Sextett Berta Möller (1960-62)

Sextett Berta Möller við nafnabreytinguna

Sextett Berta Möller var í raun sama sveit og Falcon sem þá hafði starfað í um þrjú ár í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar en ástæðan fyrir nafnabreytingunni var sú að einhver blaðaskrif höfðu þá orðið um að íslenskar hljómsveitir bæru erlend nöfn í stað íslenskra og vildi greinarhöfundur breytingar þar á.

Sextett Berta Möller kom fyrst fram í desember 1960 og voru meðlimir sveitarinnar þeir Berti Möller (Bertram Möller) söngvari og gítarleikari, Geir Viðar Vilhjálmsson píanóleikari, Eyjólfur Melsteð trompetleikari, Gizur Helgason gítarleikari, Arthur Moon bassaleikari og Sigurjón Fjeldsted trommuleikari.

Sveitin sem hafði undir Falcon nafninu leikið töluvert á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins hélt því áfram og næstu tvö árin lék sveitin á stöðum eins og Vetrargarðinum, Storkklúbbnum, Þórscafé og víðar í Reykjavík en einnig úti á landsbyggðinni yfir sumartímann.

Hinn sjö manna Sextett Berta Möller

Elva Sveinsdóttir söng eitthvað með sextettnum árið 1961 ásamt Berta en einnig söng Gizur gítarleikari, Donald Rader (síðar Dónald Jóhannesson) saxófónleikari bættist svo í hópinn svo sextettinn innihélt sjö meðlimi um tíma. Mjöll Hólm söng jafnframt með sveitinni um haustið.

Veturinn 1961 til 62 urðu nokkrar breytingar á skipan Sextett Berta Möller, Berti, Donald og Arthur voru áfram meðlimir sveitarinnar en Carl Möller píanóleikari kom í stað Geirs, Rúnar Georgsson saxófónleikari leysti Eyjólf af og Björn Gunnarsson tók við af Sigurjóni á trommunum. Þannig virðist sveitin hafa verið skipuð þar til hún hætti störfum vorið 1962.