Frogs (1999)

Dúettinn Frogs birtist skyndilega haustið 1999 með plötu í farteskinu en þar reyndist vera á ferð Gunnar Bjarni Ragnarsson gítarleikari og lagahöfundur sem hafði gert garðinn með Jet Black Joe (og Jetz) nokkrum árum fyrr, ásamt söngkonunni Karólínu Helgu Eggertsdóttur (Karó).

Frogs (sem stóð fyrir Free range overground) starfaði þó ekki lengi, kom fram í nokkur skipti opinberlega til að kynna plötuna og hvarf síðan en ekki liggja fyrir upplýsingar hvort þau skötuhjúin höfðu annað tónlistarfólk sér til aðstoðar á þeim uppákomum.

Platan, The invincible frogs planet sem gefin var út af Stöðinni, hlaut fremur neikvæða dóma í Fókus og Morgunblaðinu en jákvæðari í Degi, einkum var fólki uppsigað við umslag plötunnar sem þótti almennt afspyrnuljótt.

Þau Gunnar Bjarni og Karólína birtust aftur fáeinum árum síðar við þriðja mann (konu) undir nafninu Frogsplanet, sem augljóslega er beint afsprengi Frogs.

Efni á plötum