Flamingo [1] (1966-71)

Flamingo frá Sauðárkróki

Hljómsveitin Flamingo starfaði á Sauðárkróki og nágrenni á síðari hluta sjöunda áratug síðustu aldar og lék þá á dansleikjum í Skagafirðinum og reyndar mun víðar á norðanverðu landinu.

Flamingo (kvartett) var stofnuð upp úr Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar sem hafði verið starfandi á Króknum um árabil, þegar Haukur ákvað að hætta með sveit sína 1966 tóku hinir meðlimir hennar sig til og héldu áfram undir hinu nýja nafni. Þeir voru Geirmundur Valtýsson gítarleikari, Hafsteinn Hannesson bassaleikari, Óli Ólafsson söngvari, Jónas Þór Pétursson trommuleikari og Sigurgeir Angantýsson orgelleikari.

Sveitin starfaði alla tíð án mannabreytinga og lék á dansleikjum og skemmtunum á Norðurlandi s.s. héraðsmótum, og var m.a. fastur liður í Sæluviku Sauðkræklinga þar sem hún lék undir í dægurlagakeppninni en hljómsveit Hauks hafði einmitt haft þann starfa einnig. Sveitin var veturinn 1969-70 fastráðin í félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki.

Flamingo starfaði fram yfir áramótin 1970-71 en kom fram í síðasta sinn á nýársdagkvöld 1971, í kjölfarið stofnaði Geirmundur nýja sveit í eigin nafni sem starfaði í áratugi.