Sléttuúlfarnir (1990-92)

Sléttuúlfarnir

Hljómsveitin Sléttuúlfarnir var eins konar súpergrúbba – í anda Travelling Wilburys, vildu sumir meina en sveitin starfaði um ríflega tveggja ára skeið og sendi frá sér tvær plötur.

Sléttuúlfarnir urðu til sem eins konar hljóðversband en sveitin varð í raun til í Hljóðrita og Sýrlandi vorið 1990 þegar Björgvin Halldórsson söngvari og gítarleikari setti saman band skipað ýmsum valinkunnum tónlistarmönnum sem þá voru um og yfir fertugt, Magnúsi Kjartanssyni hljómborðsleikara, Gunnari Þórðarsyni gítarleikara og Pálma Gunnarssyni bassaleikara ásamt unglambinu, hinum tæplega þrítuga trommuleikara Gunnlaugi Briem. Auk þess var fetilgítarleikarinn B.J. Cole kallaður til frá Bretlandi en hann hafði leikið á plötu hljómsveitarinnar Brimklóar ríflega áratug fyrr, fleiri gestir komu jafnframt við sögu í stúdíóinu og má þar nefna Sigríði Beinteinsdóttur söngkonu sem hafði fáeinum árum fyrr slegið í gegn með Vertu ekki að plata mig ásamt Björgvini og HLH flokknum, Árna Scheving á harmonikku, Jon Kjell Seljeseth á hljómborð og fleiri.

Tónlistin var kántrískotið popprokk og til að byrja með hafði ætlunin verið að leika hreint kántrí en þá hafði í raun engin íslensk hljómsveit leikið slíka tónlist síðan Brimkló var og hét, enda var vinnutitill plötunnar Við heygarðshornið og lengi vel hafði jafnvel staðið til að platan yrði hljóðrituð vestan hafs.

Skífan, ellefu laga, kom svo út í lok október í vínylplötu-, geisladisks- og kassettuformi eins og þá var algengt, og hafði þá hlotið titilinn Líf og fjör í Fagradal, tónlistin kom úr ýmsum áttum, þrjú laganna voru eftir Björgvin sjálfan, tvö eftir Gunnar og eitt eftir Magnús en Jónas Friðrik Guðnason hirðskáld Ríó tríósins átti flesta textana, eitt laganna – Skýið hafði áður komið út í sólómeðförum Björgvins sjálfs.

Óhætt er að segja að platan hafi slegið í gegn og mörg laga hennar hafa orðið sígild þótt þau hefðu ekki endilega orðið vinsæl þarna um haustið, en þarna voru lög eins og Litli kall (sem Sigríður Beinteinsdóttir söng á móti Björgvini), Akstur á undarlegum vegi, Hún er ekki fyrir þig, Ég er ennþá þessi asni sem þú kysstir þá og Ég fæddist ekki í Keflavík. Platan seldist jafnframt mjög vel, hún var með söluhæstu plötum ársins, náði 7500 eintökum og þar með platínusölu. Gagnrýnendur voru þó ekki ýkja hrifnir og þannig fékk platan varla nema sæmilega dóma í DV en þokkalega í Tímanum og Morgunblaðinu.

Fljótlega eftir útgáfu plötunnar hófu þeir félagar að koma fram opinberlega í sjónvarpi, t.d. í vinsælum þætti Hermanns Gunnarssonar, Á tali hjá Hemma Gunn og var það sjálfsagt til að ýta undir vinsældir plötunnar en þeir félagar voru auðvitað allir þekktir tónlistarmenn og áttu sinn stað í þjóðarsálinni. Þá voru jafnframt gerð myndbönd við nokkur laganna.

Sléttuúlfarnir

Þótt sveitin spilaði nánast ekkert nema í sjónvarpi haustið 1990 var fljótlega á nýju ári gefið út að ný plata yrði gefin út með Sléttuúlfunum síðsumars 1991 og að vinnubrögðin á þeirri plötu yrðu á þann veg að hópurinn tæki allur þátt í sköpuninni en Björgvin hafði haft yfirumsjón og stjórn yfir vinnslu fyrri plötunnar. Ekki varð þó úr að platan kæmi út um sumarið, hún beið haustsins en þá biðu jafnframt önnur verkefni sveitarinnar, þá var opinberað að Sléttuúlfarnir yrðu eins konar húshljómsveit í nýjum skemmtiþætti sem hæfi göngu sína á Stöð 2 um haustið. Þátturinn bar heitið Óskastund og var í umsjá Eddu Andrésdóttur og Ómars Ragnarssonar og þar átti sveitin eftir að vera vikulega á skjám landsmanna um veturinn 1991-92 í opinni dagskrá þar sem hún lék tónlist af ýmsu tagi.

