Forgarður helvítis (1991-)

Forgarður helvítis á upphafs árum sínum

Forgarður helvítis er um margt merkileg hljómsveit, hún hefur nú starfað – þó ekki samfleytt, síðan í byrjun tíunda áratugar liðinnar aldar undir merkjum grindcore harðkjarnarokks, sem var hluti af dauðarokks-vakningu þeirri sem náði hámarki hér á landi um og upp úr 1990, varð einnig áberandi í annarri slíkri bylgju sem spratt upp í lok aldarinnar þrátt fyrir að meðlimir hennar væru tíu til fimmtán árum eldri en flestir þeir sem þá áttu sviðið og sveitin er enn að störfum, hefur lítinn en traustan kjarna aðdáenda enda höfðar tónlist hennar tæplega til fjöldans. Sveitin sem er líklega þekktasta neðanjarðarsveit landsins hefur öðlast eins konar almennan költ-sess og þar á hugmyndafræði Sigga Pönk, söngvara sveitarinnar ekki hvað sístan þátt.

Tónlist sú sem oftast er skilgreind undir yfir-hugtakinu dauðarokk náði nokkrum vinsældum í kringum 1990 og upp úr þeim farvegi spratt Forgarður helvítis þegar nokkrir frændur á Stokkseyri og nágrenni stofnuðu sveitina í byrjun árs 1991, það voru gítarleikararnir Vernharður Reynir Sigurðsson og Sigurgrímur Jónsson sem komu sveitinni af stað og fljótlega bættust í hópinn þeir Magnús Másson trommuleikari og Sigurður Harðarson söngvari (Siggi pönk) en þeir eru allir tengdir ættarböndum og tengdir bænum Holti í Stokkseyrarhreppi fáeinum kílómetrum frá þorpinu en þar má segja að heimavöllur sveitarinnar hafi verið. Þeir frændur og félagar fengu einnig til liðs við sig bassaleikarann Kára Örlygsson frá Selfossi og þá var sveitin fullskipuð og fékk nafnið Forgarður helvítis, sem vakti strax athygli en sumir meðlimir sveitarinnar munu hafa veigrað sér við að segja sínum nánustu frá nafni hennar.

Forgarðurinn hóf þegar við að vinna frumsamið efni og kenndi sig við grindcore arm dauðarokksins, sveitin mun hafa komið fyrst fram í kjallara Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem flestir þeirra voru við nám og svo ríflega ári eftir að hún var stofnuð mætti hún til leiks í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1992. Flestar sveitir keppninnar voru að þessu sinni í dauðarokksgeiranum enda var sú sena um það leyti rétt að ná hápunkti sínum, Forgarður helvítis var nokkuð sér á báti meðal þeirra þar sem sveitin bar íslenskt nafn, en þess má geta að fimm af þeim tuttugu og fjórum sveitum sem tóku þátt í keppninni það árið báru fimm upphafsstafinn C. Forgarður helvítis hafði ekki erindi sem erfiði í Músíktilraunum, sveitin vakti þar reyndar nokkra athygli en komst þó ekki í úrslit keppninnar og þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Kolrössu krókríðandi og nágrönnum sínum í Skítamóral þetta undankvöld, reyndar sigraði fyrrnefnda sveitin tilraunirnar það árið.

Forgarðurinn 1992

Þeir félagar héldu þó ótrauðir áfram, spiluðu eitthvað opinberlega um sumarið, m.a. á listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð í Héðinshúsinu og um veturinn 1992-93 var sveitin meðal nokkurra hljómsveita sem tóku sig saman og hljóðrituðu lög sem komu síðan út á safnplötunni Suðurlandsskjálftinn vorið 1993, sveitin var þar nokkuð á skjön við aðrar en þarna var boltinn farinn að rúlla. Það sama sumar lék Forgarðurinn nokkuð víða og m.a. á óháðu listahátíðinni Ólétt ´93 en um haustið fór sveitin í pásu þegar Siggi pönk hélt til Þýskalands þar sem hann bjó og starfaði í um eitt ár.

Það var svo síðla árs 1994 sem næst spyrst til sveitarinnar en hún lék þá í Rósenberg kjallaranum, þeir félagar sátu ekki auðum höndum um veturinn því vorið 1995 sendi sveitin frá sér demo-kassettuna Brennið kirkjur sem fór reyndar ekki hátt hérlendis enda var hún fyrst og fremst ætluð til að vekja athygli erlendra tónlistarblaðamanna og útsendara útgáfufyrirtæka í þessari tegund tónlistar en Siggi pönk hafði þá aflað sér ýmissa sambanda erlendis, aðeins nokkrir tugir af þeim tvö hundruð eintökum sem framleidd voru, fóru í sölu hér á landi. Kassettan fékk ágætar viðtökur erlendis og í kjölfarið fékk sveitin boð um að vera með á safnplötum/kassettum víðs vegar um heim, fyrst í Svíþjóð og Portúgal en síðar í löndum eins og Japan, Brasilíu, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Bandaríkjunum og víðar.

