
Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir
Þrjú afmælisbörn koma við sögu íslenskrar tónlistar í dag á lista Glatkistunnar:
Andrea Gylfadóttir söngkona er fimmtíu og sjö ára. Andrea hafði lagt stund á söng og sellóleik þegar hún gekk til liðs við hljómsveitina Grafík og tók þar við af Helga Björnssyni. Þar sló hún í gegn og í kjölfarið styrkti hún stöðu sína meðal fremstu söngkvenna landsins með hljómsveitum eins og Todmobile, Tweety, Blúsmönnum Andreu og fleiri sveitum auk þess að syngja á plötum fjölda listamanna.
Tónlistarkonan Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir á tvítugs afmæli í dag. Steinunn, sem einnig hefur vakið athygli fyrir baráttu sína fyrir réttindum flóttafólks, hefur starfað með rafdúettnum Asdfgh og hljómsveitinni Bagdad brothers sem báðar hafa unnið til Kraumsverðlauna og sent frá sér plötur.
Jón Þórarinsson tónskáld hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann lést 2012. Jón sem fæddist austur á Héraði 1917 nam sín fræði í Reykjavík, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Austurríki, hann kom síðan heim og starfaði við Ríkisútvarpið sem dagskrárstjóri, Sinfóníuhljómsveit Íslands sem framkvæmdastjóri, stýrði kórum og sinnti ennfremur kennslu auk þess að semja tónlist. Þekktust sönglaga hans eru án efa Fuglinn í fjörunni og Íslenzkt vögguljóð á hörpu. Jón ritaði tónlistarsögu, sem ekki hefur komið út á opinberum vettvangi.