Afmælisbörn 3. ágúst 2021

Bjarki Sveinbjörnsson

Tvö afmælisbörn tengd íslenskri tónlist eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Bjarki Sveinbjörnsson doktor í tónvísindum er sextíu og átta ára. Bjarki starfaði fyrrum sem tónmenntakennari en eftir að hann lauk doktorsnámi sínu 1998 um tónlist á Íslandi á 20. öld með áherslu á upphaf og þróun elektrónískrar tónlistar á árunum 1960-90, hefur hann mestmegnis starfað á fræðasviðinu. Hann starfrækir m.a. með dr. Jóni Hrólfi Sigurjónssyni tónlistarvefina Músík.is og Ísmús.is, auk þess að hafa veitt Tónlistarsafni Íslands forstöðu.

Þá er Ásgrímur Angantýsson tónlistarmaður og prófessor í málvísindum fjörutíu og níu ára gamall í dag. Ásgrímur hefur leikið á hljómborð, harmonikku og fleira með ýmsum sveitum eins og Loftskeytamönnum, Antik, Karakter, Raufarhafnarbandinu, Ferlíki, Nefndinni og Sífrera, svo nokkur hljómsveitanöfn séu nefnd.

Vissir þú að Bergur Thorberg myndlistamaður sem þekktastur er fyrir kaffimyndir sínar gaf út Metsöluplötu á sínum tíma?