Wool (1993-94)

Wool

Rokkhljómsveitin Wool starfaði í rúmlega ár um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, sveitin hafnaði í öðru sæti Músíktilrauna en nýtti sér það illa, sumir meðlima hennar urðu síðar áberandi í íslensku tónlistarlífi.

Wool mun hafa verið stofnuð 1993 en ekkert spyrst til sveitarinnar fyrr en vorið 1994 er hún keppti í Músíktilraunum Tónabæjar, meðlimir hennar voru þá Höskuldur Ólafsson söngvari, Sindri Már Finnbogason gítarleikari, Orri Páll Dýrason trommuleikari, Björn Agnarsson bassaleikari og Þórhallur Bergmann hljómborðsleikari. Wool komst í úrslit keppninnar og reyndar gott betur því sveitin lenti í öðru sæti á eftir Maus.

Í kjölfar þess góða árangurs hefði má ætla að sveitin nýtti sér meðbyrinn en lítið fór fyrir henni næstu mánuðina, einhverjir meðlima hennar hófu að vinna tónlist með Barða Jóhannssyni undir nafninu Marsipan án þess þó að Wool legði upp laupana en sveitin nýtti þó sumarið til að taka upp efni fyrir hljóðverstímana sem þeir unnu í Músíktilraununum.

Um haustið birtist Wool aftur og lék í nokkur skipti á tónleikum en síðan virðist hún hafa lognast útaf fyrir áramótin 1994-95. Höskuldur söngvari fór í kjölfarið að starfrækja með öðrum hljómsveitina 2001 sem varð undanfari Quarashi, Sindri gítarleikari birtist síðar í hljómsveitinni Lace, Orri Páll trommari í Sigur rós og fleiri sveitum og Þórhallur hljómborðsleikari í Vinyl o.fl.