Myrkvi með Draumabyrjun – nýtt lag

Myrkvi

Hljómsveitin Myrkvi hefur nú á nýju ári, nánar tiltekið á þrettándanum sent frá sér smáskífu sem ber nafn við hæfi svona í upphafi árs – Draumabyrjun en lagið er nú aðgengilegt á Spotify auk þess sem hægt er að líta myndband við það á Youtube.

Myrkvi var áður einstaklingsverkefni Magnúsar Thorlacius en hann hefur nú fengið til liðs við sig Yngva Rafn Garðarsson Holm félaga sinn úr tríóinu Vio (sem sigraði Músíktilraunir 2014 og hlaut tilnefningar sem Bjartasta vonin (2015) og plata ársins (Dive in – 2016) á Íslensku tónlistarverðlaununum) og er Draumabyrjun fyrsta lagið sem þeir senda frá sér saman undir Myrkva-nafninu en það fjallar einmitt um upphafið á tónlistarferli þeirra. Tónlistina mætti skilgreina sem spræka indírokktóna sem kallast á við sækadelíska slyddu svo orðalag þeirra sjálfra sé notað. Magnús hafði áður sent frá sér breiðskífuna Reflections og nokkrar smáskífur í nafni Myrkva og fengið ágætar viðtökur.

Af Myrkvahöfðingjunum er það jafnframt að frétta að dúóið verður með tónleika á KEX Hostel þann 4. febrúar nk. og þar verða í för með þeim félögum Ragnar Ólafsson úr Árstíðum og Hayfitz, bandarískt söngvaskáld á Evróputúr.