Franz Mixa (1902-94)

Franz Mixa

Margir erlendir tónlistarmenn sem komu til Íslands á fyrri hluta síðustu aldar höfðu mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf en fáir þó jafn mikil áhrif og Austurríkismaðurinn dr. Franz Mixa. Ekki aðeins hafði hann áhrif á íslenska tónlist með beinni aðkomu heldur komu í kjölfarið hingað til lands fleiri slíkir tónlistarmenn fyrir hans atbeina.

Franz Mixa fæddist í Vín í Austuríki 1902 og nam tónlist frá unga aldri, hann var farinn að vinna fyrir sér sem tónlistarmaður aðeins fimmtán ára gamall sem píanóleikari, með kammersveitum og við að aðstoða söngvara við æfingar – væntanlega sem undirleikari. Hann lauk svo prófi í hljómsveitarstjórnun og síðan doktorsprófi í tónlistarfræðum aðeins tuttugu og sjö ára gamall vorið 1929, og um svipað leyti var honum bent á að sækja um hljómsveitarstjórastarf á Íslandi en þá stóð til að halda upp á þúsund ára afmæli alþingis á Íslandi sumarið 1930. Hann hlaut starfið úr hópi um þrjátíu umsækjenda og var kominn hingað til lands haustið 1929.

Verkefni Franz var að stjórna Hljómsveit Reykjavíkur sem hafði verið stofnuð nokkrum árum fyrr, á áðurnefndri Alþingishátíð og hans beið ærinn starfi. Eitt af því fyrsta var að aga meðlimi sveitarinnar en óstundvísi var m.a. það sem taka þurfti á, hann sá líka fljótlega að auka þyrfti við mannskapinn í henni þar sem sveitin var alltof fáliðuð og færir hljóðfæraleikarar ekki á hverju strái á Íslandi á þessum tíma. Hann fékk því „lánaða“ ellefu hljóðfæraleikara frá Konunglegu sinfóníuhljómsveitinni í Kaupmannahöfn til að manna sveitina á Alþingishátíðinni með þeim hætti að hann gat stigið stoltur af sviðinu. Franz stýrði jafnframt Lúðrasveit Reykjavíkur á hátíðinni við góðan orðstír.

Franz Mixa

Í tilefni af hátíðinni voru fjölmargar hljómplötur teknar upp eins og kunnugt er en tæknimenn frá Columbia komu hingað til lands gagngert til þess, afrakstur þeirra vinnu var á milli sextíu og sjötíu plötur gefnar út af Fálkanum en Franz kom að um þriðjungi þeirra með beinum hætti sem stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur og sem undirleikari ýmissa einsöngvara s.s. Einars Markan, Sigurðar Markan, Hreins Pálssonar og Sigurðar Skagfield.

Er verkefni Franz var lokið hélt hann af landi brott en honum var síðan boðið að koma aftur og halda áfram starfi sínu við stjórn Hljómsveitar Reykjavíkur, sem hann og þáði en þó með þeim skilyrðum að stofnaður yrði tónlistarskóli því ekki væri grundvöllur að halda úti slíkri hljómsveit ef menntun tónlistarmannanna væri ekki til staðar. Því fór svo að Tónlistarskólinn í Reykjavík var stofnaður 1930 beinlínis fyrir tilstilli Franz Mixa og þegar skólinn lenti í fjárhagsvandræðum tveimur árum síðar var Tónlistarfélagið stofnað til að tryggja fjárhagslegan grundvöll fyrir skólann en að því komu ýmsir aðilar úr viðskipta- og menningarlífinu, þar með var rekstur skólans tryggður.

Franz sinnti píanó- og söngkennslu við tónlistarskólann til ársins 1938 auk tónfræði- og tónsmíðakennslu, margt síðar þekkt tónlistarfólk naut kennslu hans s.s. Árni Björnsson, Svanhvít Egilsdóttir, Björn R. Einarsson, Karl O. Runólfsson og Magnús Blöndal Jóhannsson. Hann sinnti jafnframt fjölda annarra verkefna, stjórnaði auðvitað áfram Hljómsveit Reykjavíkur, stofnaði og lék með Tríói Tónlistarskólans í Reykjavík sem spilaði reglulega á tónleikum og í Útvarpssal. Hann kom einnig nokkuð fram sem undirleikari fyrir einsöngvara og sinnti margvíslegum verkefnum á sviði auk þess að leika eitthvað inn á plötur en meðal annarra minnisverðra verkefna hans má nefna að hann stýrði Hljómsveit Reykjavíkur í fyrstu uppfærslum á óperum og óperettum hérlendis, Meyjaskemmunni, Bláu kápunni og Systurinni frá Prag, sem einnig voru sýndar á landsbyggðinni. Sjálfur þýddi hann einhver verkanna og einnig var hann á þessum árum farinn að vinna að því að semja óperu sem unnin var upp úr Fjalla-Eyvindi (leikgerð Jóhanns Sigurjónssonar), þáverandi eiginkona hans, Katrín Ólafsdóttir sneri textanum yfir á þýsku.

