Afmælisbörn 1. júní 2020

Þórður Helgi Þórðarson

Á þessum fyrsta degi júnímánaðar eru sex afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Ingólfur Guðjónsson hljómborðsleikari er sextíu og eins árs gamall í dag. Ingólfur lék með fjölda þekktra og óþekktra sveita hér áður, fyrst með sveitum eins og Árbliki og Boy‘s brigade en síðar komu þekktari sveitir eins og Rikshaw, Loðin rotta (síðar Sköllótta músin), Pláhnetan og 3TO1.

Þórður Helgi Þórðarson (Doddi litli) dagskrárgerðarmaður úr Njarðvíkum er fimmtíu og eins árs gamall. Þórður Helgi gengur einnig undir listamannsnafninu Love Guru og hefur gefið út nokkuð af tónlist undir því aukasjálfi en einnig var hann í hljómsveitum hér áður, s.s. Mullet sem sendi á sínum tíma frá sér plötu.

Heiðrún Anna Björnsdóttir söngkona er fjörutíu og sjö ára gömul. Hún vakti hér athygli á sínum tíma með hljómsveitum eins og Cigarette sem naut nokkurra vinsælda auk þess sem hún var um tíma í Gus gus, þá sendi hún frá sér nokkur sólólög áður en hún fluttist til Bretlands þar sem hún hefur búið síðustu áratuginu, þar hefur hún starfaði með hljómsveitum eins og Gloss og Cicada en hefur einnig unnið þar að sólóefni.

Jón Örn Arnarson trommuleikari Jet Black Joe og Ensíma er fjörutíu og sex ára í dag. Jón Örn var nokkuð áberandi á tíunda áratugnum með sveitunum tveimur, fyrst með Jet Black Joe og síðan Ensími en báðar sveitirnar nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Síðar var Jón Örn í hljómsveitinni Plast.

Jón Jósep Snæbjörnsson söngvari (Jónsi í Í svörtum fötum) er fjörutíu og þriggja ára gamall. Í svörtum fötum var feikilega vinsæl um og eftir aldamótin og um svipað leyti fór Jónsi sem fulltrúi Íslands í Eurovision til Istanbul með lagið Heaven. Hann söng einnig nokkuð í uppfærslum á söngleikjum um þetta leyti og gaf út sólóplötuna Jónsi árið 2005.

Snorri Helgason áður kenndur við Sprengjuhöllina en síðar sólóisti er þrjátíu og sex ára gamall í dag. Snorri varð landsþekktur með hljómsveit sinni, Sprengjuhöllinni, sem gaf út tvær plötur á sínum tíma en eftir að sú sveit leið undir lok hneigðist Snorri meir í átt að þjóðlagatónlist og hefur gefið út nokkrar sólóplötur í þeim dúrnum (og reyndar einnig eina barnaplötu), sem allar hafa hlotið ágætar viðtökur.