Fljóðatríó [1] (1968-72)

Fljóðatríóið

Fljóðatríó (Fljóðatríóið) er ein fyrsta kvennahljómsveit Íslandssögunnar en hún var starfandi í kringum 1970, um áratugur leið þar til önnur slík sveit leit dagsins ljós hér á landi. Segja má að áföll hafi nokkuð einkennt sögu þessarar tímamótasveitar.

Það mun hafa verið Ragnar Bjarnason sem var aðalhvatamaður þess að Fljóðatríóið var stofnað en sveitin var stofnuð síðla árs 1968, jafnvel 67. Upphaflega voru í sveitinni þær Benedikta K. Breiðfjörð Benediktsdóttir orgelleikari, Guðný Soffía Valentínusdóttir gítarleikari og María Einarsdóttir gítarleikari, allar þrjár sungu þær en það vakti sérstaka athygli að María lék á rafmagnsgítar.

Þær stöllur komu fyrst fram opinberlega snemma sumars 1969 þegar þær léku á útiskemmtun í Árbænum en aðeins liðu fáeinar vikur uns fyrsta áfallið dundi yfir en Guðný lést þá eftir skammvinn veikindi. Svo virðist sem sveitin hafi ekki verið starfandi um hríð eftir þetta en vorið 1970 birtist Fljóðatríó á nýjan leik, Sigurborg Einarsdóttir systir Maríu hafði þá tekið sæti Guðnýjar.

Fljóðatríó lék í framhaldinu heilmikið sumarið 1970, m.a. á dansleikjum héraðsmóta og annars konar skemmtunum með fjölbreytilegt prógramm sem innihélt bæði nýja og eldri tónlist, og svo einnig í kjölfarið fram á 1971 en þá um haustið lést Benedikta, einnig eftir veikindi. Þá höfðu tvær af fjórum meðlimum sveitarinnar látist langt fyrir aldur fram.

Fljóðatríó lék eitthvað áfram fram til 1972 en ekki liggja fyrir upplýsingar um hver tók sæti Benediktu. María og Sigurborg stofnuðu síðan SMS tríóið við þriðja mann, sem starfaði fram á miðjan áratuginn.