Guðlaugur Laufdal (1960-)

Guðlaugur Laufdal

Sjónvarpstrúboðinn Guðlaugur Laufdal var nokkuð þekktur í kringum síðustu aldamót fyrir tónlistarflutning sinn í predikunum á sjónvarpsstöðinni Omega.

Guðlaugur Aðalsteinsson Laufdal (fæddur 1960) kemur upphaflega frá Húsavík og mun hafa starfað þar með hljómsveitum sem upplýsingar liggja reyndar ekki fyrir um. Þar í bæ rak hann reyndar skemmtistaðinn Laufið um tíma en flutti suður og var í lok aldarinnar farinn að starfa á kristilegu sjónvarpsstöðinni Omega sem predikari og blandaði þar tónlist sinni, söng og gítarleik saman við predikanirnar, svo eftir var tekið utan kristilega samfélagsins. Hann átti einnig til að troða upp á krám með tónlist sína og hljómsveitin Nýdönsk fékk hann til að koma fram með sér á útgáfutónleikum árið 2005. Um það leyti lauk trúboðs- og tónlistarferli hans á Omega og hann hefur lítið komið fram opinberlega síðan. Þess má geta að Siggi Lauf (Sigurður Laufdal) sonur Guðlaugs, vakti nokkra athygli fyrir sína tónlist einnig en sú tónlist var annars eðlis.