Franz fór af landi brott árið 1938 þegar honum bauðst prófessorastaða í tónlistarfræðum við háskólann í Granz í Austurríki, hér hafði hann skilað góðu starfi og haft mikil áhrif á þróun tónlistarmála hérlendis. Starfi hans var þó í raun alls ekki lokið því að hingað til lands komu fjölmargir erlendir tónlistarmenn til starfa fyrir hans tilstuðlan, gerðu hér góða hluti og ílentust jafnvel fyrir lífstíð, þetta voru menn eins og Victor Urbancic, Carl Billich, Hans Ploder, Herbert Hriberschek (Herbert H. Ágústsson) og Páll Pampichler en Franz hafði t.d. kennt þeim síðast talda á námsárum sínum í Austurríki.

Franz Mixa á eldri árum

Eftir að til Austurríkis var komið var Franz kvaddur í herinn þegar heimsstyrjöldin skall á, hann var um tíma stríðsfangi Frakka og kom heim aftur úr þeirri vist 1948 og sleit þá samvistum við eiginkonu sína en þau höfðu þá verið aðskilin um nokkurra ára skeið og hún verið flóttamaður með syni þeirra tvo, annar þeirra lést á þeim flótta en hinn hefur búið hér á landi síðan.

Franz starfaði sem fyrr segir í Austurríki og varð þar einnig forstöðumaður Óperuskólans í Granz en fluttist á sjötta áratugnum til Munchen í Þýskalandi þar sem hann bjó síðan. Síðari eiginkona hans var óperusöngkonan Hertha Töpper og komu þau hingað til Íslands í nokkur skipti og héldu hér tónleika, m.a. árið 1957 en þeir tónleikar voru hljóðritaðir og síðan leiknir í útvarpinu. Hann var undirleikari eiginkonu sinnar og einnig Nönnu Egilsdóttur á tónleikum 1948 þar sem hún söng ljóðasöngva Schumanns en það var þá í fyrsta skipti sem slík tónlist var flutt á tónleikum hérlendis.

Síðari hluta ævi sinnar einbeitti Franz sér að tónsmíðum, kláraði óperu sína um Fjalla-Eyvind (Eyvind und sein Weib) og samdi fleiri óperur, hljómsveitarverkið Sinfonische Musik uber Isländische Volkslieder (sem byggði á íslenskum þjóðlagastefjum), ýmis kórverk og fleiri tónverk. Hann ritaði einnig fræðibækur um tónlist sem sumar hverjar hafa verið notaðar í kennslu.

Franz færði Landsbókasafninu að gjöf handrit sitt að óperunni um Fjalla-Eyvind árið 1982 á áttræðis afmæli sínu og hún var svo frumflutt í konsertformi tveimur árum síðar af Sinfóníuhljómsveit Íslands, hann var viðstaddur þann frumflutning en óperan hafði þá verið þýdd yfir á íslensku af Óskari Ingimarssyni.

Franz Mixa lést snemma árs 1994 í Munchen í Þýskalandi en hann var þá á nítugasta og öðru aldursári. Sem fyrr segir hafði fjöldinn allur af plötum komið út árið 1930 þar sem hann lék undir hjá ýmsum söngvurum en einnig hefur varðveist nokkur fjöldi upptaka þar sem hann stjórnar Hljómsveit Reykjavíkur og leikur með Tríói Tónlistarskólans. Hann hafði einmitt verið gerður að heiðursfélaga Tónlistarfélagsins og jafnframt hlotið fálkaorðuna fyrir tónlistarstörf sín á Íslandi.

Árið 1999 afhenti ekkja Franz Mixa Landsbókasafninu fjölmörg handrit hans að gjöf og við það tilefni var afhjúpuð brjóstmynd af honum. Þá voru haldnir minningartónleikar um hann árið 2002 í tilefni af aldarafmælis hans en það má með sanni segja að áhrifa hans á íslenskt tónlistarlíf gæti ennþá.