Björgvin Þórðarson (1934-)

Björgvin Þórðarson

Vestfirðingurinn Björgvin Þórðarson tenórsöngvari var áberandi í karlakóramenningunni í sinni heimabyggð og söng oftsinnis einsöng á tónleikum en hann sendi jafnframt frá sér eina einsöngslagaplötu.

Björgvin er fæddur 1934 á Suðureyri við Súgandafjörð en fluttist ríflega tvítugur til Flateyrar þar sem hann bjó og starfaði lengst af sem rafverktaki.

Björgvin söng með fjölda karlakóra sem störfuðu á svæðinu, þeirra á meðal voru Karlakór Ísafjarðar og Karlakórinn Ægir í Bolungarvík (sem sameinuðust í karlakórinn Erni) og Karlakór Þingeyrar. Með þeim kórum söng hann margsinnis einsöng á tónleikum. Hann mun ennfremur hafa sungið einsöng einhverju sinni með Karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði en hann var þó aldrei meðlimur þess kórs.

Í tilefni af sextíu ára afmælis Björgvins vorið 1994 sendi hann frá sér plötu sem bar titilinn Björgvin Þórðarson tenór en hún hafði að geyma tuttugu og tvö einsöngslög úr ýmsum áttum, sem höfðu verið tekin upp 1985 og 1993.

Björgvin flutti til Reykjavíkur í kjölfar náttúruhamfaranna á Flateyri 1996 og hóf þá að syngja með Karlakór Reykjavíkur, hann starfaði með þeim kór uns hann hætti sökum aldurs.

Efni á plötum