Heima

Heima (Ég uni mér best)
(Lag / texti: Jóhann Ó. Haraldsson / Guðmundur Guðmundsson)

Ég uni mér best við arin minn,
og elskan mín situr með bros á kinn
og raular í vökunni sönginn sinn
við sofandi glókolla mína.
Ég sit við borðið og les þar ljóð,
er loginn snarkar á aringlóð
og brosandi geislar af gömlum óð
sem góðvina bráleiftur skína.

Og hvar sem ég lít er ljósbrot eitt,
í litlu stofunni er bjart og heitt,
frá dagstriti hvílist þar höfuð þreytt
í heimilisfriðarins ríki.
Sem barnsaugu horfi’ inn í hjarta mér,
með himneskan unað í för með sér,
hvert smávægið ylríki’ og birtu ber
í brjóst mér í engils líki.

Mér finnst ég við allt og alla’ í sátt,
til einhverra þrekvirkja finn ég mátt,
ég kenni hvern einasta andardrátt
af elskunnar ljósvaka þrunginn.
Á blíðstilltum ljóðhreimum berst mín önd,
sem brosandi leiði mig guð sér við hönd
í eilífra hugsjóna heiðbjört lönd,
og heyrir þar friðarmál sungin.

Hún leggur á öxl mér lófann sinn,
og létt og vorhlýtt um kollinn minn
hún strýkur og mjúkan koss á kinn
ég kenni sem árblæ hlýjan.
Þá finnst mér sem góðir andar að
mér ástmálum hvísli’ á helgum stað
og hreimblæ mér veki nýjan.

Mér finnst ég göfgast og hreinka’ í hug,
og hálfu léttara viljans flug,
sem ósjálfrátt víki allt á bug,
er andann til moldar dregur.
Við guðdóminn skyldleik hans fyrst ég finn,
er fyllir hún kærleik huga minn:
Guðs miðill er elskandi ásthuginn
og eilífrar gæfu vegur.

Það titrar í kyrrðinni ljós um lín,
hún leiðir mig þegjandi inn til sín
og bendir á sofandi börnin mín
við bólsturinn ljósa og mjúka.
Þau draga andann svo djúpt en rótt,
sem dreymi þau guð á helgri nótt.
Hún læðist á tánum létt og hljótt
um lokkana þeirra að strjúka.

Í bæn mætast samhuga sálir tvær
og sjálfar sig kenna guði nær:
við mænum þögul í framtíð fjær
á forlaga dulda vegu.
Og sjálfkrafa ljóðstrengir titra blítt,
og tónamál skelfur í hreimi blítt,
hve blessað er inni, bjart og hlýtt
hjá börnunum elskulegu.

[m.a. á plötunni Jóhann Konráðsson – Ljúflingslög]