
Karl Olgeirsson
Þrjú tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:
Karl Olgeir Olgeirsson hljómborðsleikari og lagahöfundur á stórafmæli en hann er fimmtugur á þessum degi. Hann hefur starfað ýmist í hljóðverum sem upptökumaður eða hljóðfæraleikari en einnig með ýmsum hljómsveitum í gegnum tíðina. Sem dæmi um sveitir sem hann hefur verið í má nefna Brúðkaup Fígarós, Fagmenn, MEir, Yfir strikið, Zikk Zakk Milljónamæringarnir, Rjúpan og Svartur pipar. Karl hefur einnig fengist nokkuð við leikhústónlist og sent frá sér sólóefni.
Pétur Örn Guðmundsson söngvari, lagahöfundur, hljómborðs- og gítarleikari er fimmtíu og eins árs gamall. Pétur vakti fyrst verulega athygli fyrir hlutverk sitt sem Jesús í söngleiknum Súperstar hér um árið og festist þá Jesúnafnið við hann en faðir hans hafði einnig gert sama hlutverki skil löngu áður. Pétur er jafnframt þekktur Eurovision bakraddasöngvari og hefur sungið með fjöldanum öllum af hljómsveitum s.s. Buff, Dúndurfréttum, Poppvélinni, Rask, Hangir á bláþræði, Íslenska fánanum, Sirkus Babalú, Sölku og Fjallkonunni
Þá á Elín Sigurvinsdóttir söngkona og fyrrum íþróttakennari áttatíu og fimm ára afmæli í dag. Elín nam söng hjá Maríu Markan og síðar í Hollandi og Austurríki en hefur alltaf starfað hér heima, sungið í útvarpi, í óperum og á tónleikum. Söng hennar er að finna á nokkrum jóla- og einsöngsplötum s.s. Laufvindum, Hávan dansinn hefjum: íslensk þjóðlög og danskvæði, Má ég í fang þér færa og fleirum, hún hefur einnig sungið einsöng með Dómkórnum inn á plötu.
Vissir þú að Jónsi í Sigur rós tók upp fyrsta lagið sem Írafár hljóðritaði?