Flugan (1999-2004)

Flugan

Hljómsveitin Flugan frá Sandgerði starfaði í nokkur ár um og upp úr aldamótum, lék nokkuð á dansleikjum og skemmtunum á Suðurnesjunum og sendi frá sér eina plötu.

Sveitin var stofnuð formlega 1999 en þá höfðu nokkrir félagar í Sandgerði verið að leika sér með hljóðfæri í einhvern tíma á undan og starfað undir nafninu Konukvöl, þeir félagar tóku upp Flugu-nafnið árið 2000. Meðlimir Flugunnar voru þá þrír talsins, Kristinn H. Einarsson hljómborðsleikari, Smári Guðmundsson gítarleikari og Ólafur Þór Ólafsson gítarleikari, þeir Smári og Ólafur munu hafa skipt eitthvað með sér bassaleiknum. Líklega sungu þeir allir meira og minna.

Árið 2001 hófu þeir félagar að vinna frumsamið efni sem hafði að einhverju leyti verið til áður en sveitin tók til starfa, þá hafði Guðmundur Skúlason söngvari bæst í hópinn og þegar platan var hljóðrituð var Vilberg Ólafsson trommuleikari þeim innan handar einnig, hann mun svo hafa gengið formlega í Fluguna eftir að platan kom út sumarið 2003. Áður hafði komið út lag með sveitinni á safnplötunni Afsakið hlé.

Plata sveitarinnar sem var tíu laga bar titilinn Háaloftið og var gefin út af Geimsteini í Keflavík en hún hafði einmitt verið hljóðrituð þar. Nokkrir gestir komu við sögu á plötunni og ung söngkona, Ragnheiður Gröndal var þeirra á meðal en hún var um svipað leyti að slá í gegn. Háaloftið hlaut yfirleitt þokkalegar viðtökur, gagnrýnendur Víkurfrétta og Fréttablaðsins gáfu henni góða dóma en hún hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu.

Svo virðist sem Flugan hafi ekki starfað lengi eftir útgáfu plötunnar.

Efni á plötum