Félag íslenzkra dægurlagahöfunda [félagsskapur] (1955-78)

Félag íslenzkra dægurlagahöfunda starfaði um nokkurt skeið um og eftir miðbik síðustu aldar og var nokkuð öflugt framan af en að lokum lognaðist starfsemin út af eftir að hafa barist í bökkum í nokkur ár.

Félagið var stofnað haustið 1955 með því að um tuttugu og fimm manna hópur dægurlagahöfunda kom saman í því skyni að efla og þroska gengi léttra tónsmíða og höfunda þeirra, þá var áhersla lögð á gott samstarf við ljóðskáld.

Fyrstu árin stóð félagsskapurinn fyrir ýmis konar tónleikum og kynningum á íslenskri dægurlagatónlist, og m.a. hélt félagið utan um dægurlagasamkeppnir í ætt við það sem SKT hafði gert nokkrum árum fyrr. Þá stóð félagsskapurinn fyrir útgáfu hefta með dægurlagatextum, dagskrárgerð í útvarpi, námskeiðahaldi (s.s. í tónfræði o.fl.) og sitthvað fleira. Félag íslenzkra dægurlagahöfunda var ekki réttinda- eða baráttusamtök í þrengsta skilningi þess hugtaks en beitti sér þó eitthvað fyrir bættum réttindum dægurlagahöfunda t.d. gagnvart STEFi.

Félagið var nokkuð virkt til ársins 1969 en upp frá því virðist sem fjarað hafi smám saman undan því, í kringum 1977 og 78 var eitthvert lífsmark með félaginu en Haukur Morthens var þá formaður þess en eftir það mun það hafa lognast alveg útaf. Meðal annarra formanna félagsins má nefna Freymóð Jóhannsson sem var fyrstur í röðinni, Hjördísi Pétursdóttur og Kristin Rey Pétursson.