tíma og 1966 kom út fjögurra laga plata með sveitinni á vegum SG-hljómplatna þar sem hún var í sönghlutverki í einu þeirra, laginu Elskaðu mig sem áður hafði notið vinsælda í flutningi Sonny og Cher. Platan fékk þokkalega dóma í Vikunni. Um svipað leyti söng hún í stúlknakór sem söng á jólaplötu Ómar Ragnarssonar, Krakkar mínir komið þið sæl og kom út fyrir jólin 1966.

Í kjölfarið (sumarið 1967) bauðst henni að syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar sem þá var húshljómsveit á Röðli, þáverandi söngkona sveitarinnar Anna Vilhjálms fór í barneignafrí og tók við Þuríður við keflinu af henni. Vilhjálmur Vilhjálmsson var þá einnig söngvari í hljómsveitinni. Þuríður var aðeins sautján ára á þessum tíma og söng á einhvers konar undanþágu inni á skemmtistaðnum en sveitin lék þar sex kvöld í viku.

Hljómsveit Magnúsar Ingimarsson lék víða á héraðsmótum um sumarið en á Röðli veturinn eftir en alls söng Þuríður með sveitinni á Röðli í fimm ár. Ein plata kom út með þeim saman, lítil fjögurra laga plata en á henni er að finn lagið S.O.S. ást í neyð sem er löngu orðið klassískt í flutningi þeirra Þuríðar og Vilhjálms.

Þau Þuríður og Vilhjálmur voru öflugt söngpar en Vilhjálmur var þá einnig farinn að starfa sem atvinnuflugmaður og leysti Halldór Kristinsson hann stundum af, haustið 1968 hætti Vilhjálmur þó endanlega í sveitinni og við söng- og bassaleikarahlutverkinu tók ungur Vopnfirðingur, Pálmi Gunnarsson.

Þuríður Sigurðardóttir ásamt Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar

Þuríður söng inn á aðra plötu 1969, tveggja laga, sem gefin var út af SG-hljómplötum eins og hinar fyrri og á þeirri plötu er að finna lögin Ég ann þér enn og Ég á mig sjálf en bæði lögin nutu nokkurra vinsælda, síðarnefnda lagið var síðar Megasi yrkisefni í lag sem hlaut sama titil.

Ári síðar, 1970 kom út enn ein smáskífa með söng Þuríðar en þar léku breskir hljóðfæraleikarar undir hjá henni. Sú plata (Í okkar fagra landi / Vinur kær) hlaut fremur dræmar viðtökur og slaka dóma í Vikunni og Vísi. Það sumar lék sveit Magnúsar á héraðsmótum um land allt.

1971 kom út stór plata með söng Þuríðar og föður hennar, Sigurði Ólafssyni, hún hét einfaldlega Feðginin Sigurður Ólafsson og Þuríður Sigurðardóttir syngja saman. Á þeirri plötu lék hljómsveit undir stjórn Jóns Sigurðssonar undir söng þeirra feðgina en hún seldist gríðarlega vel. Þetta var fyrsta stóra plata beggja.

Þau Þuríður og Pálmi Gunnarsson höfðu fellt hugi saman og giftu sig síðla árs 1971 og ári síðar hætti Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar störfum, þá hafði Þuríður verið í sveitinnni í fimm ár en var þá einungis tuttugu og tveggja ára gömul og hafði komið fram mörg hundruð sinnum með sveitinni, þar af í fjölmörg skipti í sjónvarpi. Mörgum þótti einkennilegt að hún skyldi syngja með mun eldri hljómsveitarmönnum og fyrir eldri dansleikjagesti en jafnaldrar hennar í tónlistarbransanum en þetta form hentaði henni fullkomlega enda hafði hún lítinn áhuga á djammlífinu sem fylgdi sveitaballaböndunum.

Árið 1972 urðu viss tímamót í lífi Þuríðar en hún hóf þá störf sem flugfreyja og átti eftir að gera það af og til næstu árin samhliða söngstarfinu. Það sama ár gáfu þau hjónin Þuríður og Pálmi út plötuna Þuríður og Pálmi syngja lög eftir Gunnar Þórðarson en á þeirri plötu var m.a. að finna lög sem hljómsveitin Hljómar hafði gert vinsæl nokkrum árum fyrr, einhver laganna voru nú með íslenskum textum en höfðu áður verið gefin út á ensku sbr. Óskastjarnan (Starlight) og Minningar (Memory). Hljómsveitin Trúbrot lék með þeim á plötunni, að minnsta kosti að einhverju leyti.

Þuríður árið 1968

Og Þuríður var afkastamikil á þessum tíma milli hljómsveita, árið 1973 komu út tvær plötur með söng hennar, annars vegar eins konar safnplata á vegum SG-hljómplatna, Fjórtán vinsæl lög, með lögum sem hún hafði áður sent frá sér á smáskífum og á plötunni með Pálma. Hins vegar kom út önnur plata sem hafði að geyma söng þeirra hjóna en sú bar heitið Þuríður & Pálmi, og var gefin út af Fálkanum. Hún fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Þuríður hóf að syngja með Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar haustið 1973 á Hótel Loftleiðum og starfaði með þeirri sveit um veturinn. Snemma árs 1974 stofnuðu þau Þuríður og Pálmi hljómsveitina Islandiu sem var sjö manna húshljómsveit í Sigtúni um sumarið en sú sveit starfaði stutt, Þuríður fór þá í barneignafrí og var frá vinnu í um eitt ár. Hún eignaðist soninn Sigurð Pálma sem átti lítillega eftir að láta að sér kveða í tónlistinni, þau Pálmi slitu síðan samvistum.

