Freeport (1978-79)

Freeport

Hljómsveitin Freeport starfaði í nokkra mánuði seint á áttunda áratug síðustu aldar, en saga sveitarinnar hlaut sviplegan endi við lok verslunarmannahelgarinnar 1979.

Freeport var stofnuð síðla árs 1978 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Axel Einarsson gítarleikari, Jón Ragnarsson gítarleikari, Ólafur Kolbeins trommuleikari, Yngvi Steinn Sigtryggsson hljómborðsleikari og Gunnlaugur Melsteð söngvari og bassaleikari. Þeir voru allir þrautreyndir í bransanum og höfðu verið í ýmsum þekktum sveitum, Gunnlaugur hafði m.a. verið forsprakki Hauka sem var þekkt djammsveit. Nafnið Freeport kom frá samnefndri meðferðarstofnun í Bandaríkjunum og var eins konar gríntilvísun í þá stofnun en þeir félagar voru fjarri því að vera templarar, þeir lýstu því þó yfir í viðtali að þeir væru reyklaus hljómsveit. Sveitin var mestmegnis að leika cover-efni en hafði þó á takteinum nokkuð af frumsömdu efni, næganlegt til að fylla heila plötu – sögðu þeir í blaðaviðtali.

Freeport lék fyrstu mánuðina sem húshljómsveit í Klúbbnum en þegar voraði færði sveitin sig út á ballmarkað landsbyggðarinnar og lék á sveitaböllum. Þá höfðu orðið einhverjar mannabreytingar í sveitinni, Ágúst Ragnarsson bróðir Jóns var þá kominn í sveitina og lék líklega á gítar í henni en einnig kom nýr hljómborðsleikari til sögunnar um sumarið. Sveitin lék m.a. á útihátíð sem haldin var við Kolviðarhól í Ölfusi hálfum mánuði fyrir verslunarmannahelgina og tveimur vikum síðar lék sveitin á dansleik á Borg í Grímsnesi áður en þeir félagar héldu norður yfir heiðar og léku í Freyvangi í Eyjafirði.

Freeport á sviði

Það varð síðasti dansleikur sveitarinnar því á leið hennar suður á mánudagsmorgninum lést Gunnlaugur söngvari, aldrei kom fram nákvæmlega í fjölmiðlum hver dánarorsökin var en dagblöðin voru þeim mun duglegri að nefna að hann hefði lent í einhverjum átökum við félaga sinn í hljómsveitinni, þeim átökum hafði lyktað með uppgjöri á Holtavörðuheiðinni en fljótlega eftir það hafði dregið af honum og þegar sjúkralið kom aðvífandi frá Borgarnesi var hann úrskurðaður látinn. Dánarorsökin var að líkindum ekki rakin beint til átakanna.

Eins og nærri má geta spilaði Freeport ekki framar en flestir meðlimir sveitarinnar áttu þó eftir að koma við sögu með mismiklum hætti í íslensku tónlistarlífi.