Afmælisbörn 16. júlí 2019

Shady Owens

Fimm afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:

Trommuleikarinn og Stuðmaðurinn Ásgeir Óskarsson er 66 ára. Hljómsveitalisti trymbilsins er líklega með þeim lengri í bransanum en Ásgeir hafði leikið með mörgum bítla- og hippasveitum áður en að Stuðmannaævintýrinu kom, þar má nefna Scream, Fjörefni, Terso, Arfa, Trix, Andrew, Menninguna, Apple, Paradís, Pelican og Eik. Í seinni tíð hefur hann leikið með hljómsveitum eins og Þursaflokknum, Tamlasveitinni, Icecross, Ástarkveðju, The Riot, Specials, Sunnan 3, Trap, Vinum Dóra, Þremur á palli, Auknum þrýstingi, Gullkistunni, Bandinu hans pabba, Grúsk, Fánum, Danshljómsveit Vilhjálms Guðjónssonar, Bítladrengjunum blíðu og Vönum mönnum. Þá er ótalin sólóferill Ásgeirs sem telur nokkrar plötur.

Eðlisfræðingurinn Andri Guðmundsson hljómborðsleikari er þrjátíu og sjö ára gamall í dag. Andri var hljómborðsleikari Írafárs en hann lék einnig um tíma með hljómsveitinni Landi og sonum. Hann hefur nú snúið sér að annars konar verkefnum og býr í Svíþjóð í dag.

Söngkonan Shady Owens (Patricia Gail Owens) á ennfremur afmæli í dag en hún er sjötug og á því meira að segja stórafmæli. Shady söng mörg af þekktustu lögum Hljóma og Trúbrots hér fyrir margt löngu en áður hafði hún sungið með Óðmönnum, síðar söng hún einnig með Hljómsveit Guðmundar Steingrímssonar, Náttúru og Póker hér á landi. Shady söng aukinheldur inn á fjölmargar plötur hér á landi s.s. með Mezzoforte, Þorgeiri Ástvaldssyni, Gunnars Þórðarsyni og Rúnari Júlíussyni.

Einnig hefði tónskáldið Þorkell Sigurbjörnsson átt afmæli í dag en hann lést árið 2013. Þorkell (f. 1938) nam sín fræði hér heima, í Bandaríkjunum og í Þýskalandi, kenndi á píanó, stjórnaði kórum og kenndi tónsmíðar enda samdi hann margar af perlum íslenskra sönglaga auk annarra verka, þekkast verka hans er án efa sálmurinn Heyr himnasmiður. Þorkell lét sig einnig félagsmál tónlistarmanna varða, var t.a.m. í stjórn Listahátíðar, Musica Nova og formaður Tónskáldafélags Íslands.

Að síðustu er hér nefndur Karl Lilliendahl gítarleikari en hann lést árið 2002. Karl fæddist á þessum degi 1933 og lék með sveitum eins og Neo tríóinu, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Jan Morávek auk þess að reka sveit í eigin nafni. Hann lék ennfremur inn á fjölda platna hér á árum áður eins og með Ómari Ragnarssyni, Alfreð Clausen, SAS tríóinu, Soffíu og Önnu Siggu og Hjördísi Geirs svo fáeinar séu nefndar.