Um svipað leyti bárust einnig af því fréttir að split-plata (7 tomma) væri í bígerð í samstarfi við hljómsveitina Saktmóðiga en af því varð þó ekki af einhverjum ástæðum, hins vegar kom út split-kassetta í Austurríki sem sveitin deildi plássi með hljómsveitinni Excreted alive, sú kassetta bar titilinn El dictator en casa / Forgarður helvítis og hafði að geyma lög sem áður höfðu komið út á Brennið kirkjur.

Forgarður helvítis

Forgarður helvítis spilaði ekki mikið á þessum árum en þó stöku sinnum á stöðum eins og Tveimur vinum, Gauki á Stöng og haustið 1995 lék sveitin í fyrsta sinn á pönkhátíð sem kennd var við Norðurkjallara MH og átti sveitin eftir að vera fastagestur á þeirri hátíð næstu haustin (til 1998), í eitt skipti kom söng- og leikkonan Ólafía Hrönn fram með sveitinni og er erfitt að ímynda sér þá uppákomu. Sveitin átti svo fimm lög á safnplötunni Pönkið er dautt, sem m.a. hafði að geyma upptökur frá hátíðunum en sú plata kom út 2000. Og sveitin átti efni á fleiri safnplötum hér heima, árið 1997 kom út plata sem bar heitið Fire & Ice: an Icelandic metal compilation og áttu þeir félagar tvö lög þar

Sumarið 1996 var sveitin að vinna að útgáfu sjö tommu vínylplötu sem átti að koma út í Bandaríkjunum en ekki finnast neinar frekari upplýsingar um hvort sú plata kom nokkru sinni út, um svipað leyti voru þeir félagar að vinna að split-plötu (vínyl) með suður-afrísku grindcore-sveitinni Deviate en sú plata kom svo út í Tékklandi 1997 undir titlinum Forgarður helvítis / Battery of innocence.

1998 urðu þær breytingar á skipan sveitarinnar að Kári bassaleikari sem þá var við nám erlendis hætti en þá höfðu meðlimir hennar verið hinir sömu frá upphafi, sæti Kára tók Magnús Halldór Pálsson (Maddi) en hann hafði verið með flestum hinna í hljómsveitinni Múspell sem var eins konar systursveit Forgarðsins.

Forgarður helvítis 2002

Lítið fór fyrir Forgarði helvítis þessi síðustu ár aldarinnar enda var Siggi pönk söngvari þá upptekinn í námi sínu í hjúkrunarfræði sem hann lauk 1999. Eftir það lifnaði nokkuð yfir spilamennskunni og árið 2000 lék sveitin heilmikið og meðal annars á tónlistarhátíðunum Ringulreið og Glundroða ásamt fleiri sveitum en þarna hafði orðið ný vakning í hörðu rokki og sveitir eins og Mínus, Vígspá og Sólstafir komu til sögunnar en áberandi fleiri sveitir báru íslensk nöfn en í „fyrri“ bylgjunni í kringum 1990. Þeir Forgarðs-liðar voru auðvitað gömlu mennirnir í harðkjarnasenunni en þóttu ekkert gefa þeim yngri eftir í sviðsframkomu auk þess sem Siggi pönk söngvari var duglegur að koma hugmyndafræði sinni á framfæri á tónleikum en hann er anarkisti, feministi og í forsvari andkristinna – og lék sveitin því oft á árlegri Andkristnihátíð/Sólstöðuhátíð sem haldin var árunum 2000-13. Reyndar hefur boðskapurinn ekki náð að komast alltaf til skila áheyrenda þar sem söngurinn í þessum geira rokksins er ekki alltaf skýr en sveitin hefur stundum brugðist við því með því að varpa textunum upp á skjá.

Nú tók við tímabil sem kalla mætti hið afkastamesta í sögu Forgarðs helvítis, árið 2000 sendi hljómsveitin frá sér eins konar safnplötu samnefnda henni en á þeirri plötu var að finna megnið af þeim upptökum sem  áður höfðu komið út, þeim var skipt í þrjá hluta; Helvíti sessions (upptökur frá 1999 sem höfðu m.a. komið út á safnplötunni Pönkið er dautt), Brennið kirkjur demo (af samnefndri kassettu 1995) og Messiarse demo (af safnplötunni Suðurlandsskjálftinn 1993) en alls voru lögin tuttugu og níu talsins á þrjátíu og fimm mínútum, eitt einkenni sveitarinnar hefur einmitt verið lög í allra stysta lagi. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu en fremur slaka í DV.

