Afmælisbörn 21. mars 2021

Friðbjörn G. Jónsson

Á þessum degi eru afmælisbörnin fjögur á skrá Glatkistunnar:

Bergsveinn Arilíusson söngvari er fjörutíu og átta ára, hann var áberandi á árunum fyrir og um aldamótin og söng lengst af með hljómsveitinni Sóldögg en einnig með Pöpum. Áður hafði hann vakið athygli með Ðí Kommittments og Acid juice, og 1993 kom út platan Kærleikur sem hafði að geyma gömul lög sungin af ungum og efnilegum söngvurum, þar söng hann tvö lög. Þá á Bergsveinn eina sólólpötu að baki

Eyþór Rafn Gissurarson er fimmtíu og níu ára gamall á þessum degi en hann hefur komið víða við á sínum ferli. Hann á að baki eina sólóplötu, Tónbrá sem kom út 2016 en hefur einnig leikið á gítar með fjölmörgum hljómsveitum í gegnum tíðina s.s. Ironside, Grettistaki, Sirka, Baggabandinu og Hljómsveit Sveinbjörns Dýrmundssonar.

Friðbjörn G. Jónsson tenórsöngvari er áttatíu og fimm ára gamall í dag. Hann er fæddur í Skagafirðinum en hefur búið syðra mest alla sína ævi, hann söng á sínum tíma með fjölmörgum kórum og kom reyndar hér fyrrum einnig fram sem einsöngvari, m.a. ásamt Sigfúsi Halldórssyni. Þá má heyra söng Friðbjörns á nokkrum plötum, m.a. á breiðskífunni Þar átti ég heima ásamt Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar, sem kom út árið 1973.

Elfar Berg Sigurðsson píanóleikari (1939-2011) átti einnig þennan afmælisdag, hann starfaði einna lengst með hljómsveitinni Lúdó og Stefáni / Lúdó sextett og lék á plötum þeirrar sveitar en starfrækti líka eigin hljómsveitir, Tríó Elfars Berg og Hljómsveit Elfars Berg.

Vissir þú að Helga Marteinsdóttir veitingakona á Röðli var iðulega klædd peysufötum í starfi sínu?