Taflið (úr leikritinu Lénharður fógeti)
(Lag / texti: Árni Thorsteinsson / Einar H. Kvaran)
Hann Torráður lendir á tröllkonu fund.
Hart og þungt er stigið um hellinn auðan.
Hún tók hann, þar festi’ hann í túninu blund.
Svo tefldu þau um lífið og dauðann.
Því gulltaflið þrífur hún, gestanna raun.
Hart og þungt er stigið um hellinn auðan.
Og tröllkonan hló, svo að titraði hraun:
“Nú teflum við um lífið og dauðann”.
“Ef getur þú unnið mig, gef ég þér líf.”
Hart og þungt er stigið um hellinn auðan.
“En tapirðu, þá ég í tætlur þig ríf,
því teflt er nú um lífið og dauðann”.
Guð veit hvort í Torráði vitið er nóg.
Hart og þungt er stigið um hellinn auðan.
Guð veit hvort að tafllokum Torráður hló,
er hann tefldi’ þar um lífið og dauðann.
[líklega óútgefið]














