Það var síðan haustið 1975 sem Þuríður lét aftur að sér kveða en þá var hún ráðin til starfa með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu. Með þeirri sveit söng hún allt til vorsins 1979.

Þau Þuríður og Ragnar unnu heilmikið saman á þessum árum, 1976 kom út plata með söng þeirra en hún fékk titilinn Ragnar og Þuríður syngja lög eftir Jónatan Ólafsson, sá Jónatan var auðvitað föðurbróðir Þuríðar.

Þá gekk Þuríður einnig til liðs við Sumargleðina sem starfaði undir stjórn Ragnars og átti hún eftir að starfa með þeim gleðihóp í mörg sumur, hún söng eitt lag á tveimur plötum sem Sumargleðin gaf út, lagið Við getum rokkað því til, ásamt Ómari Ragnarssyni (1984). Hún hefur þó einnig sungið á plötum með öðrum meðlimum Sumargleðinnar, Magnúsi Ólafssyni (Geymdu þína ást) og á plötum Ragnars Bjarnasonar.

Þuríður lagði hljómsveitaferilinn að mestu á hilluna í bili 1979 en hefur hins vegar komið fram í mýmörg skipti opinberlega með ýmsu öðru tónlistarfólki, á sviði og í sjónvarpi. Hún kom m.a. fram á afmælishátíð FÍH ásamt föður sínum árið 1982 og í kjölfarið söng hún á alls kyns tónlistarshowum á Broadway og víðar, sem nutu vinsælda á níunda og tíunda áratugnum, s.s. Bítlashowið (1983), Hin gömlu kynni (1984), Týnda kynslóðin (1987), Komdu í kvöld (1989) og Aftur til fortíðar (1991).

Þá söng Þuríður lag ásamt Ómari Ragnarssyni í Landslagskeppninni árið 1991, það kom út á samnefndri plötu en rödd hennar má einnig heyra á plötum HLH flokksins, Lýðs Ægissonar, Helga Péturssonar, Vilhjálms Vilhjálmssonar, Ragnars Kristins Kristjánssonar, Bjarna Hjartarsonar, Bjarna Sigurðsson frá Geysi og Ladda, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þuríður hóf að syngja með hljómsveitinni Vönum mönnum haustið 1992 og söng með henni allavega til aldamóta, a.m.k. eitt lag kom út með sveitinni á safnplötu (Lagasafnið 4 (1996)), hún hefur einnig starfað lítillega með Hilmari Sverrissyni, Tríói Árna Scheving og Nýaldarliðinu svo dæmi séu tekin.

Þuríður ung að árum

Þuríður sendi frá sér undir eigin nafni lagið Eftir ballið (áður flutt af Miðaldamönnum) sem kom út á safnplötunni Gæðamolar (1996). Hún söng einnig lag á safnplötunni Danslagakeppni Hótel Borg (1986), þjóðhátíðarlagaplötunni Ég veit þú kemur (1991) og á jólaplötum eins og Gleðileg jól (1987) og Gleðilega hátíð (1984).

Eldri og áður útgefin lög Þuríðar hafa einnig komið út á safnplötum í gegnum tíðina eins og Svona var það-seríunni (2008), Aftur til fortíðar-seríunni (1990), Óskastundinni 4 (2005), Rökkurtónum (1987), Síldarævintýrinu (1992), Stelpunum okkar (1994), Endurminningum (1992), Það gefur á bátinn (1981), Þrjátíu vinsælustu söngvurunum 1950-75 (1978), Pottþétt hinsegin (2002), Stóru bílakassettunni-seríunni (1979 og 80), Fjórtán faðmlögum (1985), og 100 íslenskum… -seríunni (2008 og 09).

Þuríður fékkst við margvísleg störf á níunda og tíunda áratugnum, hún starfaði t.a.m. sem sjónvarpsþula um tíma, fékkst við dagskrárgerð í útvarpi (Aðalstöðinni) og starfaði hjá Umferðarráði samhliða tónlistinni en aukinheldur var hún á fullu í hestamennsku í frístundum, það áhugamál hafði hún fengið í arf frá föður sínum.

Þuríður hafði fengist lítillega við myndlist allt frá unglingsárum en um miðjan tíunda áratuginn lét hún gamlan draum rætast og hóf að læra myndlist, hún útskrifaðist úr Listaháskólanum 2001 og hefur fengið við fagið síðan, m.a. haldið nokkrar myndlistasýningar.

Hún hefur þó aldrei sagt alveg skilið við söngferilinn og nafn hennar heyrist reglulega nefnt í tengslum við tónlistartengdar uppákomur, hún hefur t.d. haldið ferilstónleika við stór söngafmæli og minningartónleika á síðari árum.

Efni á plötum