Nýja platan kom svo út í nóvember undir titlinum Undir bláum mána, aðstæður voru allt aðrar núna en haustið á undan að því leyti að sveitin var nú raunverulega starfandi. Platan þótti ekki eins kántrískotin og Líf og fjör í Fagradal og tónlistin var að þessu sinni mun poppaðri, hún var þrettán laga og voru nú öll lögin eftir þá Björgvin, Magnús og Gunnar en flestir textarnir eftir Jónas Friðrik. Tvö laganna voru instrumental og var annað þeirra gamla Hljóma lagið Bláu augun þín þar sem laglínan var leidd af fetilgítarleik B.J. Cole sem kom við sögu þessarar plötu eins og hinnar fyrri. Sveitin var skipuð sömu meðlimum og áður nema að Tómas M. Tómasson hafði tekið stöðu Pálma bassaleikara.

Fyrst laganna til að njóta vinsælda var Við erum ein en það birtist fyrst á Pepsi listanum og náði toppi þess lista á sama tíma og það náði toppsæti Íslenska listans, önnur vinsæl lög plötunnar voru Sönn ást, Hring eftir hring, Ég bíð þín undir bláum mána og Florida en síðast talda lagið var raddsett í anda Beach boys og var víðs fjarri því kántríi sem fyrri platan hafði að geyma. Platan hlaut mun jákvæðari dóma skríbenta dagblaðanna en sú fyrri, og þannig fékk hún mjög góða dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Degi, þrátt fyrir það seldist hún ekki nándar nærri eins vel og fyrri platan eða í aðeins 3200 eintökum.

Sléttuúlfarnir fylgdu plötunni nú nokkuð eftir með spilamennsku á opinberum vettvangi og Óskastundarþættirnir voru á dagskrá Stöðvar 2 fram á vorið 1992. Þegar þeirri þáttagerð sleppti starfaði sveitin áfram, lék m.a. á 5 ára afmælistónleikum Hard rock um sumarið og síðan var opinberað að sveitin yrði aðalhljómsveitin á Bindindismótinu í Galtalæk um verslunarmannahelgina. Við það tækifæri sendu þeir félagar frá sér nýtt lag, Ástfangin við Galtalækjarskóg sem naut nokkurra vinsælda síðsumars en á Vinsældalista Íslands þar sem lagið dvaldi um nokkurra vikna skeið var titill þess Í Galtalækjarskógi – lagið kom aldrei út á plötu en sveitin naut hylli þeirra 9500 gesta sem mættu í Galtalæk.

Um þetta leyti hafði Einar Valur Scheving leyst Gunnlaug af á trommunum og ekkert benti til annars en að Sléttuúlfarnir héldu áfram störfum, sveitin lék á nokkrum dansleikjum síðsumars m.a. í Sjallanum á Akureyri, í Vestmannaeyjum og víðar, og þá var jafnframt talað um að þriðja platan yrði hljóðrituð að ári. Aldrei varð þó úr þeim fyrirætlunum því þegar sveitin dró sig í hlé eftir spilamennsku haustsins spurðist ekkert frekar til hennar og síðan hefur hún ekki komið saman nema til að leika ásamt fleiri hljómsveitum á styrktardansleik fyrir Rúnar Júlíusson undir yfirskriftinni Með stuð í hjarta, haustið 1996.

Þar með var saga Sléttuúlfanna úti en mörg laga sveitarinnar hafa lifað ágætu lífi og heyrast reglulega leikin í útvarpi, þá hafa lög hennar komið út á fjölmörgum safnplötum, bæði tengdum Björgvini Halldórssyni (Gullvagninn – fjögurra diska safnpakki (2011), Gullvagninn – þriggja vínylplötusafnplata (2021), Þig dreymir kannski engil: Ballöður Björgvins – tveggja diska safn (2017) og Þó líði ár og öld – tveggja diska safn (1994)) og einnig plötum tengdum Gunnari Þórðarsyni (Himinn og jörð – þriggja diska safn (2015)) en jafnframt á almennum safnplötum eins og Svalasmellum (1995), Íslandslaga-seríunni, Óskalögum 7 (2003), Sveitasælu 2 (1993), 100 vinsælum lögum (2006) og Verslunarmannahelginni (1999).

Efni á plötum