Austurfjöll

Austurfjöll
(Lag / texti: Ingibjörg Sigurðardóttir / Guðmundur Guðmundsson)

Þið ljómið heið og breið og blá, mín björtu austurfjöll.
Þar kveiktu ljósin bros á brá í bernsku álfahöll.
Það birtir alltaf yfir mér, er æsku guðavé
í anda við mitt hljómspil hér ég há og fögur sé.

Af lýsigulli loga slær um ljósa hlíð og dal,
er mildur andar aftanblær um álfakonungs sal.
Úr perlugljáa glitberg rís með glóspöng yfir brún,
þar bláeyg situr blómsturdís og blessar yfir tún.

Þar man ég græna laut hjá lind, er líður suður mó,
þar fæddist æskuást mín blind og ung í tárum dó.
Í ljóma kvöldsins leið hún inn í loftsins safírhöll,
hún birtist mér í sérhvert sinn, er sé ég austurfjöll.

Um júnídægrin ljós og löng er leiðin tónum greið
við fjaðrablik og svanasöng um sumarveldin heið.
Ég svíf í ókunn undralönd hve yfir þeim er ljóst,
mér réttir aftur æskan hönd með eyrarrós við brjóst.

Um hugann leggur hlýjan straum, er hljóðs og stuðla föll
úr fortíð grafa gleymdan draum og gull mín heil og öll.
Þið spyrjið víst hvað valdi því að vöknar mér um brá:
svo skær er bjarminn augum í um austurfjöllin blá.

[m.a. á plötunni Aðeins eitt blóm – ýmsir]
[nokkur lög eru til við þetta ljóð]