Afmælisbörn 25. júní 2021

Ragnar Páll Steinsson

Í dag eru tvö afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Ragnar Páll Steinsson bassaleikari úr Hafnarfirði er fjörutíu og sjö ára í dag. Þekktasta sveit Ragnars er auðvitað Botnleðja en hann tók einnig þátt í Pollapönk ævintýrinu og hefur leikið með hljómsveitum eins og Blend og fleirum.

María (Einarsdóttir) Markan óperusöngkona átti afmæli á þessum degi en hún lést 1995, níræð að aldri. María (f. 1905) var af miklu söngfólki komin og söng t.a.m. oft með systkinum sínum bæði opinberlega sem og á plötum. Hún lagði stund á söngnám í Þýskalandi og starfaði þar í óperuhúsum í kjölfarið og síðar í Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum gekk henni þó fremur illa að fóta sig þar sem þeir voru gjarnir á að bendla fólk sem starfað hafði í Þýskalandi við nasisma. Fjölmargar 78 snúninga plötur komu út með Maríu á sínum tíma, flestar þó eftir 1950 þar sem lítið hafði verið gefið út af plötum í millistríðsára kreppunni og á stríðsárunum. Nokkrar safnplötur hafa komið út með söng Maríu.

Vissir þú að lagið Skammastu þín svo var frumraun Eiríks Fjalar á plötu?