Garðar Þorsteinsson (1906-79)

Garðar Þorsteinsson

Séra Garðar Þorsteinsson (1906-79) var kunnur söngmaður og stjórnandi fyrir miðbik síðustu aldar. Hann fæddist á Akureyri 1906 en flutti ungur með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og ólst þar upp, eftir stúdentspróf lauk hann guðfræðiprófi og fór síðan erlendis til framhaldsnáms og nam þá söng en hann hafði þá þegar einnig lært söng hér heima, hjá Sigurði Birkis.

Garðar sem var baritón gekk til liðs við Karlakór K.F.U.M. og einsöng m.a. fjögur lög með kórnum inn á tvær 78 snúninga plötur sem komu út 1930 og 33, einhver þeirra laga voru síðar endurútgefin á safnplötum. Þegar karlakórinn Fóstbræður var stofnaður upp úr Karlakór K.F.U.M. söng hann með þeim um skamma hríð en hóf svo að syngja með karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði þegar hann gerðist prestur þar í bæ. Garðar stjórnaði Þröstum einnig á árunum 1937-45.

Garðar var kunnur fyrir störf sín að félags- og menningarmálum, einkum í Hafnarfirði en meðal tónlistartengdra félagsmála má nefna að hann var um tíma í stjórn Sambands íslenskra karlakóra. Hann hlaut jafnframt fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín, var m.a. heiðraður af Fóstbræðrum, Þröstum og Sambandi íslenskra karlakóra, og hlaut bæði fálkaorðuna og stórriddarakross fyrir störf sín.

Garðar lést 1979 eftir nokkur veikindi.