Árið 2001 var stórt í sögu Forgarðs helvítis en sveitin fagnaði þá tíu ára afmæli, hún var eins og árið á undan nokkuð virk í spilamennskunni og um sumarið tóku þeir félagar félagsheimili Gaulverjabæjarhrepps, Félagslund á leigu um tíu daga skeið í því skyni að breyta því tímabundið í hljóðver þar sem þeir tóku upp nítján lög. Um það leyti hafði Magnús trymbill hætt í sveitinni og lentu þeir í vandræðum með trommuleikinn í upptökunum en svo fór að Sigurgrímur tók að sér trommusláttinn en hann var einmitt trommuleikari í systursveitinni Múspell. Þetta ár kom út heiðursafnplata Forgarðinum til heiðurs undir titlinum Afmæli í helvíti í tilefni af tíu ára afmælinu en ýmsar harðkjarnasveitir léku þar efni eftir Forgarð helvítis auk þess sem sveitin sjálf kom þar einnig við sögu með nýtt efni.

Forgarðurnn um 2002

Forgarður helvítis var á þessum tímapunkti skipaður þeim Sigga pönk söngvara, Vernharði gítarleikara, Magnúsi bassaleikara og Sigurgrími sem nú lék á trommur sem fyrr segir og þannig var sveitin skipuð þegar platan sem hljóðrituð hafði verið í Félagslundi kom út sumarið 2002. Þetta var í raun fyrsta plata sveitarinnar því áður höfðu einungis komið út demo- og safnútgáfur með henni. Platan sem bar nafnið Gerningaveður var gefin út í þrjú hundruð eintökum og fékk hún prýðilega dóma í tímaritinu Sándi og ágæta í Morgunblaðinu en sándið á henni þótti ekki gott. Gerningaveður seldist upp og var endurútgefin og síðar gefin út einnig í Grikklandi 2007 en hún hafði þá verið aukin að efni, hafði t.d. að geyma myndband með sveitinni. Gríska útgáfan kom út í fimm hundruð eintökum.

Þetta ár (2002) átti sveitin einnig þrjú lög á styrktarsafnplötunni Styrktartónleikar fyrir dordingull.com en hún hafði verið hljóðrituð á tónleikum um vorið. Trommuleikarinn Kristján Einar Guðmundsson leysti Sigurgrím eitthvað af það árið sem færði sig þá aftur yfir á gítarinn en trommuleikaravandamálin voru síðan leyst í eitt skipti fyrir öll þegar Magnús, gamli trommarinn byrjaði aftur 2003, Forgarðurinn spilaði nokkuð það ár sem og framan af næsta ári en þá um haustið (2004) fluttist Siggi pönk til Hollands og þar með fór sveitin í pásu um tíma eftir að hafa haldið nokkurs konar kveðjutónleika.

Forgarður helvítis kom næst fram á tónleikum rúmu ári síðar, á andkristnihátíðinni í desember 2005 þegar Siggi pönk var í stuttu fríi hér heima en hann kom síðan aftur í slíka heimsókn vorið 2005 og þá lék sveitin aftur á tónleikum, þá hafði Ólafur Árni Másson gítarleikari bæst í hana.

Forgarður helvítis

Svo virðist sem Forgarður helvítis hafi verið komin af stað aftur sumarið 2006 en sveitin lék þá nokkuð og um haustið en þó ekki eins ört og áður þegar sem mest var að gera. Sveitin spilaði einnig eitthvað í upphafi árs 2007 og hitaði svo upp fyrir bandarísku sveitina Cannibal corpse um sumarið og svo fyrir spænska tríóið Moho um haustið en Sigurgrímur hætti í sveitinni um það leyti. Árið 2008 léku þeir Forgarðs-liðar ásamt bandarísku sveitinni Misery index á tónleikum, á Eistnaflugi um sumarið og svo á Andkristnihátíðinni við lok árs en að öðru leyti hafði hún sig lítið í frammi. Þannig var það næstu árin að sveitin kom fram í örfá skipti á ári en sendi ekki frá sér nýtt efni þrátt fyrir að vera eitthvað farnir að vinna efni á nýja plötu þegar færi gáfust.

Þegar Siggi pönk fluttist síðan til Brighton á Englandi dró enn úr virkni Forgarðs helvítis en sveitin hefur þó aldrei hætt og þegar hann hefur birst á heimaslóðum er oftar en ekki talið í gigg, sveitin hefur ekki sent frá sér nýtt efni um árabil og óvíst er um hvort þær hálfkláruðu upptökur sem til eru með sveitinni verði nokkurn tímann gefnar út. Hluti eldra efnis sveitarinnar er orðið aðgengilegt á streymisveitum Internetsins og ekki er loku fyrir skotið að meira efni birtist þar. Sveitin er því enn starfandi, kemur stöku sinnum fram, t.a.m. á festivölum eins og Norðanpaunk og Reykjavík Metalfest en tíminn verður einn að leiða í ljós hvað verður um framhald Forgarðs helvítis, þekktustu neðarjarðarsveitar Íslandssögunnar með sterka textaboðskapinn.

Efni á plötum